Morgunkorn Íslandsbanka

Viðrar vel á vinnumarkaði

25.02.2015

Niðurstöður úr vinnumarkaðskönnun sem Hagstofa Íslands birti nú í morgun benda til þess að mikill gangur hafi verið á vinnumarkaði fyrsta mánuð ársins. Mælingar Hagstofu á þróun vinnustunda gefa ágæta vísbendingu um umsvif í hagkerfinu á hverjum tíma, enda endurspeglar fjöldi vinnustunda eftirspurn eftir vinnuafli, og þar með framboðshlið hagkerfisins. Benda tölurnar til þess að vinnuaflseftirspurn sé að aukast hraðar nú en verið hefur undanfarið, þó rétt sé að hafa í huga að talsverðar sveiflur geta verið í mánaðartölunum.

Mesta fjölgun í 17 mánuði

Alls voru 178.200 manns starfandi í janúar sl. sem jafngildir 5,4% fjölgun frá sama tíma í fyrra, eða sem nemur um 9.200 manns. Venjulegar vinnustundir í viku hverri voru 38,8 klst. í mánuðinum, sem felur í sér fjölgun vinnustunda um 0,7 klst. á viku frá því í janúar í fyrra. Heildarvinnustundum fjölgaði því um 7,4% á milli ára samkvæmt rannsókn Hagstofunnar, sem er mesta aukning vinnustunda á þennan mælikvarða í 17 mánuði. Eins og sjá má af framangreindum tölum gerir hröð fjölgun starfandi gæfumuninn hvað þennan mikla vöxt varðar. 

Góð vísbending um hagvaxtarþróun

Eins og áður segir er talsverð fylgni milli þróunar vinnustunda og hagvaxtar, og að okkar mati gefa vinnustundirnar betri vísbendingu um umsvifin í hagkerfinu á hverjum tíma en bráðabirgðatölur Hagstofunnar um landsframleiðslu gera. Nýjustu tölur um landsframleiðslu ná aðeins til fyrstu níu mánaða síðasta árs, og samkvæmt þeim jókst hún um 0,5% að raunvirði á milli ára. Við teljum að þessar tölur verði endurskoðaðar talsvert upp á við, og að hagvöxtur í fyrra muni reynast nærri 2,0% líkt og Seðlabanki Íslands spáir en það samræmist ágætlega 1,9% fjölgun heildarvinnustunda það árið. Hagstofan mun birta bráðabirgðatölur um landsframleiðslu fyrir 4. ársfjórðung 2014, og þar með allt árið 2014, þann 10. mars næstkomandi og verður mjög áhugavert að sjá hvernig þær tölur koma út. 

Staðan á vinnumarkaði ekki betri í sjö ár

Samkvæmt rannsókn Hagstofunnar voru 186.400 manns á íslenskum vinnumarkaði að jafnaði í janúar sl., sem jafngildir 2,8% fjölgun vinnuafls frá sama mánuði í fyrra. Af þessum fjölda voru 8.100 manns atvinnulausir í mánuðinum, eða sem nemur 4,4% af vinnuafli. Í janúar í fyrra voru 12.400 manns atvinnulausir, eða sem nemur um 6,8% af vinnuafli. Atvinnuþátttaka mældist 80,3% og hlutfall starfandi 76,8% nú í janúar, en á sama tíma í fyrra voru þessi  hlutföll 79,3% og 73,9%. Í raun virðist staðan á vinnumarkaði í janúarmánuði ekki hafa verið betri í sjö ár en þetta árið, og á það við hvort sem litið er á þessar tölur eða ársíðarleiðréttar tölur sem Hagstofan birtir einnig. 

Við teljum líklegt að mikill vöxtur ferðaþjónustunnar yfir vetrartímann eigi sinn þátt í þessari þróun, enda er greinin mannaflsfrek og er raunar í vaxandi mæli mönnuð með innfluttu vinnuafli. Þá hefur færst aukinn gangur í nýbyggingar bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæðis og ástandið í þeim geira er orðið allt annað og betra en var í upphafi áratugarins.

Ljóst virðist af nýlegum vinnumarkaðstölum að slaki er ekki lengur til staðar í mörgum atvinnugreinum og vinnuaflseftirspurn er talsverð í sumum geirum. Sú þróun styrkir samningsstöðu launþega í komandi kjaraviðræðum og eykur um leið líkur á að niðurstaðan verði talsverð samningsbundin hækkun launa, sem svo aftur leiðir til meiri verðbólguþrýstings en ella.  

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall