Morgunkorn Íslandsbanka

Dágóð hækkun á verði íbúða í fjölbýli

21.10.2013

nullÍbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,9% í september sl. frá fyrri mánuði. Þessa hækkun má að öllu leyti rekja til 2,5% hækkunar á verði íbúða í fjölbýli, sem vega mun meira í vísitölunni en sérbýlin. Í raun hefur svo mikil hækkun á íbúðum í fjölbýli ekki orðið á milli mánaða síðan í maí árið 2011. Allt önnur þróun varð á verði sérbýla á sama tíma, sem lækkuðu á milli mánaða um 2,5%. Þetta er í fyrsta sinn síðan í byrjun árs sem verð sérbýla lækkar á milli mánaða, og í raun hefur lækkunin ekki orðið eins mikil og nú síðan um mitt árið 2010. Þó ber hér að hafa í huga að talsverðar sveiflur eru í mælingum á milli mánaða og betra að horfa í þróunina til lengri tíma þegar greina á hvert markaðurinn er að fara. Þetta má sjá tölum sem Þjóðskrá Íslands tekur saman um vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu, og birti undir lok síðustu viku.

Verð á sérbýlum heldur ekki í við verðbólgu

nullÍ september í fyrra hafði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 0,2% frá fyrri mánuði, og fer 12 mánaða hækkunartakturinn á milli ágúst og september sl. þar með úr 6,8% í 7,0%. Í september sl. mældist verðbólga 3,9%, og hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu þar með hækkað um 3,0% að raunvirði síðasta árið. Ívið meiri hækkun hefur orðið á verði íbúða í fjölbýli en verði á sérbýlum á þessu tímabili, eða um 8,8% á móti 2,3% að nafnverði. Í raun má sjá að verðþróun á sérbýlum nær ekki að vega upp á móti þeirri hækkun sem orðið hefur á verðlagi hér á tímabilinu, en að raunvirði hefur raunverð sérbýla lækkað um 1,6% á sama tímabili og raunverð íbúða í fjölbýli hefur hækkað um 4,8%.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall