Morgunkorn Íslandsbanka

Olíuverð ekki lægra í rúm 4 ár – líkur á meiri lækkun hér

21.11.2014

Gríðarleg lækkun hefur verið á olíuverði á heimsmarkaði á síðustu mánuðum og hefur verðið ekki verið lægra en nú á síðustu dögum síðan í september 2010, eða í rúm 4 ár. Þannig kostar tunna af Brent-olíu nú þegar þetta er ritað (kl. 07:30) 79,4 Bandaríkjadollara en um miðjan júní sl. var hún á rúma 115 dollara. Hefur hún því lækkað um 31% á þessu tímabili. Þróun á Brent-olíu gefur þó ekki beina vísun í endanlegt verð til neytenda, enda er eldsneyti mismikið unnið. Ef við skoðum vísitölu sem mælir þróunina á 95 oktana bensíni segir hún samt sem áður svipaða sögu, en sú vísitala hefur lækkað um 28% á sama tímabili.

Mun minni lækkun hér á landi

Þessi þróun hefur eðlilega haft áhrif hér á landi og hafa olíufélögin lækkað útsöluverð á eldsneyti þó nokkuð frá því í júní. Þannig er algengt verð á lítra af 95 oktana bensíni í sjálfsafgreiðslu nú að jafnaði 228 krónur en um miðjan júní sl. var lítraverðið komið upp í 252 krónur. Nemur lækkunin á bensínlítranum þar með rúmlega 9%. Verð á díselolíu hefur einnig lækkað, en þó heldur minna enda hækkaði díselolían ekki eins mikið framan af ári. Hafa olíufélögin lækkað verð á díselolíu að jafnaði um tæp 4%. Lækkunin er þó meiri hlutfallslega, þar sem opinber álagning á eldsneyti hér á landi, sem að stórum hluta er í formi krónutölugjalds, lækkar eðlilega ekki í hlutfalli við lækkun innkaupsverð. Sé tekið tillit til þessa þá hafa olíufélögin að jafnaði lækkað bensínverð um rúm 12% en díselolíuverð um rúm 5%. 

Fleiri þættir ráða verðþróun hér

Ofangreind umfjöllun bendir til þess að lækkunin á eldsneytisverði hér á landi hafi verið dropi í hafið miðað við hvað ætla mætti í samanburði við lækkunina erlendis. Það eru þó augljóslega margir aðrir þættir sem ákvarða þróunina á eldsneytisverði hér á landi en einungis þróun á eldsneyti erlendis, t.d. gengi krónunnar. Frá því um miðjan júní sl. hefur gengi dollarans hækkað gagnvart krónu um 8%. Í krónum talið hefur tunnan af Brent-olíu þar með lækkað um rúm 25% frá því um miðjan júní sl. en tonnið af 95-oktana bensíni lækkað um rúm 22%. Þrátt fyrir að munurinn á lækkuninni erlendis og hérlendis minnki við að leiðrétta fyrir sveiflum í gengi krónunnar er hann augljóslega enn mjög mikill. 

Verðsveiflur hóflegri hér en á heimsmarkaði

Á myndinni hér til hliðar má sjá samanburð á þróun Brent-olíu og viðmiðunarvísitölu fyrir bensín í íslenskum krónum ásamt verðþróun eldsneytis hérlendis. Á myndinni má glögglega sjá að enn er svigrúm  til lækkunar eldsneytisverðs hérlendis. Hún sýnir þó einnig hversu hóflegar sveiflur innlends eldsneytisverðs eru í samanburði við þróun erlendra markaða. Ástæður þessa geta verið nokkrar. Ein þeirra er sú að félögin kunna í einhverjum mæli að gera framvirka samninga um eldsneytiskaup. Hitt, sem skiptir líklega meira máli, er að félögin hafa á hverjum tíma ákveðnar birgðir sem keyptar hafa verið við annað verð en ríkir á stundarmarkaði á hverjum tíma. Vegna þessa getur eðlilega verið einhver töf á milli verðbreytinga hérlendis og erlendis. Þá geta félögin einnig viljað fara sér hægt í miklar verðbreytingar ef þau telja ekki einsýnt að verð á stundarmarkaði muni verða nokkuð stöðugt næsta kastið.

Framvirkir ferlar upphallandi en hafa leitað niður

Hér til hliðar má sjá framvirkan feril Brent-olíu núna og sömuleiðis fyrir síðustu mánuði. Eins og sjá má hefur ferillinn leitað niður á við undanfarið og er meðalverðið á framvirkum markaði nú yfir næsta ár um 80 dollarar tunnan. Standist þær væntingar markaðarins sem birtast í framvirka ferlinum ættu félögin ekki að þurfa að hræðast skyndilega olíuverðshækkun. 

Erfiðara er aftur að spá fyrir um þróun dollarans gagnvart krónu. Þrátt fyrir að Seðlabankinn virðist almennt reyna að halda gengisvísitölu krónunnar nokkuð stöðugri þá geta erlendar myntir þróast með ólíkum hætti innbyrðis. Á árinu hefur dollari styrkst töluvert á kostnað evru. Væntingar eru um að sú þróun haldi eitthvað áfram sem hefði líklega í för með sér einhverja áframhaldandi styrkingu á dollar gagnvart krónu. Það er þó ólíklegt að hún verði svo veruleg eða svo snörp að olíufélögin ættu ekki að geta aðlagað eldsneytisverð betur að heimsmarkaðsverði.  

Gætu lækkað um 13 krónur

Sé tekið mið af viðmiðunarvísitölu fyrir 95 oktana bensín mætti ætla að lækkunin á bensíni hér á landi gæti orðið í kringum 13 krónur til viðbótar hjá olíufélögunum. Lækkun á eldsneytisverði yrði augljóslega afar kær búbót fyrir hinn íslenska neytanda. Fyrir utan beinan kostnað sem hlýst af eldsneytiskaupum spilar eldsneytisverð stóra rullu í þróun verðbólgunnar hér á landi. Sem dæmi má nefna þá myndi eldsneytisverðlækkun upp á 13 krónur að mati okkar þýða 0,9% verðbólgu í árslok í stað 1,1% eins og við reiknum nú með í nýjustu verðbólguspá okkar, þá að öðru óbreyttu. Heildaráhrif lægra olíuverðs gætu þó orðið enn meiri. Lægra eldsneytisverð hefur áhrif til lækkunar flutningskostnaðar sem hefur áhrif á almennt vöruverð í landinu. Einhver þessara áhrifa eru líklega þegar komin fram, en við höfum t.a.m. ekki upplýsingar um þróun verðlags á innlendri flotaolíu. Eldsneytisverð hefur einnig áhrif til lækkunar á flugfargjöldum til og frá landinu, og er ekki ólíklegt að sú 28% lækkun sem við höfum séð á fluglið vísitölu neysluverðs frá því í júlí skýrist í það minnsta að hluta af lækkun eldsneytisverðs.  

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall