Morgunkorn Íslandsbanka

Mikil spenna á vinnumarkaði

05.05.2017

Svo virðist sem ástandið á vinnumarkaði hér á landi sé orðið nokkuð áþekkt því sem var þegar þenslan náði hámarki í síðustu uppsveiflu. Atvinnuþátttaka og hlutfall starfandi af mannafla er nú með allra mesta móti, og atvinnuleysi í lágmarki. Vart þarf að nefna að mikill vöxtur ferðaþjónustunnar hefur haft hér stóru hlutverki að gegna, bæði með hraðri fjölgun starfa í geiranum sjálfum og eins vegna afleiddra áhrifa á mannaflsþörf í öðrum geirum á borð við byggingariðnað. Þessari þörf hefur m.a. verið mætt með innflutningi á vinnuafli sem hefur dregið úr áhrifum vaxandi vinnuaflseftirspurnar á launaskrið og þar með innlendan kostnaðarþrýsting. Þar að auki virðast fleiri Íslendingar vera virkir á vinnumarkaði, enda hérlendur vinnumarkaður óvenju sveigjanlegur hvað varðar atvinnuþátttöku. 

Ástandið kallar á innflutt vinnuafl 

Atvinnuástandið hér á landi í samanburði við í öðrum löndum hefur leitt til verulegrar fólksfjölgunar, sér í lagi erlendra ríkisborgara. Á fyrsta ársfjórðungi  fjölgaði landsmönnum um 1.660 manns frá fyrri fjórðungi og er fjöldinn kominn upp í 340.110 manns. Fjölgunina má að langmestu leyti rekja til þess að fleiri fluttu til landsins en frá því á fjórðungnum, eða sem nemur um 1.300 manns. Þar af voru 1.170 aðfluttir erlendir ríkisborgarar umfram brottfluttra en 130 með íslenskt ríkisfang. Eru erlendir ríkisborgarar orðnir 31.470 hér á landi, sem jafngildir 9,3% af landsmönnum. Hafa þeir aldrei verið fleiri hér á landi og má til samanburðar nefna að í síðustu uppsveiflu voru þeir mest um 7,6% af mannfjölda. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofan birti í gær um mannfjölda á 1. ársfjórðungi 2017.

Þessi mikla fjölgun erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði er til marks um hversu sveigjanlegur hérlendur vinnumarkaður er. Óhætt er að fullyrða að hinn hraði vöxtur jafn vinnuaflsfrekrar atvinnugreinar og ferðaþjónustu hefði ekki verið mögulegur nema fyrir verulegan vöxt á innfluttu vinnuafli. Að sama skapi væri væntanlega launaskrið, og þar með innlendur kostnaðarþrýstingur og verðbólga, umtalsvert meira í hagkerfinu öllu ef ekki hefði komið til þessarar aukningar á innfluttu vinnuafli. Það má færa rök fyrir því að sveigjanleiki vinnumarkaðar hér á landi hafi stuðlað að kaupmáttaraukningu með því bæði að liðka fyrir aukinni öflun útflutningstekna í ferðaþjónustu, sem hefur leitt til verulegrar styrkingar krónu, og með því að draga úr innlendum verðbólguþrýstingi þrátt fyrir hraða hækkun samningsbundinna launa síðustu misseri.

Metin falla í mars

Ofangreind ummerki á vinnumarkaði má lesa úr niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofu Íslands fyrir mars sem birtar voru í vikunni. Samkvæmt þeim voru 202.800 manns á vinnumarkaðinum að jafnaði í mars, sem er 11.800 fleiri en í sama mánuði í fyrra og jafngildir 6,2% fjölgun vinnuafls. Atvinnuþátttaka mældist 84,9% og hlutfall starfandi 83,4%, og hafa þessi hlutföll aldrei náð sömu hæðum í marsmánuði frá upphafi mælinga árið 2003. Á milli ára jókst atvinnuþátttaka um 3,1 prósentustig og hlutfall starfandi um 4,7 prósentustig. 

Að sama skapi fækkaði þeim verulega sem voru án atvinnu og í atvinnuleit á milli ára, og hefur atvinnuleysi ekki áður mælst minna í marsmánuði frá því mælingar hófust. Þannig fór fjöldi atvinnulausra úr 7.200 manns niður í 3.400 á milli ára í mars og hlutfall þeirra af vinnuafli úr 3,8% niður í 1,7%. Þetta á einnig við sé tekið tillit til árstíðarbundinna þátta, en á þann kvarða mældist 1,6% atvinnuleysi í mars. Verður áhugavert að sjá hvernig þróunin verður í sumar en atvinnuleysi nær oftast nær lágmarki í júlí. 

Gríðarleg fjölgun heildarvinnustunda

Mælingar Hagstofu á þróun vinnustunda gefa ágæta vísbendingu um umsvif í hagkerfinu á hverjum tíma, enda endurspeglar fjöldi vinnustunda eftirspurn eftir vinnuafli og þar með framboðshlið hagkerfisins. Skv. þeim fjölgaði heildarvinnustundum í hagkerfinu um rúm 8,4% á milli ára í mars, sem er næstmesta aukning vinnustunda frá upphafi mælinga. Fjölgun starfandi skýrði allan þennan vöxt, en alls voru 199.300 manns starfandi í mánuðinum sem er 15.500 fleiri en í mars í fyrra. Venjulegar vinnustundir stóðu hins vegar í stað á milli ára, en þær voru 37,8 klst. í viku hverri.

Miklar sveiflur geta verið í mánaðarlegum tölum og er því réttara að bera saman lengra tímabil, eins og ársfjórðunga. Sé tekið mið af fyrsta fjórðungi í ár fjölgaði heildarvinnustundum um 3,5% á milli ára, sem er í takti við þróunina í fyrra. Jafnframt var hið sama upp á teningnum nú og þá, þ.e. fjölgunina mátti alfarið rekja til fjölgun á starfandi (+3,9%) þar sem vinnustundum fækkaði (-0,3%). Fækkun vinnustunda kann að vera vísbending um að fleiri komi inn á vinnumarkaðinn í hlutastörf, eins og skólafólk, fólk sem komið er á eftirlaunaaldur og mæður með ung börn. Það hefur verið eitt af einkennum íslensks vinnumarkaðar að atvinnuþátttaka slíkra hópa hefur fylgt hagsveiflunni að verulegu leyti, og gæti það einnig verið uppi á teningnum nú.  Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan benda framangreindar tölur til þess að hagvöxtur á fyrsta fjórðungi þessa árs hafi verið umtalsverður. 

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall