Morgunkorn Íslandsbanka

Húsnæðisliður leiðir hækkun VNV í nóvember

27.11.2013

nullVeruleg hækkun á markaðsverði húsnæðis er stærsti áhrifavaldur í hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í nóvember. VNV hækkaði um 0,36% milli mánaða í nóvember, sem er heldur yfir væntingum. Án húsnæðis hækkar VNV um 0,20% frá október. Við höfðum spáð 0,3% hækkun, en aðrar opinberar spár hljóðuðu upp á 0,2% hækkun VNV milli mánaða. Hækkunin í nóvember í fyrra var aðeins minni, og hækkar því 12 mánaða taktur VNV á milli mánaða úr 3,6% í 3,7%.

Veruleg hækkun á húsnæði

Eins og áður segir er markaðsverð húsnæðis stærsti áhrifavaldur í hækkun VNV í nóvember, sem er í takti við það sem við reiknuðum með. Hækkar húsnæðisliður í heild um 0,8% á milli október og nóvember, sem vegur til 0,20% hækkunar VNV, og skýrir þar með ríflega helming mánaðarhækkunar vísitölunnar nú. Þar af hækkar reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, um 1,4% á milli mánaða (0,19% í VNV). Mest er hækkunin á íbúðaverði milli mánaða utan höfuðborgarsvæðisins, 2,5%. Þá hækkar fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um 1,9% en verð á sérbýli á höfuðborgarsvæði stendur í stað milli mánaða.

Matvöruverð breyttist lítið í nóvembermánuði, en þar vó talsverð lækkun á verði ávaxta (-3,1%) og grænmetis (-2,4%) á móti verðhækkun á kjöti (0,9%), brauðmeti (0,6%), mjólkurvörum (0,8%) og sætindum (1,3%).

Af öðrum áhrifaþáttum má nefna að ferðir og flutningar hækkuðu um 0,1% á milli mánaða. Þar vógust á annars vegar 4,8% hækkun á flugfargjöldum til útlanda, og hins vegar 1,1% lækkun á eldsneytisverði. Þá hækkaði liðurinn húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. um 0,6% (0,03% í VNV), föt og skór um 0,3% (0,02% í VNV) og verð á heilbrigðisþjónustu hækkaði um 0,5% (0,02% í VNV).

Umtalsverð verðhækkun á tannlækningum

nullÞróun síðarnefnda liðarins er raunar athyglisverð, enda virðist hún að mestu skrifast á 1,7% hækkun á verði tannlækninga milli mánaða. Kostnaður við tannlækningar hefur aukist verulega undanfarið ár, þrátt fyrir stóraukna greiðsluþátttöku ríkisins í tannlækningum barna á tímabilinu. Undanfarna 12 mánuði hefur kostnaður við tannlækningar þannig hækkað um 4,6%, en ef undanskilin eru áhrif af greiðsluþátttöku ríkisins í tannlækningum barna, sem kom til lækkunar í verðmælingum maí- og septembermánaða, nemur hækkunin undanfarna 12 mánuði 11,4%.

Svipaðar verðbólguhorfur

Verðbólguhorfur á næstunni eru í stórum dráttum svipaðar frá síðasta mánuði. Bensínverð hefur raunar hækkað nokkuð, en á móti vegur að Reykjavík og ýmis önnur sveitarfélög hafa dregið úr áætluðum gjaldskrárhækkunum um næstu áramót. Þá gætu flugfargjöld til útlanda hækkað minna í desember en við höfðum gert ráð fyrir þar sem þau hækkuðu talsvert í nóvember. Sem fyrr gerum við því ráð fyrir hjaðnandi verðbólgu fram undir næsta vor, en niðurstaða kjarasamninga og gengisþróun krónu mun ráða miklu um hvort sú spá gengur eftir.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall