Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,2% hækkun VNV í maí

11.05.2018

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,2% í maí frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá verður 12 mánaða verðbólga í 2,3%.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma eru lítið breyttar frá síðustu spá. Við gerum þó ráð fyrir eilítið meiri verðbólgu á seinni helmingi þessa árs en í fyrri spá, en eftir það er útlitið svipað og fyrr. Eftir sem áður eru horfur á að verðbólga verði í grennd við markmið Seðlabankans út árið 2019. Hagstofan birtir VNV fyrir maí kl.9:00 þann 29. þessa mánaðar. 

Húsnæði, eldsneyti og flug til hækkunar

Þrír liðir vega þyngst til hækkunar VNV í maí: Íbúðaverð, eldsneytisverð og flugfargjöld. Könnun okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem byggir á þróun íbúðaverðs að stærstum hluta, gæti hækkað um 0,4% í maí (0,08% í VNV). Þessi liður hefur verið kvikur síðustu mánuði og er óvissa um hann því með meira móti. Stóra myndin er þó sú að farið er að hægja verulega á hækkunartakti íbúðaverðs frá því hann var hvað hraðastur á fyrri helmingi síðasta árs. Að viðbættum áhrifum leiguverðs og viðhaldskostnaðar vegur húsnæðisliðurinn alls til 0,10% hækkunar VNV í maí.

Eldsneytisverð hefur hækkað nokkuð síðustu vikur hér á landi. Það ætti ekki að koma á óvart í ljósi þess að heimsmarkaðsverð hefur farið ört hækkandi undanfarna mánuði. Til að mynda hefur verð á tunnu af Brent-hráolíu hækkað um rúm 20% í Bandaríkjadollurum talið frá marsbyrjun. Teljum við að Hagstofan muni mæla tæplega 2% hækkun á eldsneytisverði í maí (0,05% í VNV).

Könnun okkar bendir til þess að flugfargjöld til útlanda muni hækka um 5% í maí (0,06% í VNV) eftir að hafa nánast verið óbreytt í aprílmánuði. Þessi liður hefur oftast lækkað í maímánuði en annað virðist munu verða uppi á teningnum þetta árið.
 
Fátt vegur til verulegrar lækkunar VNV í maímánuði samkvæmt spá okkar. Þó má nefna að við teljum að matvöruverð muni lækka um 0,2% (-0,02% í VNV), ekki síst vegna áhrifa breytinga á tollum á ýmsar matvörur frá löndum ESB. Þá eru horfur á að lækkun lyfjaverðs, verðs á fatnaði og kostnaðar við síma- og netnotkun vegi hvort um sig til 0,01% lækkunar VNV í maí.

Verðbólga við markmið Seðlabankans næstu mánuði

Útlit er fyrir að verðbólga verði við markmið Seðlabankans næstu mánuðina. Við spáum 0,2% hækkun VNV í júní, 0,2% lækkun í júlí og 0,5% hækkun VNV í ágúst. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,6% í ágústmánuði.Húsnæðisliðurinn leggur mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,14% í mánuði hverjum að jafnaði. Verulega hefur þó dregið úr hækkunaráhrifum húsnæðisliðar frá síðasta ári, en á þessu sama tímabili 2017 vó húsnæðisliður að jafnaði til 0,32% hækkunar VNV í mánuði hverjum. Í júlí koma svo áhrif sumarútsala til sögunnar að vanda, en útsölulok vega að sama skapi talsvert til hækkunar VNV í ágúst.

Verðbólga rétt yfir markmiði næstu misseri

Útlit er fyrir fremur hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Við gerum ráð fyrir að gengi krónu verði  á svipuðum slóðum á spátímanum og það hefur verið að jafnaði síðustu ársfjórðunga. Þá gerum við ráð fyrir að nokkuð dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs eftir því sem líður á spátímann, en að launakostnaður aukist áfram jafnt og þétt líkt og sjá má í töflunni.

Við teljum að verðbólga fari lítið eitt yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans á seinni helmingi ársins 2018 og að hún muni mælast 2,8% í árslok. Árið 2019 spáum við 2,8% verðbólgu að jafnaði. Það má því segja að miðað við spá okkar verði verðbólga aðeins sjónarmun frá 2,5% markmiði Seðlabankans fram til ársloka 2019.

Talsverð óvissa er um þróun íbúðaverðs næstu fjórðunga í ljósi breytinga á íbúðamarkaði undanfarið. Þá gæti gengi krónu hækkað á komandi mánuðum. Styrkist krónan á sama tíma og lítil hækkun verður á íbúðaverði mun það fljótt þrýsta verðbólgu niður fyrir markmið á nýjan leik. Hins vegar eru vaxandi blikur á lofti varðandi kjarasamninga á komandi vetri. Hugsanlega erum við of bjartsýn á hóflega hækkun launakostnaðar á komandi misserum, sem hefði í för með sér að við værum hugsanlega að vanspá verðbólguþrýstingi úr þeirri átt þegar fram í sækir. 

Verðbólguspá fyrir maí 2018
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall