Morgunkorn Íslandsbanka

Verðbólga eykst þrátt fyrir styrkingu krónu

25.11.2016

12 mánaða taktur verðbólgunnar hækkaði í nóvember þrátt fyrir umtalsverða styrkingu krónunnar síðustu mánuði. Hraður hækkunartaktur íbúðaverðs og mjög svo óvænt hækkun á fataverði eru helstu skýringar þess að spá okkar um 0,2% lækkun vísitölu neysluverðs (VNV) gekk ekki eftir, en vísitalan lækkaði einungis um 0,02% á milli mánaða. Flestar opinberar spár voru samhljóða okkar, en einn aðili spáði þó óbreyttri VNV. Verðbólga á 12 mánaða grunni jókst úr 1,8% í október í 2,1% í nóvember m.v. nýbirtar tölur Hagstofunnar. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um 0,41% í nóvember og m.v. þá vísitölu mælist áfram verðhjöðnun, eða sem nemur 0,3% undanfarna 12 mánuði.

Styrking krónu skilar sér mismikið 

Sem fyrr segir var hækkun íbúðaverðs, eins og það endurspeglast í VNV, helsti áhrifavaldur til hækkunar vísitölunnar að þessu sinni. Húsnæðisliðurinn hækkaði í heild um 0,9% (0,27% áhrif í VNV). Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga um 1,4% (0,22% í VNV), en sá liður byggir að mestu á verðþróun íbúðarhúsnæðis. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkaði verð á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu mest, eða um 2,5%, en sérbýlin hafa hækkað hratt undanfarna mánuði og mælist 12 mánaða hækkunartaktur þeirra (14,3%) nú hraðari en hækkunartaktur fjölbýlis á höfuðborgarsvæði (12,7%) sem og verðhækkun á landsbyggðinni (13,7%). Þá hafði greidd húsaleiga áhrif til 0,05% hækkunar VNV, en viðhaldsþáttur húsnæðisliðar  hins vegar 0,01% lækkunaráhrif.

Sá liður sem kom okkur mest á óvart að þessu sinni var hins vegar föt og skór, sem hækkuðu í verði um rúm 1,6% (0,07% í VNV) en þar höfðum við spáð lækkun eftir mikla styrkingu krónunnar undanfarna mánuði. Alfarið má rekja þessa hækkun til 2,1% hækkunar á fötum, þar sem skór lækkuðu um tæp 0,5% milli mánaða. 

Líkt og við væntum lækkaði verð á ýmsum liðum þar sem innflutt vara er fyrirferðarmikil í nóvembermánuði. Má þar nefna að matur og drykkur lækkaði í verði um tæp 0,7% (-0,10% í VNV), sem er öllu meiri lækkun en við reiknuðum með. Flutningar í lofti lækkuðu í verði um 8,4% (-0,11% í VNV) og vó þar þyngst að flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 9,3% (-0,10% í VNV). Húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði í verði um tæp 0,7% (-0,03% í VNV), bifreiðaverð lækkaði um tæp 0,7% (-0,04% í VNV), verð á lyfjum lækkaði um 2,4% og eldsneytisverð um 0,7% (-0,02% í VNV). Styrking krónu er því víða að skila sér í lækkandi verði, þótt á því séu greinilegar undantekningar.

Verðbólga áfram undir markmiði Seðlabankans

Horfur eru á að verðbólga verði áfram nokkuð undir 2,5% markmiði Seðlabankans. Við spáum til bráðabirgða 0,3% hækkun VNV í desember, 0,6% lækkun í janúar og 0,5% í febrúar. Verðbólga mælist skv. þeirri spá 1,9% í febrúar. Hækkunin í desember gæti þó orðið minni þar sem þegar hefur orðið lækkun á eldsneytisverði og viðhaldsþætti húsnæðisliðar auk þess sem fataliðurinn kann að þróast með hagfelldari hætti eftir hækkunina nú.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,13% í mánuði hverjum. Flugfargjöld hafa talsverð hækkunaráhrif í desember og er þar um árstíðabundna hækkun að ræða. Loks koma útsöluáhrif inn af krafti í janúarmánuði á næsta ári, en auk þess hefur fyrirhugað afnám tolla á ýmsar innfluttar vöru lækkunaráhrif sem og væntanleg lækkun veitugjalda fyrir rafmagnsflutninga og kalt vatn hjá OR. Þá teljum við að matvara muni lækka nokkuð í verði í upphafi næsta árs líkt og síðustu ár. Gjaldskrárhækkanir, sem oft setja svip sinn á VNV í janúar, virðast munu hafa hófleg áhrif í þetta skiptið. Í febrúar ganga svo útsöluáhrif til baka að hluta og matvara hækkar að nýju skv. spá okkar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall