Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,4% hækkun VNV í apríl

11.04.2017

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4 í apríl frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst verðbólga úr 1,6% í 1,8%

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa versnað nokkuð frá síðustu spá okkar. Er það annars vegar vegna þess að við gerum ráð fyrir lægra gengi krónu nú en í fyrri spá, og hins vegar vegna hraðari hækkunar íbúðaverðs framan af spátímanum en áður. Við gerum þó enn ráð fyrir að verðbólga verði undir 2,5% markmiði Seðlabankans allt árið 2017, og mælist 2,2% í árslok. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast að nýju, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á 1. ársfjórðungi 2018 og verða að jafnaði 3,4% á seinni hluta spátímans.

Húsnæði, flug, matur og gisting til hækkunar

Húsnæðisliður VNV hefur knúið hækkun hennar að miklu leyti undanfarið og er hann langstærsti hækkunarvaldurinn í apríl samkvæmt spá okkar. Könnun okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu, muni hækka um 2,0% í mars (0,35% áhrif í VNV). Það yrði þá mesta hækkun þessa liðar í einum mánuði frá árinu 2007, ef frá er talinn september sl. þegar Hagstofan leiðrétti skekkju frá því fyrr á árinu og var þar því í rauninni um samanlagða tveggja mánaða hækkun liðarins að ræða.  Í heild vegur húsnæðisliður VNV til 0,34% hækkunar í mars, þar sem verðlækkun á innfluttu byggingarefni togar viðhaldsþátt liðarins lítillega niður. 

Útlit er fyrir talsverða hækkun flugfargjalda til útlanda eftir lækkun í mars, enda lendir stór hluti aprílmælingar á páskatímabilinu þetta árið. Einnig gerum við ráð fyrir nokkurri hækkun flugfargjalda innanlands. Flugfargjöld vega samtals til 0,10% hækkunar VNV í spá okkar. Við gerum einnig ráð fyrir nokkurri verðhækkun á mat og drykk (0,05% í VNV), ekki síst grænmeti, ávöxtum og kjötvörum. Þá hefur eldsneytisverð hækkað nokkuð frá marsmælingu VNV (0,03% í VNV), enda hefur gengi krónu lækkað og eldsneytisverð á heimsmarkaði hækkað síðustu vikur. Loks teljum við að verð á þjónustu hótela og veitingastaða hækki nokkuð í apríl (0,03% í VNV), enda fer háannatími ferðaþjónustunnar brátt í hönd auk þess sem samningsbundnar launahækkanir eru á næsta leiti hjá þessum mannaflsfreka geira.

Fatnaður og fleira til lækkunar

Á móti ofangreindum þáttum vegur ýmislegt til lækkunar VNV í aprílmánuði. Þar er verðlækkun á fötum og skóm þyngst á metunum (-0,06% í VNV). Vísbendingar eru um að fataverð fari nú lækkandi, og má þar nefna að verslunarkeðjan Lindex tilkynnti nýlega um 11% meðal verðlækkun á vörum sínum í kjölfar hagstæðrar þróunar krónu.

Þá má búast við að verð síma- og netþjónustu haldi áfram að lækka (-0,03% í VNV), en þessi liður hefur lækkað linnulaust undanfarið hálft ár. Aðrar varanlegar neysluvörur á borð við bifreiðar og raftæki munu svo að mati okkar skila 0,04% lækkun VNV til viðbótar í apríl.

Verðbólga svipuð næstu mánuði

Horfur eru á að verðbólgutakturinn verði svipaður næstu mánuðina. Við spáum 0,3% hækkun VNV í  maí, 0,2% hækkun í júní en 0,2% lækkun VNV í júlí. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,9% um mitt árið.
 
Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,20% í mánuði hverjum að jafnaði. Höfum við hækkað spá okkar um húsnæðisverð næstu mánuði í ljósi núverandi aðstæðna á íbúðamarkaði. Þá gerum við ráð fyrir nokkurri árstíðarbundinni hækkun flugfargjalda í júní og júlí. Útsöluáhrif munu svo setja svip sinn á júlímælingu VNV að vanda.

Verðbólga undir markmiði út árið 2017

Útlit er fyrir áframhaldandi hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki eftir á nýjan leik. Við teljum að verðbólga verði á líku róli og verið hefur fram undir árslok, haldist undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og mælist 2,2% í desember nk. Hins vegar bætir í verðbólgutaktinn í spá okkar eftir því sem líður á næsta vetur. Áætlum við að verðbólga fari yfir 2,5% verðbólgumarkmiðið á 1. fjórðungi ársins 2018 og verði yfir markmiðinu það ár. Við spáum 3,0% verðbólgu að jafnaði á næsta ári, og 3,4% verðbólgu að meðaltali árið 2019.

Gengisþróunin lykilatriði

Gengisþróun krónu er sem fyrr einn helsti áhrifaþáttur spár okkar, og gerum við eftir sem áður ráð fyrir styrkingu fram á lokafjórðung yfirstandandi árs. Hins vegar höfum við dregið nokkuð úr væntingum okkar til styrkingarinnar og gerum nú ráð fyrir ríflega 4% styrkingu á tímabilinu. Þar kemur til breytt umhverfi krónunnar í kjölfar losunar hafta og ekki síður sá ásetningur stjórnvalda að halda aftur af frekari styrkingu krónu. Líkt og áður gerum við í kjölfarið ráð fyrir hægfara gengislækkun krónu á seinni hluta spátímans, þegar dregur úr viðskiptaafgangi og hátt raungengi fer að segja til sín af auknum þunga. 

Gengi krónu er að jafnaði nokkuð lægra í spá okkar nú en síðustu spá, bæði vegna þróunar hennar undanfarinn mánuð og breyttra væntinga um þróunina það sem eftir lifir ársins. Gengisforsendan hefur talsverð áhrif í spánni, og má nefna að ef gengi krónu er haldið föstu í spánni m.v. meðaltal marsmánaðar fer verðbólga í spánni upp fyrir verðbólgumarkmiðið á síðasta fjórðungi þessa árs og verður að jafnaði 0,6% meiri en ella á næsta ári.

Hækkun launa mun áfram mynda hækkunarþrýsting á verðlag hérlendis, enda gerum við ráð fyrir nokkuð meiri hækkun launa en samrýmist verðbólgumarkmiðinu að viðbættum framleiðnivexti. Sá þrýstingur minnkar hins vegar jafnt og þétt þegar frá líður og dregur úr spennu á vinnumarkaði. Óvissa á vinnumarkaði minnkaði til skemmri tíma eftir að ákveðið var að fresta endurskoðun almennra kjarasamninga að sinni. Hins vegar kunna vendingar í stórum launþegasamtökum nýverið að hafa aukið óvissuna í átt til meiri hækkunar launa, og þar með meiri verðbólguþrýstings, þegar frá líður. 

Sem fyrr segir gerum við nú ráð fyrir allhraðri hækkun íbúðaverðs næstu mánuði, og hefur það einnig áhrif til hækkunar verðbólguspárinnar framan af. Í kjölfarið spáum áframhaldandi hækkun en að smám saman dragi úr hækkunarhraðanum.

Verðbólguspá apríl 2017
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall