Morgunkorn Íslandsbanka

Stýrivextir lækkaðir og hlutlaus framsýn leiðsögn

17.05.2017

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur í dag. Flestir greiningaraðilar voru á lækkun en spár voru á bilinu frá óbreyttum stýrivöxtum niður í 0,25 prósenta lækkun. Spáðum við óbreyttum stýrivöxtum. 

Hlutlaus framsýn leiðsögn

Framsýn leiðsögn í yfirlýsing nefndarinnar er hlutlaus varðandi næstu skref nefndarinnar. Segir í yfirlýsingunni að „traustari kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmiðið og hækkun gengis krónunnar hafa gert peningastefnunefnd mögulegt að ná lögboðnu markmiði um verðstöðugleika við lægra vaxtastig en ella. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn.“ Er þetta orðrétt sama málsgrein og var í yfirlýsingu nefndarinnar vegna síðustu vaxtaákvörðunar hennar þ.e. í mars á þessu ári. 

Innlend spenna að vegast á við gengishækkun og litla alþjóðlega verðbólgu

Nefndin segir í yfirlýsingu sinni að spennan í þjóðarbúinu fari nú vaxandi en að hækkun gengis krónunnar og lítil alþjóðleg verðbólga vegi á móti verðbólguþrýstingi af innlendum rótum þannig að verðbólgan mælist nú 1,9% og áþekk því sem hún hefur verið sl. hálft ár.

Tekið er fram að skýr merki um aukna spennu í þjóðarbúskapnum kalli á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Raunvextir bankans hafi hækkað lítillega frá síðasta fundi peningastefnunefndar. Þá feli gengishækkun krónunnar einnig í sér aukið aðhald.

Ljóst er að mikil hækkun gengis krónunnar síðustu daga hefur haft sitt að segja varðandi vaxtaákvörðunina. Krónan hefur styrkst um nær 3% á einni viku og en um miðja síðustu viku hafði gengni krónunnar ekki styrkst um meira er rétt 1% frá síðustu vaxtaákvörðun í febrúar.  

Meiri vöxtur, spenna og viðskiptaafgangur

Seðlabankinn spáir nú mun meiri hagvexti á yfirstandandi ári en í síðustu spá sinni í febrúar sl., Spáir bankinn nú 6,3% hagvexti í stað 5,3% hagvaxtar í fyrri spá. Þá spáir hann nú 3,5% hagvexti á næsta ári í stað 3,1% í fyrri spá, en spáin fyrir 2019 hljóðar upp á 2,5% hagvöxt og er lítið breytt. Meiri vöxtur í ár er fyrst og fremst vegna mun hraðari vaxtar útflutnings en í síðustu spá, sér í lagi í ferðaþjónustu. Á móti spáir bankinn einnig hraðari vexti innflutnings, en útflutningsvöxturinn vegur þó þyngra. Á næsta ári vegur hins vegar hraðari vöxtur innlendrar eftirspurnar, ekki síst einkaneyslu, þyngst í meiri hagvexti en áður var spáð.

Bankinn spáir nú talsvert sterkari krónu á spátímanum en í febrúar. Er meðalgengið m.v. gengisvísitölu fyrir þetta ár 157,0 í spá bankans, en var 162,6 í síðustu spá. Fyrir næsta ár er spáin 148,2 (154,2 í fyrri spá) og fyrir 2019 147,4 (152,4). Þessi breytta forsenda ræður væntanlega miklu um að bankinn spáir nú 1,9% verðbólgu í ár (2,1% í fyrri spá) og 2,2% árið 2018 (2,5%). Hins vegar gerir bankinn ráð fyrir 3,3% verðbólgu árið 2019 (2,8%). Þrátt fyrir hærra raungengi og meiri framleiðsluspennu en í fyrri spá gerir bankinn nú ráð fyrir meiri viðskiptaafgangi 2017-2019 (5,9% af VLF að meðaltali) en í fyrri spá (4,4% af VLF).

Raunar telur Seðlabankinn að styrking krónu endurspegli fyrst og fremst aðlögun að breyttum efnahagsaðstæðum. Jafnvægisraungengi krónu hafi því hækkað talsvert, t.d. vegna bættrar erlendrar stöðu þjóðarbúsins, hagstæðari viðskiptakjara, mikils vaxtar ferðaþjónustunnar. Segir bankinn að núverandi gengi krónunnar sé nálægt jafnvægisgengi hennar. Er það mat bankans að hefði gengi krónu haldist óbreytt frá árinu 2014 hefði verðbólga farið yfir verðbólgumarkmiðið strax árið 2015, og stýrivextir verið 3,5 prósentum hærri í fyrra en raunin varð.

Aðspurður um þróun á húsnæðismarkaði sagði Seðlabankastjóri að mikil verðhækkun íbúðarhúsnæðis undanfarið væri fyrst og fremst vegna strúktúrþátta fremur en ónógs peningalegs aðhalds. Hins vegar væri vert að skoða hvort bregðast þyrfti við aukinni kerfisáhættu í fjármálakerfinu samfara hraðri hækkun, en það væri utan verksviðs peningastefnunefndar.

Seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina að það væri áhættuþáttur fyrir verðbólguhorfur að kjarasamningar á komandi fjórðungum gætu falið í sér meiri hækkun launa en samræmist SALEK-samkomulaginu, en spá bankans gerir ráð fyrir að samkomulagið haldi. Það hefði hins vegar ekki verið ástæða til að byggja inn í spá bankans að samkomulagið myndi bresta að svo komnu máli.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall