Morgunkorn Íslandsbanka

Allir sammála um óbreytta stýrivexti Seðlabankans

05.09.2013

nullAllir meðlimir Peningastefnunefndar Seðlabankans voru sammála tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta stýrivexti á síðasta vaxtaákvörðunarfundi samkvæmt fundargerð nefndarinnar sem birt var á vef Seðlabankans í gær. Virðist vera að vaxtahaukur nefndarinnar hafi ekki vaknað af dvalanum við aukna verðbólgu og verri verðbólguhorfur, og í ljósi þeirrar óvissu sem er bæði í opinberum fjármálum og niðurstöðu kjarasamninga á næstunni. Gerir nefndin nokkuð úr því að hagvaxtarhorfur hafa versnað og kann það að hafa skapað mótvægi við ofangreinda þætti hjá vaxtahauknum.

Þriðji fundurinn í röð

nullEr þetta þriðji vaxtaákvörðunarfundurinn í röð þar sem allir nefndarmenn eru sammála um óbreytta vexti. Í mars síðastliðnum var hins vegar einn mótfallinn ákvörðuninni og kaus heldur að vextir yrðu hækkaðir um 0,25 prósentur. Nefndin hefur nú haldið stýrivöxtum bankans óbreyttum síðan í nóvember á síðasta ári, en þá hækkaði hann vexti sína um 0,25 prósentur.

Rennir stoðum undir spá um óbreytta vexti út árið

Samhljóma ákvörðun nefndarmanna rennir stoðum undir þá spá okkar að stýrivextir bankans verði óbreyttir út árið, en næsti vaxtaákvörðunarfundur nefndarinnar verður 2. október næstkomandi og þrir vaxtaákvörðunarfundir eftir á þessu ári, sá síðasti í desember.

Tvenn skilaboð

Í fundargerðinni eru skilaboð peningastefnunefndarinnar bæði til ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins. Annars vegar segir að  ef kjarasamningar leiði til þess að launahækkanir verði meiri en reiknað er með í spá bankans gæti nefndin þurft að bregðast við af enn meiri festu en spáin gerir ráð fyrir. Í spá bankans er samt gert ráð fyrir að kjarasamningar skili launahækkunum sem eru ekki í samræmi við verðbólgumarkmiðið til lengdar, en þar er spáð að nafnlaun verði að jafnaði 5,5% hærri á árinu 2014 en yfirstandandi ári. Samkvæmt fundargerðinni vega hins vegar aðrir þættir á móti verðbólguþrýstingi þeirra launahækkana. Með þessu má segja að nefndin sé að gefa leyfi til að hækkanir í komandi kjarasamningum verði nokkuð, en ekki of mikið, umfram verðbólgumarkmiðið án þess að nefndin bregðist við með hækkun stýrivaxta. 

Hin skilaboðin eru til hinnar nýju ríkisstjórnar. Nefndin segir að áformin í opinberum fjármálum, lesist stefna nýrrar ríkisstjórnar, muni verða skýrari þegar fjárlagafrumvarp verður lagt fram í byrjun október nk. Síðan segir í fundargerðinnni: „Mat á því hvort stefnan í ríkisfjármálum kalli á viðbrögð af hálfu peningastefnunnar bíður þangað til.“ Vel má lesa út úr þessari ábendingu um að ef slakað verði um of á aðhaldinu í opinberum fjármálum muni nefndin bregðast við því með hækkun stýrivaxta.

Óvissan er til hækkunar

Þessir tveir þættir, þ.e. kjarasamningar og fjárlagagerðin í haust, skapa nokkra óvissu um spá okkar um óbreytta stýrivexti út árið. Hugsanlegt er að nefndin sjái sig knúna til að hækka vexti í ljósi niðurstaðna þessara tveggja þátta, þótt líklega verði niðurstaða kjarasamninga of seint á ferð til að breyta skoðun peningastefnunefndar þetta árið. Þá verða fjárlögin ekki endanlega afgreidd fyrrr en undir lok ársins að öllum líkindum. Við stöndum þó enn, líkt og áður sagði, við óbreytta spá en hún felur í sér að nefndin hækki ekki vexti aftur fyrr en á næsta ári. Einnig er stærsta óvissan í þeirri spá frekar gengisþróun krónunnar næsta kastið fremur en kjarasamningar og fjárlagagerðin, en í vetur verður að okkar mati hið raunverulega próf á hina nýju stefnu Seðlabankans: að verða virkari á gjaldeyrismarkaði með það að markmiði að draga úr gengissveiflum.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall