Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,5% hækkun neysluverðs í desember

06.12.2018

Við spáum að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,5% í desember frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst 12 mánaða verðbólga úr 3,3% í 3,5%. Verðbólguhorfur til skamms tíma hafa breyst lítillega frá síðustu spá. Útlit er fyrir að verðbólga verði 3,5% að jafnaði á fyrsta fjórðungi nýs árs og verði að meðaltali 3,5% á árinu 2019, en hjaðni í kjölfarið og verði að jafnaði 3,2% á árinu 2020. Hagstofan birtir VNV fyrir desember kl.9 þann 20. þessa mánaðar.

Árstíðarbundin hækkun á flugfargjöldum

Við spáum því að flugfargjöld muni hækka í desember um 24% (0,33 áhrif í VNV) en um árstíðarbundna hækkun er að ræða og mun hún ganga að miklu leyti til baka mánuðina á eftir. Í heild vegur liðurinn ferðir og flutningar til 0,29% hækkunar VNV í spá okkar, en það helsta sem vegur á móti hækkun á flugfargjöldum er eldsneyti sem lækkar VNV um 0,11% í samkvæmt spá okkar. Koma þar til áhrif af lækkandi heimsmarkaðsverði á olíu frá októberbyrjun.

Að undanskildum ferða- og flutningaliðnum mun reiknuð húsaleiga væntanlega hafa mestu áhrifin (0,04% í VNV) til hækkunar í desember, en könnun okkar gerir þó aðeins ráð fyrir 0,20% hækkun í liðnum sem er töluvert minni hækkun en að jafnaði hefur verið undanfarna mánuði. Í heild vegur húsnæðisliðurinn til 0,09% hækkunar VNV samkvæmt spá okkar, en auk reiknaðrar húsaleigu hækkar greidd húsaleiga og viðhaldskostnaður í nóvember.  Annar liður sem vegur talsvert til hækkunar er matur og drykkjavörur sem samkvæmt spá okkar hækkar um 0,40% (0,05% í VNV). Þá hækka ýmsir innfluttir vöruflokkar í spá okkar, t.d. lyf og lækningavörur (0,03% í VNV), bifreiðar (0,02% í VNV) og húsgögn og heimilisbúnaður (0,02% í VNV).

Verðbólgukúfur á komandi ári

Útlit er fyrir verðbólga muni áfram verða á svipuðum slóðum næstu mánuðina. Við spáum 0,2 lækkun VNV í janúar næstkomandi, 0,6% hækkun í febrúar og 0,4% hækkun VNV í mars. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 3,2% í mars 2019. Í janúar togast líkt og ávallt á verðlækkunaráhrif af útsölum og áhrif vegna hækkunar veitugjalda og opinberra krónutölugjalda á borð við eldsneytis- og áfengisgjald, sem og áramótahækkunar á ýmsum verðskrám. Í febrúar ganga svo útsöluáhrif til baka með tilheyrandi hækkunarþrýstingi á VNV. Flugfargjöld vega til 0,2% lækkunar VNV á 1F 2019, en íbúðaverð til samsvarandi hækkunar á tímabilinu.

Í kjölfarið teljum við að verðbólga muni aukast nokkuð fram eftir árinu 2019 og ná hámarki í 3,7% um mitt árið en hjaðna jafnt og þétt að nýju og mælast rétt um 3,0% í árslok 2020. Verðbólga mun samkvæmt þessu haldast innan 4% þolmarka verðbólgumarkmiðs Seðlabankans en nokkuð virðist í að hún eigi afturkvæmt undir 2,5% markmiðið. 

Kjarasamningar á komandi mánuðum eru einn stærsti óvissuþáttur spárinnar. Við höfum bætt nokkuð í áætlaða hækkun launakostnaðar á næsta ári, en ljóst er þó að óvissan hvað áhrif þessa þáttar varðar er til meiri verðbólgu en hér er spáð.

Verðbólguspá fyrir desember

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall