Morgunkorn Íslandsbanka

Óbreyttir stýrivextir í takti við spár

11.06.2014

nullPeningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í takti við spá okkar og aðrar opinberar spár. Rökin fyrir óbreyttum vöxtum eru m.a. þau að verðbólgan hefur verið við markmið bankans síðustu mánuði og samkvæmt spá bankans ætti hún að verða það áfram fram á næsta ár. Þá hafa hafa verðbólguvæntingar eitt til tvö ár fram í tímann lækkað að undanförnu. Hjöðnun verðbólgu og verðbólguvæntinga fela í sér að raunvextir bankans hafa hækkað þó nokkuð það sem af er þessu ári. 

Þjóðhagsreikningar fyrsta ársfjórðungs breyta ekki myndinni

Seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunarinnar að myndin hafi lítið breyst frá síðasta fundi peningastefnunefndar sem var null21. maí sl. Það eru helst nýjar þjóðhagsreikningatölur sem vert er að staldra við að hans mati, en 0,1% samdráttur mældist á fyrsta fjórðungi ársins samkvæmt þeim tölum. Sagði hann að þessar tölur breytti ekki mikið þeirri mynd sem kom fram í nýjasta hefti peningamála sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í maí, en þar spáði bankinn 3,7% hagvexti í ár. Sagði bankastjóri að þrátt fyrir að samdráttur mældist í landsframleiðslu á fyrsta fjórðungi ársins, þá var vöxtur innlendra eftirspurnar ívið meiri á tímabilinu en spáð var í nýjasta hefti peningamála. Minni birgðir og meiri innflutningur, þá sértaklega þjónustuinnflutningur, skýra samdráttinn. Þjóðhagsreikningar fyrsta árfjórðungs endurspegla hvað þetta varðar ekki árið í heild. Þannig ber að túlka þjóðhagsreikninga fyrsta ársfjórðungs með varúð að sögn Seðlabankastjóra.

 

Regluleg gjaldeyriskaup helstu tíðindin

Tíðindin í yfirlýsingu peningastefnunefndar nú eru að ákveðið hefur verið að taka upp regluleg gjaldeyriskaup á ný. Bankinn hyggst kaupa 3 milljónir evra á gjaldeyrismarkaði í hverri viku til loka september nk. Kaupin munu fara fram á þriðjudögum strax eftir opnun gjaldeyrismarkaðar, en færast til næsta viðskiptadags ef þriðjudagur er frídagur. Fyrstu kaup verða miðvikudaginn 18. júní nk. Umfang reglulegra gjaldeyriskaupa verður endurmetið í haust eða fyrr ef aðstæður breytast umtalsvert.

nullÁ ofangreindum fundi vegna vaxtaákvörðunarinnar kom fram í máli seðlabankastjóra að því marki að þetta þýðir að krónan er eitthvað lægri en ella þá er verðbólgan líka hærri og vextirnir hærri en ella. Seðlabankinn er þannig að nota það svigrúm sem gefst í hreinum gjaldeyrisstraumum sumarsins til að safna gjaldeyri fremur en að lækka stýrivexti. Gerir bankinn það í ljósi hans mats á greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins, sem hann getur að einhverju marki dregið úr til skemmri tíma a.m.k. með þessum hætti. 

Seðlabankinn hyggst halda áfram óreglulegum kaupum sínum á gjaldeyri. Hin boðuðu reglulegu kaup munu þó að okkar mati eflaust draga úr þeim eða koma í þeirra stað. Í því ljósi breyta þessi boðuðu gjaldeyriskaup bankans ekki þeirri sýn sem við höfum haft á gengi krónunnar næsta kastið. Krónan hefur verið afar stöðug undanfarið, m.a. vegna afskipta bankans af gjaldeyrismarkaði og reiknum við með því að svo verði áfram. Bankinn vill augljóslega ekki sjá krónuna sterkari í bráð a.m.k. og undirstrikar með tilkynningu sinni í morgun að hann vilji nýta hreint innflæði gjaldeyris í sumar til að styrkja óskuldsettan gjaldeyrisforða fremur en að láta það flæði styrkja krónuna.  Er það gott þar sem forðinn er lítill og með þeim hætti verður bankinn betur í stakk búinn að takast á við hugsanlegar sveiflur á gjaldeyrismarkaði þegar og ef farið verði í að létta af gjaldeyrishöftunum að einhverju marki. Þannig er skynsamlegt að okkar mati að nýta svigrúmið til að styrkja gjaldeyrisforðann fremur en að lækka stýrivexti.

Óbreyttur tónn

Tónninn í yfirlýsingu nefndarinnar er óbreyttur frá því á síðasta vaxtaákvörðunarfundi. Nefndin talar þannig enn um að líklegt sé að aukinn vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum muni að öðru óbreyttu krefjast þess að raunvextir Seðlabankans hækki. Að því gefnu að spár um aukna verðbólgu og framleiðsluspennu á næsta ári ganga eftir er ljóst að sú hækkun verður í formi hækkunar á nafnvöxtum bankans.

Líkt og kom fram í okkar síðustu stýrivaxtaspá reiknum við með því að nefndin muni hækka stýrivexti bankans um 0,75 prósentustig á næsta ári og að fyrsta vaxtahækkunin muni koma snemma á því ári. Óvissan í spánni er að hugsanlega mun nefndin hækka stýrivexti fyrr. Rifja má upp í því sambandi að samkvæmt fundargerð vegna vaxtaákvörðunar í maí töldu nefndarmenn bæði rök fyrir því að halda vöxtum óbreyttum og að hækka þá.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall