Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum óbreyttu neysluverði í september

16.09.2016

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) verði óbreytt í september frá fyrri mánuði. Á sama tíma í fyrra lækkaði VNV um 0,4% og eykst 12 mánaða taktur verðbólgunnar þar með úr 0,9% í 1,3% gangi spáin eftir. Fer verðbólga þar með aftur yfir neðri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Verðbólguhorfur til skemmri tíma hafa lítið breyst frá síðustu spá okkar. Eftir sem áður er útlit fyrir að verðbólga haldist undir 2,5% markmiði Seðlabankans út árið 2017. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast allhratt og vera nærri 4,0% efri þolmörkum verðbólgumarkmiðs bankans á seinni hluta ársins 2018. Hagstofan birtir mælingu VNV kl. 09:00 þann 29. september næstkomandi.

Útsölulok og húsnæði til hækkunar

Húsnæðisliðurinn vegur langþyngst til hækkunar VNV af helstu undirliðum í september að okkar mati. Athugun okkar gefur til kynna að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, muni hækka um u.þ.b. 1,5% að þessu sinni (0,23% í VNV). Er það í takti við hækkun þessa liðar í ágúst, en undanfarna mánuði hafa verið töluverðar sveiflur í hækkunartakti hans.

Útsölulok vega einnig talsvert til hækkunar VNV í september, líkt og jafnan í þessum mánuði. Mestu áhrifin eru í fötum og skóm (0,14% í VNV). Þó teljum við að hækkun þessa liðar verði minni en undanfarin ár í septembermánuði, og að útsölulok í heild muni ekki vega að fullu upp á móti útsöluáhrifum á 3. ársfjórðungi vegna styrkingar á gengi krónunnar. Af öðrum liðum er það helst liðurinn Íþróttir, fjölmiðlun og happdrætti sem hefur hækkunaráhrif í september (0,04% í VNV) vegna árvissrar hækkunar á gjöldum fyrir íþróttaiðkun og námskeið, og miðaverði leikhúsanna.

Flugfargjöld, matvara, hótel og húsgögn til lækkunar

Ofangreind hækkunaráhrif eru vegin upp í spá okkar af ýmsum lækkunarliðum þar sem styrking krónu er stór áhrifaþáttur, enda hefur krónan styrkst um 6,5% gagnvart körfu helstu viðskiptamynta frá miðju ári. Má hér t.d. nefna verðlækkun á bifreiðum (-0,08% í VNV), mat og drykk (-0,04% í VNV) og húsgögnum og heimilisbúnaði (-0,03% í VNV). Þyngst vegur þó árstíðarbundin lækkun á flugfargjöldum (-0,28% í VNV) en auk þess reiknum við með talsverðri lækkun á gistingu (-0,04% í VNV) vegna árstíðaráhrifa. 

Hófleg verðbólga næstu mánuði

Útlit er fyrir að VNV hækki fremur lítið til áramóta, og má að mestu þakka það styrkingu krónu sem við eigum von á að haldi áfram næsta kastið, þótt nokkuð dragi úr styrkingarhraðanum að mati okkar. Við spáum 0,1% hækkun VNV í október,  0,2% lækkun í nóvember og 0,3% hækkun í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,5% í árslok. 

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,13% í mánuði hverjum. Í október gerum við ráð fyrir áframhaldandi verðlækkun á mat og drykk og flugfargjöldum. Í nóvember bætir svo í þessi lækkunaráhrif, bæði hvað varðar matvöru og flugfargjöld, og einnig lækka föt, skór og húsgögn í verði. Flugfargjöld hafa hins vegar talsverð hækkunaráhrif í desember og er þar um árstíðabundna hækkun að ræða.

Verðbólga undir markmiði út árið 2017

Útlit er fyrir áframhaldandi hóflega verðbólgu hérlendis svo lengi sem gengi krónu gefur ekki eftir á nýjan leik. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 1,6% á árinu 2017, og að í lok næsta árs mælist hún 2,1%. Í kjölfarið teljum við hins vegar að verðbólga muni fara vaxandi, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á fyrsta ársfjórðungi 2018 og verða nærri 4,0% efri þolmörkum markmiðsins á síðasta fjórðungi þess árs. 

Gengi krónu ræður mestu um þá verðbólguþróun sem hér er spáð til meðallangs tíma. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi styrkingu krónu út 3. ársfjórðung 2017, og að styrkingin nemi u.þ.b. 5% frá núverandi gildum. Í kjölfarið teljum við hins vegar að gengi krónu taki að lækka á nýjan leik, enda raungengið þá orðið nokkuð hátt, farið að hægja á hagvexti og spennunni í hagkerfinu, og tekið að draga úr gjaldeyrisinnflæði með minnkandi viðskiptaafgangi. Veikingu krónu fylgir aukin verðbólga, en það mildar þó höggið að útlit er fyrir hægari hækkun á launakostnaði og íbúðaverði á seinni hluta spátímans.

Verðbólguspá fyrir september 2016

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall