Morgunkorn Íslandsbanka

Myndarlegur kortaveltuvöxtur í fyrra

14.01.2015

Þróun kortaveltu á síðasta ári bendir til þess að einkaneysluvöxtur hafi verið all myndarlegur, og líkast til talsvert meiri en 9 mánaða tölur Hagstofu gefa til kynna. Vöxturinn var umtalsvert hraðari hvað varðar veltu á erlendri grundu en innanlands, og var það bæði vegna aukinna utanlandsferða og mikils vaxtar netverslunar. 
Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun var raunvöxtur í kortaveltu einstaklinga milli ára 3,8% í desember síðastliðnum. Þar af nam vöxtur í kortaveltu innanlands 2,1% en vöxtur í kortaveltu erlendis 20,2%. Þetta er heldur hægari vöxtur en var að jafnaði á árinu, en að jafnaði var kortavelta einstaklinga 4,8% meiri að raunvirði á síðastliðnu ári en á árinu 2013. Þar af nam vöxtur í kortaveltu innanlands 3,3% en erlendis 18,3%.

Vísbendingar um talsverðan einkaneysluvöxt í fyrra

Þróun kortaveltu á nýliðnu ári er í ágætu samræmi við spá okkar um að einkaneysla hafi vaxið um 4,5% á árinu. Þó benda bráðabirgðatölur Hagstofunnar, sem ná raunar einungis til fyrstu 9 mánaða ársins, til þess að einkaneysla hafi vaxið nokkuð minna, eða um 2,8% að raunvirði. Eins og við höfum áður fjallað um þá teljum við ekki ósennilegt að Hagstofan komi til með að endurskoða þær tölur upp á við, sér í lagi tölur 3. ársfjórðungs. 
 
Eins og myndin hér til hliðar sýnir liggur munurinn þarna á milli að langmestu leyti í mismunandi verðvísitölum, en verðvísitala einkaneyslu á 3. ársfjórðungi þróaðist með mjög ólíkum hætti en vísitala neysluverðs með eða án húsnæðis á sama tíma. Ljóst er að mun meira samræmi er á þróun þessara talna (þ.e. kortaveltu og einkaneyslu) á breytilegu verðlagi en á föstu verðlagi. Þetta má glögglega sjá á meðfylgjandi mynd.

Hagstofan hefur sagt að munurinn á þróun þessara vísitalna liggi í mismunandi meðhöndlun ýmissa undirliggjandi þátta á borð við íbúða- og leiguverð, neyslu ferðamanna hér á landi o.fl. Þessi mismunur á aðferðafræði hefur þó ekki leitt til jafn afgerandi munar á þróun vísitalnanna undanfarin misseri og í síðustu tölum. Einnig er áhugavert að verðbólgan skv. verðvísitölu einkaneyslu jókst talsvert á 3. fjórðungi síðasta árs á meðan hið gagnstæða átti sér stað m.v. vísitölur neysluverðs. 

Þá benda aðrir hagvísar á borð við smásöluveltu, innflutning neysluvara og nýskráningar bifreiða einnig til þess að vöxtur einkaneyslu í fyrra hafi verið talsvert meiri en 9 mánaða tölurnar gefa til kynna. Verður því fróðlegt að sjá bráðabirgðatölur Hagstofu fyrir einkaneyslu á árinu öllu, sem birtar verða þann 10. mars næstkomandi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall