Morgunkorn Íslandsbanka

Verðbólga áfram undir markmiði Seðlabankans

26.03.2014

nullVerðbólgumarkmið Seðlabankans virðist í höfn næsta kastið. Verðbólga mældist undir 2,5% markmiði bankans nú í mars, annan mánuðinn í röð, og útlit er fyrir að verðbólgan verði á svipuðum slóðum fram eftir ári. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,24% í mars frá fyrri mánuði. Mælingin var lítið eitt undir spá okkar (0,3% hækkun) en opinberar spár lágu á bilinu 0,1% - 0,4% hækkun. Verðbólga síðustu 12 mánaða mælist nú 2,2%, en var 2,1% í febrúar. Raunar er 12 mánaða taktur verðbólgu án húsnæðis 0,8%, og því er drjúgur meirihluti verðbólgunnar nú til kominn vegna hækkandi íbúða- og leiguverðs.

Innfluttar vörur ódýrari en um áramót

nullAð vanda vógu útsölulok til hækkunar VNV í mars. Verð á fötum og skóm hækkaði um 3,9% milli mánaða í mars, sem hefur áhrif til um 0,19% hækkunar VNV. Í heild vó verðhækkun vegna útsöluloka til 0,22% hækkunar VNV, sem er aðeins meira en við bjuggumst við. Á móti hækkun á fötum lækkaði verð á raftækjum um 0,6% milli mánaða sem kom okkur óvart, en sú lækkun stafar eflaust af styrkingu á gengi krónunnar og jafnvel gætir hér áhrifa af aukinni samkeppni verslana hér á landi við erlendar netverslanir.

Alls hækkuðu innfluttar vörur um 0,2% á milli mánaða, en frá áramótum hafa innfluttar vörur hins vegar lækkað um tæplega 0,7% að jafnaði. Styrking krónu frá nóvember síðastliðnum hefur haft jákvæð áhrif á verð innfluttra vara, og hafa innfluttar vörur á heildina litið lækkað í verði um 1,7% undanfarna 12 mánuði, sem hefur áhrif til u.þ.b. 0,6% lægri verðbólgu en ella. Þar vegur þó allþungt að eldsneytisverð hefur lækkað um nærri 7% á tímabilinu, en aðrar innfluttar vörur hafa lækkað um 0,5% á sama tíma.

Ferðakostnaður og matarverð lækkar

Ferða- og flutningaliður VNV lækkaði um 0,38% í mars (-0,06% áhrif í VNV). Vó þar þyngst að eldsneytisverð lækkaði um 2,2%, en á móti hækkuðu flugfargjöld til útlanda um 4,5% á milli mánaða. Verð á nýjum bílum lækkaði um 0,1%, og hefur bifreiðaverð nú lækkað um 0,5% frá áramótum. Mat- og drykkjarvöruverð lækkaði einnig í mars, ekki síst vegna áhrifa af styrkingu krónu, og nam lækkunin 0,18% frá mánuðinum á undan (-0,03% áhrif í VNV). Það sem af er ári nemur lækkun matvöruverðs 0,5%.

Húsnæðisliður helsti verðbólguvaldurinn

Sem fyrr segir vegur húsnæðisliður VNV drjúgt til hækkunar þessa dagana, hvort sem litið er á mánaðarbreytingar eða árstaktinn. Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,6% í mars (0,08% í VNV), en sá liður endurspeglar að stærstum hluta markaðsverð íbúðarhúsnæðis. Verð á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,2% á milli mánaða, en fjölbýli á höfuðborgarsvæði, sem og íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni, hækkaði um 0,5%. Undanfarið ár hefur húsnæði í VNV hækkað um 7,3%, og eru ríflega 1,5% af 2,2% hækkun VNV á tímabilinu komin til vegna þessa liðar.

Verðbólguhorfur góðar fram eftir ári

nullHorfur eru á áframhaldandi hóflegri verðbólgu. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir 0,3% hækkun VNV í apríl, 0,2% hækkun í maí og 0,3% hækkun í júní. Miðað við þá spá mun verðbólga mælast 2,3% í júní. Gefi gengi krónu ekki verulega eftir mun svo verðbólga áfram haldast í grennd við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans út árið að okkar mati. Ef það gengur eftir verður um að ræða lengsta tímabil verðbólgu við verðbólgumarkmið frá því markmiðið var tekið upp árið 2001. Það veltur svo að stórum hluta á því hvort gengi krónu helst nálægt núverandi gildum og hvort tekst að halda aftur af verulegri nafnhækkun launa í komandi kjarasamningum, bæði hjá opinberum starfsmönnum á næstu vikum og á almennum vinnumarkaði í upphafi næsta árs, hvort verðbólga verður áfram jafn hagfelld á næstu árum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall