Morgunkorn Íslandsbanka

Aldrei meiri þjónustuútflutningur en í fyrra

02.03.2015

Útflutningur á þjónustu skilaði meiru inn í þjóðarbúið á árinu 2014 en hann hefur nokkru sinni áður gert á einu ári. Þá þróun má nánast alfarið rekja til ferðaþjónustunnar, sem er orðin okkar stærsta útflutningsgrein. Aðeins dró þó úr afgangi af þjónustujöfnuði á milli ára sem einnig má rekja til ferðaþjónustunnar, en engu að síður er hér um næstmesta afgang að ræða af þeim jöfnuði frá upphafi. Þetta má lesa úr bráðabirgðatölum Hagstofunnar um þjónustuviðskipti við útlönd fyrir síðasta ár, sem birtar voru í morgun. 

Dregur aðeins úr afgangi á milli ára

Alls námu tekjur þjóðarbúsins af útfluttri þjónustu 499,2 mö. kr. í fyrra og jukust þær um 14,3 ma. kr. Á sama tíma jókst innflutningur þjónustu, sem nam alls 360,4 mö. kr. í fyrra, um 21,3 ma. kr. Minnkaði því afgangur af þjónustujöfnuði um 7,0 ma. kr. á milli ára. Þrátt fyrir að afgangur minnki aðeins á milli ára er hér um að ræða næstmesta afgang af þjónustujöfnuði á einu ári frá upphafi, og nam hann alls 138,8 mö. kr. samanborið við 145,8 mö. kr. árið 2013. 

Þegar rýnt er í tölurnar kemur ekki á óvart að þessa jákvæðu þróun megi þakka þeim gríðarlegu umsvifum sem verið hafa í ferðaþjónustu hér á landi undanfarið. Þannig nam afgangur vegna ferðalaga 44,8 mö. kr. í fyrra samanborið við 28,1 ma. kr. árið á undan, og nemur aukningin á milli ára heilum 160%. Sá liður nær yfir útgjöld ferðamanna á áfangastað, s.s. gistingu, veitingaþjónustu o.s.frv. Samgöngur og flutningar, sem einnig heyrir að stórum hluta undir ferðaþjónustu, skiluðu afgangi upp á 129,3 ma. kr. sem er rétt um 1,4 ma. kr. minna en afgangurinn var af þeim lið árið 2013. Önnur viðskiptaþjónusta var í halla eins og oft áður, en sá liður endurspeglar að töluverðum hluta kostnaðinn við að afla þjónustutekna, t.d. rekstrarleigu á flugvélum og skipum. Var sá liður neikvæður um 66,6 ma. kr. sem er 5,9 ma. kr. meiri halli en var árið 2013.

Gjöfulasta ferðamannaár frá upphafi

Tekjur þjóðarbúsins af erlendum ferðamönnum í fyrra námu alls 302,7 mö. kr. samanborið við 277,5 ma. kr. árið 2013. Þetta eru lítið eitt minni tekjur en við höfðum reiknað með, sem má einkum rekja til þess að tekjur af farþegaflutningum reyndust aðeins minni en áætlað var. Þessa 25,2 ma. kr. aukningu á tekjum af ferðaþjónustu má alfarið þakka tekjum af erlendum ferðamönnum hér landi. Námu þær alls 158,5 mö. kr., en það er aukning upp á 27,0 ma. kr. á milli ára. Tekjur af farþegaflutningum með flugi, sem eru tekjur íslenskra flugfélaga af því að flytja erlenda farþega til og frá Íslandi eða annars staðar í heiminum, námu alls 144,1 mö. kr. og drógust saman um 1,8 ma. kr. á milli ára. Af þessu tölum Hagstofunnar, sem og öðrum tölum er varða ferðaþjónustu, er ljóst að ferðamannaárið í fyrra var það gjöfulasta frá upphafi. Þannig höfðu tölur Ferðamálastofu Íslands sýnt að um metár var að ræða hvað fjölda erlendra ferðamanna varðar, og að skapi sýndu tölur Seðlabanka Íslands um kortanotkun þeirra að þeir hafa aldrei áður straujað kortin sín af jafn miklu kappi á einu ári og í fyrra.

2015: Ótrúleg byrjun

Ekki er ofmælt að segja að ferðamannaárið 2015 fari af stað með miklum látum í ár, en aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn sótt landið heim í janúarmánuði og nú. Sömu sögu má segja um kortanotkun þeirra, en þeir hafa aldrei áður straujað kortin sín í eins miklum mæli í janúarmánuði og nú. Eins og við fjölluðum nýlega um voru brottfarir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll alls 62,8 þúsund talsins í janúar, sem er 35% fjölgun á milli ára. Á sama tíma nam kortavelta þeirra 7,3 mö. kr. og jókst um 29% í krónum talið á milli ára.  Ekki ólíklegt er að Ferðamálastofa Íslands komi til með að birta tölur um brottfarir í febrúar sl. í vikulok, og verður spennandi að sjá hvernig þær koma út. Í febrúar í fyrra voru brottfarir erlenda ferðamanna 52,4 þúsund, og ef þróunin verður áþekk því sem hún verið hefur undanfarið má reikna með að þær verði um 65-70 þúsund nú. 

Spáum meiri afgangi í ár

Nú liggja fyrir tölur um tvo undirþætti viðskiptajafnaðar fyrir árið 2014. Halli var af vöruskiptum á greiðslujafnaðargrunni upp á 11 ma. kr. á síðasta ári, og samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var því 127,88 ma. kr. Til samanburðar var 153,6 ma. kr. afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum árið 2013, og dróst afgangurinn því saman um 25,7 ma. kr. á milli ára. Seðlabankinn birtir tölur um greiðslujöfnuð á morgun. Kemur þá í ljós hvernig þriðji meginþáttur viðskiptajafnaðarins, jöfnuður frumþáttatekna, hefur þróast á liðnu ári. Verður áhugavert að sjá fyrsta mat Seðlabankans á viðskiptajöfnuði ársins 2014, en á fyrstu níu mánuðum ársins reyndist undirliggjandi viðskiptaafgangur ríflega 77 ma.kr.

Eins og við fjölluðum nýlega um teljum við að horfur séu á meiri afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum í ár en var í fyrra. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir að afgangurinn gæti í heild reynst á bilinu 190-200 ma. kr. í ár, sem samsvarar u.þ.b. 8,5-9,0% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) ársins. Áætlum við að útflutningur vöru og þjónustu geti numið nálægt 1.200 mö.kr. á árinu 2015, en á móti vegur að innflutningur vöru og þjónustu mun væntanlega vaxa talsvert með aukinni einkaneyslu, fjárfestingu og útflutningi. Lauslega má áætla að innflutningur vöru og þjónustu gæti orðið í námunda við 1.000 ma. kr. í ár.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall