Morgunkorn Íslandsbanka

Myndarlegt gjaldeyrisútboð í gær

05.02.2014

nullGjaldeyrisútboð Seðlabankans í gær var af stærri gerðinni, og hafa ekki hærri fjárhæðir skipt um hendur í gjaldeyrisútboðum bankans í tvö ár. Sérstaklega vekur athygli hversu mikið Seðlabankinn seldi af verðtryggðum ríkisbréfum í útboðinu, og vó mikill áhugi á þeirri leið upp hóflegan áhuga fjárfesta á 50/50 leiðinni svokölluðu. Þá fengu aflandskrónueigendur evrur á hagstæðara gengi í útboðinu en þeir hafa fengið síðan í apríl í fyrra.

Fjárfestar sækjast eftir ríkisbréfum

Í fyrri hluta þessa fyrsta gjaldeyrisútboðs ársins bárust alls tilboð um sölu á 49,3 m. evra frá fjárfestum, og var tilboðum fyrir 46,8 m. evra tekið á genginu 209 kr. á hverja evru. Er það breyting frá undanförnum útboðum, en frá apríl í fyrra og fram í desember var útboðsgengið í þessum hluta ávallt ákveðið 210 kr. fyrir evruna.

Óvenju mikill áhugi var á ríkisbréfaleiðinni svonefndu í útboðinu, og seldi Seðlabankinn verðtryggð RIKS33-bréf  fyrir 4,1 ma.kr. að nafnverði. Rifja má upp að heildartilboð í RIKS33 í desember voru 13,3 m. evra, og þá var aðeins tekið tilboðum fyrir 0,5 m. evra. Teljum við líklegt að sú eftirspurn hafi að miklu leyti dúkkað upp að nýju í útboðinu í dag. Hefur ekki meira verið selt af RIKS-bréfum í gjaldeyrisútboði síðan í febrúar 2012, þegar lífeyrissjóðir keyptu mikið magn slíkra bréfa í útboði.

Þá fengu fjárfestar 5,1 ma.kr. samkvæmt 50/50 fjárfestingarleiðinni í útboðinu í gær. Til samanburðar var þessi fjárhæð 8,3 ma.kr. í síðasta gjaldeyrisútboði í desember síðastliðnum, en stærð 50/50 útboðsins í gær var í meðallagi miðað við útboð síðasta árs. Að meðtöldum þeim gjaldeyri sem þeir þurfa að selja fyrir krónur á innlendum markaði til að uppfylla skilyrði 50/50 leiðarinnar má gera ráð fyrir að heildar fjárfesting tengd þessum hluta útboðsins nemi u.þ.b. 9 mö.kr. Af fjölda tilboða má ráða að margir hafi verið um hituna í þessum hluta útboðsins, og fjárhæðir í flestum tilfellum fremur lágar.

Aflandskrónum fækkar

nullÍ seinni hluta útboðsins í gær, þar sem aflandskrónueigendum bauðst að kaupa evrur fyrir krónueign sína, námu tilboð alls 15,9 mö.kr. Var tiðboðum fyrir 9,9 ma.kr. tekið á genginu 210 kr. fyrir evruna. Er það talsverð breyting frá síðustu útboðum, en í útboðinu í desember var skiptigengið 216 kr. á evru og í október síðastliðnum var skiptigengið 227 kr. fyrir evruna. Þar sem gengið í fyrri legg útboðanna hefur verið nánast stöðugt, eins og fyrr segir, hefur bilið milli inn- og útgengisins minnkað mikið, og hefur raunar ekki verið minna síðan í apríl 2013.

nullGjaldeyrisútboð Seðlabankans eru burðarásinn í fyrri áfanga áætlunar um losun gjaldeyrishafta, sem birt var fyrir tæplega þremur árum. Þessi fyrri áfangi leggur áherslu á að minnka aflandskrónur sem urðu innlyksa hérlendis við hrunið 2008, en slíkar krónur námu mest 586 mö.kr. ári eftir hrunið. Útboðin hafa frá þeim tíma lækkað stabba aflandskróna um 128 ma.kr., en einnig hafa komið til aðrar aðgerðir Seðlabankans. Samkvæmt tölum bankans námu aflandskrónur 327 mö.kr. um síðustu áramót, og lætur því nærri að þær séu 317 ma.kr. eftir útboðið í gær eða 54% af því sem þær voru mest. Sem hlutfall af landsframleiðslu fóru aflandskrónurnar hæst í 39% árinu eftir hrunið en eru nú komnar niður í 18% af áætlaðri landsframleiðslu þessa árs. Seðlabankinn hefur þegar tilkynnt um fjögur útboð til viðbótar fram til september á þessu ári.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall