Morgunkorn Íslandsbanka

Hlutabréfamarkaður með flensu

03.10.2014

Árið 2014 verður að öllum líkindum afskaplega þungt fyrir eigendur skráðra hlutabréfa í Kauphöllinni. K-90 hlutabréfavísitala Greiningar Íslandsbanka hóf árið í 167 stigum en var í lok september komin í 158 stig. Þetta er lækkun upp á 9 stig.  Að 9 mánuðum gengnum af árinu þá hafa markaðir lækkað um 5,4% frá áramótum en á sama tíma í fyrra hækkaði K-90 um 20,4%. 

Vísitalan var í sínum lægstu gildum í lok júlí sl. en hafði þá lækkað um 8,5% frá ársbyrjun. Síðan þá hefur hún braggast aðeins en er víðsfjarri því að hafa alveg rétt úr kútnum.

Ekki er hægt að benda á eina skýringu á þessari lækkun. Þó má nefna að fjárfestar hafa talsvert mikið leitað með fjármagn sitt  í  fasteignatengd verkefni á árinu.

Uppgjör skráðra félaga á innlendum hlutabréfamarkaði á líðandi ári hafa eins og gengur verið misjafnlega góð en fá uppgjör má beinlínis kalla slæm. Það má segja að heilt yfir litið hafi uppgjörin ekki borið með sér þá lægð á hlutabréfamarkaði sem raun ber vitni. Nýskráningar sem líklegar eru á árinu 2015 munu hugsanlega styðja við að hlutabréfamarkaðurinn komist aftur í eðlilegt ástand er varðar umfang veltu og eðlilegt ávöxtunarkröfu til lengri tíma.

Allt Marel að kenna?

Gengi bréfa félaganna sem mynduðu K-90 vísitöluna á fyrstu níu mánuðum ársins breyttist með afar mismunandi hætti á tímabilinu. Þau félög sem lækkuðu á tímabilinu lækkuðu vísitöluna samanlagt um 17 stig. Þau sem hækkuðu hins vegar hækkuðu samanlagt vísitöluna um 8 stig.

Marel olli langmestri lækkun á vísitölunni eða 8,8 stigum og Eimskip olli um 3,4 stiga lækkun. Gengi bréfa í Marel hefur lækkað um 20% frá áramótum en Eimskip hefur lækkað um 14% þegar tekið hefur verið tillit til arðgreiðslu. 

Tryggingarfélögin hafa einnig lækkað talsvert. VÍS hefur lækkað um 17% og TM um 21%. Í öllum tilfellum er tekið tilliti til arðgreiðslu. Hagar hækkuðu talsvert á fyrstu níu mánuðum ársins, eða um 18% og Vodafone um 20%.  HB Grandi hefur líka hækkað umtalsvert eða um 21% frá skráningu. 

Það er því ljóst að æði misjafnt er hver ávöxtun hefur verið á hlutabréfum á Aðallista Kauphallarinnar á árinu þrátt fyrir að markaðsvísitölur hafi lækkað. Hafa þarf einnig í huga að hlutfall hvers félags í vísitölunni miðast við markaðsverð félaganna á hverjum tíma og skýrir það m.a. að hluta hversu mikil áhrif Marel hefur til lækkunar.

Verulega misskipt velta

Velta á hlutabréfamarkaði fyrstu níu mánuði ársins nam 198 ma.kr. Er það talsverð breyting til hins verra og hefur veltan minnkað um fimmtung  á helstu félögum sem skráð voru í lok september 2013.

Er veltunni  æði misskipt milli félaganna. Sama gildir þegar veltan er skoðuð í hlutfalli af markaðsverðmæti hvers félags. 

Icelandair ber höfuð og herðar yfir önnur félög en langmest velta var með hlutabréf í því félagi á fyrstu níu mánuðum ársins.   Velta með hlutabréf Icelandair er rúmlega tvöföld sú velta sem það félag hefur sem er í öðru sæti en það eru Hagar. Kemur þetta ekki á óvart í ljósi mikilla sviptinga í væntingum til afkomu Icelandair sökum annars vegar verkfalla og hins vegar yfirvofandi eldgos. 


Einstök viðskipti þar sem stofnfjárfestar selja sína hluti geta gert samanburð milli félaganna erfiðari en ella. Slík viðskipti hafa það sem af er ári orðið í N1 (um 3,7 ma.kr.), Icelandair (um 6,6 ma.kr.) Högum (um 3,3 ma.kr.), VÍS (um 1,8 ma.kr.) og Granda (um 2,1 ma.kr.). Félögin HB Grandi og Sjóvá voru skráð á Aðalmarkað á árinu og þarf að taka tillit til þess í samanburði á veltu.

Það leggur grunn að eðlilegri verðmyndun félaga að velta með hlutabréf í þeim byggi á nægilega djúpum markaði. Þá dýpt er m.a. hægt að meta með hlutfalli veltu á móti verðmæti félaganna. Ef lítil velta stendur að baki miklum breytingum í verði hlutabréfa getur verið eðlilegt að efast um hversu stöðugt verðið er vegna þess hversu grunnur markaðurinn er með viðkomandi verðbréf.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall