Morgunkorn Íslandsbanka

Styrking krónu leikur aðalhlutverk í hjaðnandi verðbólgu

22.12.2016

Áhrif styrkingar krónu léku stórt hlutverk í mælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs (VNV) í desember. VNV fyrir desember var birt í morgun og hækkaði hún um 0,14% frá fyrri mánuði. Hækkunin var minni en greiningaraðilar höfðu vænst. Spár lágu á bilinu 0,2% - 0,5%, og var spá okkar hæst. Munurinn á spá okkar og niðurstöðunni liggur að stórum hluta í flugfargjöldum til útlanda, þar sem við væntum mun meiri hækkunar en varð, en auk þess voru ýmsir innfluttir liðir að lækka meira en við bjuggumst við.

Verðbólga síðustu 12 mánaða mælist nú 1,9%, en var 2,1% í nóvember. Verðbólga hefur nú verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans samfleytt í 35 mánuði. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um 0,18% í desember og miðað við þá vísitölu mælist 0,8% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði.

Hröð hækkun húsnæðisliðar

Líkt og ráða má af ólíkri þróun VNV með og án húsnæðis vó húsnæðisliður vísitölunnar langþyngst til hækkunar hennar í desember. Húsnæðisliðurinn hækkaði um 0,95% (0,28% í VNV) milli mánaða. Þar af hækkaði reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu þróun íbúðaverðs, um 1,6% (0,26% í VNV). Reiknuð húsaleiga hefur hækkað um 14,4% undanfarna 12 mánuði, og hefur 12 mánaða taktur þessa liðar ekki verið hraðari frá vordögum 2008.

Flugfargjöld vógu næstþyngst til hækkunar VNV í desembermánuði, en áhrif þeirra voru þó langtum minni en við höfðum vænst.  Flutningar í lofti hækkuðu um 7,1% (0,08% í VNV) í mánuðinum. Hér er meginskýringin á muninum á spá okkar og niðurstöðunni, þar sem við væntum 0,33% hækkunaráhrifa af þessum lið. Þar af hækkuðu flugfargjöld til útlanda um 6,5% en mæling okkar hafði bent til mun meiri hækkunar. 

Styrking krónu leiðir verðlækkun

Á móti þessum hækkunarliðum lögðust áhrif styrkingar krónu undanfarna mánuði, sem vógu talsvert til lækkunar VNV nú. Má þar nefna að húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði í verði um 1,6% milli mánaða (-0,07% í VNV), föt og skór um 1,4% (-0,06% í VNV), matur og drykkur um tæp 0,5% (-0,06% í VNV) og tómstundir og menning um 0,5% (-0,05% í VNV). Í öllum þessum tilfellum léku innfluttir vöruflokkar stórt hlutverk í lækkun viðkomandi liðar. Þá lækkuðu bifreiðar í verði um 0,4% (-0,02% í VNV) og lyf og lækningavörur lækkuðu í verði um tæp 0,4% (-0,01% í VNV). Í heild vó verðlækkun innfluttra vara til ríflega 0,2% lækkunar VNV í desember. 

Undanfarna 12 mánuði hafa innfluttar vörur lækkað í verði um 3,5%, og haft áhrif til 1,2% verðhjöðnunar á tímabilinu. Á sama tíma hefur hækkun húsnæðisliðar haft tæplega 2,6% hækkunaráhrif á VNV, innlendar vörur tæplega 0,2% hækkunaráhrif og þjónusta ríflega 0,5% hækkunaráhrif í VNV. Á heildina litið má með nokkurri einföldun segja að núverandi 1,9% verðbólga endurspegli annars vegar 1,2% innflutta verðhjöðnun, og hins vegar 3,1% innlenda verðbólgu.

Líkur á frekari hjöðnun verðbólgu á næstunni

Horfur eru á að verðbólgutakturinn hjaðni enn frekar á fyrsta fjórðungi næsta árs. Samkvæmt bráðabirgðaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,8% lækkun VNV í janúar, 0,5% hækkun í febrúar og 0,4% hækkun í mars. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,5% í mars næstkomandi.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,16% í mánuði hverjum. Í janúar nk. koma útsöluáhrif inn af krafti, en auk þess hefur fyrirhugað afnám tolla á ýmsar innfluttar vörur nokkur lækkunaráhrif sem og væntanleg lækkun veitugjalda fyrir rafmagnsflutninga og kalt vatn hjá OR þótt hækkun annarra veitu- og þjónustugjalda við íbúðarhúsnæði vegi á móti. 

Einnig gerum við ráð fyrir að flugfargjöld lækki talsvert að nýju í janúar og febrúar. Sú lækkun gæti þó orðið talsvert hóflegri en við gerðum ráð fyrir í bráðabirgðaspá okkar, þar sem flugfargjöldin hækkuðu mun minna en við væntum í desember. Gjaldskrárhækkanir, sem oft setja svip sinn á VNV í janúar, virðast munu hafa hófleg áhrif í þetta skiptið. Í febrúar og mars ganga svo útsöluáhrif til baka að mestu.

Horfur eru því á að verðbólga fjarlægist verðbólgumarkmið Seðlabankans að nýju á fyrstu mánuðum komandi árs, og reyndar eru verulegar líkur á því að mati okkar að verðbólga muni á endanum reynast undir markmiði bankans fjórða árið í röð.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall