Morgunkorn Íslandsbanka

Áfram lítil verðbólga í apríl

29.04.2015

Verðbólga í apríl mælist ríflega prósentu undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, og hefur verðbólga nú verið undir markmiði í 15 mánuði samfleytt. Horfur eru á að verðbólga verði áfram hófleg allra næstu mánuði, en líkur eru til að hún aukist allhratt þegar líður á árið.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,14% í apríl frá mánuðinum á undan. Niðurstaðan er í samræmi við opinberar spár, sem lágu á bilinu óbreytt VNV til 0,1% hækkun og höfðum við spáð 0,1% hækkun VNV. 

Verðbólga hjaðnaði lítillega í apríl og mælist nú 1,4%, en var 1,6% í marsmánuði. Verðbólgan fór undir verðbólgumarkmið Seðlabankans í febrúar 2014 og hefur verið undir markmiðinu í 5 ársfjórðunga eins og fyrr segir. Ef miðað er við VNV án húsnæðis mælist raunar 0,1% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði, en á þennan kvarða hefur verið verðhjöðnun hér á landi frá nóvember síðastliðnum.

Húsnæðisliður hækkar áfram

Húsnæðisliðurinn er einmitt helsti hækkunarvaldur í VNV að þessu sinni. Liðurinn hækkaði um 0,43% á milli mánaða (0,12% í VNV). Er hækkunin að mestu til komin vegna 0,6% hækkunar á reiknaðri húsaleigu (0,09% í VNV) en einnig hækkaði greidd húsaleiga um 0,6% (0,03% í VNV). Hækkun reiknaðrar húsaleigu er raunar meiri en við áttum von á. Skýrist munurinn að mestu af 2,6% hækkun húsnæðisverðs á landsbyggðinni, en okkar verðmæling hafði bent til óbreytts verðs.

Hófleg áhrif annarra liða

Aðrir liðir sem höfðu áhrif til hækkunar VNV að þessu sinni voru m.a. flugfargjöld til útlanda, sem hækkuðu um 4,4% (0,07% í VNV) og eldsneytisverð, sem hækkaði um 0,8% (0,03% í VNV). Flugliðurinn hækkaði öllu meira en við höfðum spáð, en erfitt virðist vera að festa nákvæmlega fingur á honum þessa dagana og hafa sveiflur þar oft verið meiri en þennan mánuðinn.

Hins vegar lækkaði verð á fötum og skóm um 1,1% í apríl (-0,05% í VNV) og verð á nýjum bifreiðum lækkaði um 0,8% (-0,04% í VNV). Hvað síðarnefnda liðinn varðar eru hér væntanlega á ferð áhrif af lækkun evrunnar gagnvart krónu, en hún nemur tæpum 5% frá upphafi árs. Þá lækkaði verð á mat og drykk um 0,1% í apríl (-0,01% í VNV).

Verðbólga yfir markmið fyrir árslok

Horfur fyrir næstu mánuði eru til hóflegrar hækkunar VNV, og hafa þær lítið breyst frá fyrri spá. Eldsneyti hefur þó þegar hækkað um 1,5% frá aprílmælingu Hagstofunnar (0,06% í VNV). Hins vegar gæti verð á fatnaði lækkað í maí, ef marka má nýlegar fréttir af umtalsverðri verðlækkun í tilteknum verslunum. Þá virðist enn nokkuð í land með niðurstöðu í kjarasamningum. Auk þess má búast við stöðugri krónu áfram, en gengi krónu hefur verið óvenju stöðugt gagnvart körfu helstu viðskiptamynta frá því Seðlabankinn breytti stefnu sinni gagnvart inngripum á markaði vorið 2013. 

Verðbólga mun þó væntanlega færast í aukana þegar líður á árið, að stórum hluta vegna afar óvanalegrar þróunar VNV á síðustu fjórum mánuðum síðasta árs. Þannig hækkar VNV oftast nær talsvert á síðasta þriðjungi ársins, en í fyrra lækkaði hún um 0,2% sem kom að stærstum hluta til af lækkun á verði eldsneytis (-8,7%) og flugfargjalda (-21%). Við teljum ólíklegt að samskonar lækkun muni eiga sér stað í ár á þessum liðum í ár, og endurspeglast það í verðbólguspá okkar. Húsnæðisverð hækkar líklega allhratt næsta kastið, og líkur virðast vera á að kjarasamningum verði lokað með talsvert meiri hækkun launa að jafnaði en var í síðustu samningum fyrir rúmu ári. Eru því horfur á að verðbólga fari yfir verðbólgumarkmiðið á ný fyrir árslok og verið nokkuð yfir því á komandi misserum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall