Morgunkorn Íslandsbanka

Næstminnsta gjaldeyrisútboð frá upphafi

04.09.2013

Niðurstaða gjaldeyrisútboðs Seðlabankans í gær var sú rýrasta frá því í ágúst í fyrra. Einnig var þetta næstminnsta gjaldeyrisútboðið frá því þeim var hleypt af stokkunum sumarið 2011. Alls skiptu tæplega 20 m. evra um hendur í útboðinu, og greiddu aflandskrónueigendur 4,4 ma.kr. fyrir evrurnar en seljendur fengu 4,1 ma.kr. fyrir seldar evrur.

Í fyrri hluta útboðsins, þar sem Seðlabankinn bauðst til að kaupa evrur, námu tilboð alls 21 m. evra. Þar af voru boðnar 3,7 m. evrur fyrir greiðslu í verðtryggða ríkisbréfaflokknum RIKS33 en 17,3 m. evrur fyrir krónur samkvæmt 50/50 leiðinni. Gengið var ákveðið 210 krónur fyrir hverja evru. Er það sama gengi og  í útboðunum í maí og júní. Tilboðum fyrir 19,4 m. evra var tekið, en það jafngildir 92% heildartilboða. 2,9 m. evra voru keypt gegn greiðslu í RIKS33-bréfum, en 16,5 m. evra fyrir krónur samkvæmt 50/50 leiðinni.

Í seinni hluta útboðsins, þar sem Seðlabankinn seldi evrur til aflandskrónueigenda, námu heildartilboð 14,5 mö.kr. Gengið var sett 224 kr. fyrir hverja evru og var tilboðum fyrir 4,4 ma.kr. tekið. Er þetta hæsta verð fyrir evruna í krónum talið (m.ö.o. lægsta gengi krónu) til aflandskrónueigenda frá því í útboðinu í mars síðastliðnum.

Færri vildu inn í útboðinu

Eftirspurn aflandskrónueigenda virðist hafa verið töluverð, en áhugi minni meðal seljenda gjaldeyris. SBÍ tók langstærsta hluta tilboðanna um sölu á evrum og fékk þær á sama verði og undanfarið, 210 krónum fyrir evruna, sem er lægsta verð sem þeir hafa greitt fyrir evruna í útboðunum. Aftur á móti var innan við þriðjungur spurnar eftir evrum frá aflandskrónueigendum uppfylltur, og verðið sem Seðlabankinn fékk það hæsta síðan í mars síðastliðnum.

Útboðið í gær var miklu minna en útboðið í júní, en þá skiptu tæplega 45 m. evra um hendur fyrir nærri 10 ma.kr. Þar munar mestu að RIKS33-bréf voru seld fyrir 17,6 m. evra í júní, en aðeins 2,9 m. evra í dag. Einnig fór talsvert lægri fjárhæð í gegn um 50/50-leiðina í gær, eða 16,5 m. evra á móti 26,5 m. evra í júní.

Aflandskrónustabbinn minnkað um fjórðung vegna útboðanna

Í tilkynningunni um niðurstöðuna kom fram að útboðunum verður fækkað um eitt það sem eftir lifir árs frá fyrri áætlun. Næstu útboð eru áætluð 15. október og 3. desember, en áður hafði verið gert ráð fyrir einu útboði í mánuði hverjum til áramóta.

Alls hafa 104 ma.kr. af aflandskrónum farið úr eigu útlendinga vegna útboðanna. Aflandskrónur nema nú tæplega 340 mö.kr., ef niðurstaða útboðsins er dregin frá nýjustu tölum Seðlabankans sem ná til júlíloka. Rúmur helmingur þeirra er ávaxtaður í ríkisbréfum og víxlum, rúmlega 40% innstæðum og það sem út af stendur í íbúðabréfum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall