Morgunkorn Íslandsbanka

Stýrivextir Seðlabankans loksins lækkaðir

05.11.2014

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að hún hefði ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur. Kemur þetta okkur ánægjulega á óvart, enda höfðum við sem og aðrir greiningaraðilar reiknað með að hún myndi enn eina ferðina kjósa að halda vöxtum bankans óbreyttum þrátt fyrir breyttar verðbólguhorfur undanfarið. 

Helstu rök nefndarinnar fyrir lækkun stýrivaxta bankans eru að verðbólgan er undir verðbólgumarkmiðinu og hefur verið það í níu mánuði samfleytt. Þá reiknar bankinn nú með því að verðbólgan komi til með að hjaðna enn frekar á næstu mánuðum og verði við eða undir verðbólgumarkmiðinu fram yfir mitt næsta ár. Verðbólguvæntingar hafa lækkað á undanförnum mánuðum og nálgast nú verðbólgumarkmiðið. Raunvextir hafa því hækkað meira en búist var við, og eru hærri en staða hagsveiflunnar og horfur til skemmri tíma gefa tilefni til. Því telur nefndin forsendur fyrir að draga úr raunvaxtahækkuninni nú. Þá er útlit fyrir að hagvöxtur á þessu ári verði aðeins undir þeirra fyrri spá.  

Hefði mátt koma fyrr

Þrátt fyrir að peningastefnunefndin hafi komið okkur á óvart með vaxtalækkuninni í dag teljum við að aðgerðin sé vissulega rétt í ljósi þróunar verðbólgunnar undanfarið, aðhaldsstigs peningamála og stöðu hagkerfisins. Raunstýrivextir eru að okkar mati of háir m.v.  stöðu hagkerfisins nú og horfur eftir að hafa hækkað nokkuð hratt samhliða hjöðnun verðbólgunnar. Vaxtalækkunin hefði þó mátt koma fyrr að okkar mati, jafnvel í maí sl. þegar við spáðum 25 punkta lækkun.

Spá nú svipaðri verðbólguþróun og við

Ný verðbólguspá Seðlabankans er mjög svipuð okkar spá, og var henni breytt í takti við það sem reikna mátti með, þ.e. í átt til aukinnar bjartsýni á verðbólguhorfur til skemmri tíma. Reiknar bankinn, líkt og við, með því að verðbólgan verði undir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans fram á mitt næsta ár. Raunar gerir Seðlabankinn nú ráð fyrir því að verðbólga víki ekki verulega frá verðbólgumarkmiðinu allan spátímann, þótt bankinn taki fram að óvissa í verðbólguspánni sé fremur þannig að verðbólgunni kunni að vera vanspáð. Einnig breytti bankinn hagvaxtarspá sinni, og tekur hana nokkuð niður á við sem má að mestu leyti rekja minni atvinnuvegafjárfestingar. Spáir hann nú 2,9% hagvexti í ár en hafði í ágúst sl. reiknað með 3,4%. Þá spáir bankinn 3,5% vexti á næsta ári en var með 3,9% áður. Loks reiknar hann með 2,8% hagvexti árið 2016, sem er hið sama og hann spáði í ágúst.  

Opna á frekari lækkun vaxta

Peningastefnunefndin segir að verði launahækkanir í komandi kjarasamningum í samræmi við verðbólgumarkmið bankans geti skapast forsendur fyrir frekari lækkun nafnvaxta. Á hinn bóginn varar nefndin við því að miklar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar gætu leitt til hækkunar vaxta á ný. Rifja má upp að nefndin opnaði á lækkun vaxta á síðasta fundi sínum í október. Mat nefndin það þá þannig að helstu rök fyrir lækkun vaxta væru aukið aðhald peningastefnunnar, hagstæðari verðbólguþróun og lækkandi verðbólguvæntingar. 

Næsta skref veltur á komandi kjarasamningum

Ljóst er að komandi kjarasamningar muni hafa úrslitaáhrif á hvort við sjáum aðra stýrivaxtalækkun á komandi misserum. Ólíklegt er að bankinn muni lækka vexti meira fyrr en niðurstaða þeirra liggur fyrir. Hóflegir samningar í takti við það sem samið var um á almennum vinnumarkaði í upphafi þessa árs gætu hins vegar í ljósi yfirlýsingar nefndarinnar nú skilað annarri vaxtalækkun á fyrri helmingi næsta árs. Óróleiki á vinnumarkaði undanfarið skapar hins vegar mikla óvissu hvort að af þeirri vaxtalækkun verði, og jafnvel er ekki loku fyrir það skotið að bankinn myndi bregðast við mikilli prósentuhækkun í kjarasamningum með vaxtahækkun.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall