Morgunkorn Íslandsbanka

Lítilsháttar aukning verðbólgu í maí

27.05.2016

Hækkun vísitölu neysluverðs í maí reyndist heldur meiri en spáð var. Ekki er nein ein sérstök ástæða fyrir þessum mun, og má segja að í þessu tilfelli hafi margt smátt lagst á eitt. Verðbólguhorfur eru áfram svipaðar og fyrr, og er útlit fyrir að verðbólga verði undir 2,5% markmiði Seðlabankans fram undir lok ársins.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði VNV um 0,42% í maí. Var það öllu meiri hækkun en spáð hafði verið, en opinberar spár lágu á bilinu 0,2% - 0,3% hækkun og spáðum við 0,3% hækkun. Verðbólga mælist nú 1,7% og eykst lítillega frá apríl þegar hún mældist 1,6% Án húsnæðis mælist verðbólga hins vegar 0,3% undanfarna 12 mánuði.

Húsnæðisliður hækkar talsvert..

Húsnæðisliðurinn var einmitt sá undirliður sem vó drýgst til hækkunar VNV að þessu sinni. Í heild hækkaði liðurinn um rúm 0,6% (0,18% áhrif í VNV). Var þar veigamest 0,8% hækkun á reiknaðri húsaleigu (0,12% í VNV). Undanfarna mánuði hefur þessi liður valdið okkur nokkrum heilabrotum þar sem hækkun hans hefur reynst minni en flestar vísbendingar gáfu tilefni til. Í þetta skiptið var hækkunin hins vegar í samræmi við spá okkar, og eigum við von á að áfram verði umtalsverð hækkun á reiknaðri húsaleigu að jafnaði í mánuði hverjum.

..og einnig tómstundir, eldsneyti, hótel og matur

Merki eru um hækkunarþrýsting vegna launakostnaðar og annarra innlendra kostnaðarþátta í ýmsum undirliðum VNV. Tómstundir og menning var sá undirliður sem næstmest lagði til hækkunar VNV nú (0,09% í VNV). Var sú hækkun dreifð á ýmsa undirliði, en kom okkur nokkuð á óvart. Þá hækkaði eldsneytisverð um 2,1% (0,08% í VNV) sem var einnig nokkuð meiri hækkun en við höfðum spáð. Einnig hækkaði hótel- og veitingaliður VNV um rúmlega 1,5% (0,08% í VNV). Þar vó þyngst að gisting hækkaði í verði um 12,4% (0,05% í VNV). Er það árstíðarbundin hækkun nú þegar aðal ferðamannatíminn fer í hönd. Matur og drykkur hækkaði um tæp 0,5% (0,07% í VNV). Voru það einna helst kjöt, brauð og kornvörur, og ávextir sem leiddu þá hækkun.

Lækkun á millilandaflugi, fjarskiptum og skóm

Á móti þessum hækkunarþáttum lögðust ýmsir lækkunarliðir. Má þar nefna að flutningar í lofti lækkuðu um 2,9% (-0,04% í VNV). Kom það til af 6% lækkun á flugfargjöldum til útlanda, en flugfargjöld innanlands hækkuðu um u.þ.b.25%. Þá lækkaði póstur og sími um 1,1% (-0,03% í VNV). Ekkert lát er á lækkun þessa liðar, og hefur hann lækkað um ríflega 12% frá ágúst síðastliðnum. Hér hefur mikil samkeppni á fjarskiptamarkaði vafalítið áhrif. Loks má nefna að föt og skór lækkuðu í verði um tæp 0,1%, og þá einkum vegna 0,7% verðlækkunar á skóm. Svo virðist sem mun meiri áhrifa af niðurfellingu vörugjalda gæti í skólið vísitölunnar, en frá áramótum hafa skór lækkað í verði um tæp 9% á sama tíma og fatnaður hefur lækkað um tæp 4%. 

Hófleg verðbólga í skammtímakortunum

Horfur eru á að verðbólga haldist áfram hófleg fram eftir ári. Húsnæðisliðurinn vegur þyngst til hækkunar VNV á komandi mánuðum, en þar spáum við 0,7% hækkun í mánuði hverjum líkt og raunin hefur verið að meðaltali undanfarna 12 mánuði. Í júní gerum við ráð fyrir hækkunaráhrifum af flugfargjöldum, eldsneyti, hótelum og veitingastöðum. Útsöluáhrif vega svo upp árstíðabundna hækkun flugliðar og aðra hækkunarþætti í júlí. Hið gagnstæða gerist síðan í ágúst þar sem útsölulok vega til hækkunar en lækkun flugfargjalda til lækkunar VNV.


Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir að VNV hækki um 0,4% í júní, lækki um 0,1% í júlí en hækki á ný um 0,5% í ágúst. Verðbólga verður skv. spánni 1,6% í ágúst. Það eru því horfur á að verðbólga haldist enn um sinn undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans þrátt fyrir talsverðan innlendan kostnaðarþrýsting og hækkandi eldsneytisverð.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall