Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,1% lækkun neysluverðs í nóvember

14.11.2014

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,1% í nóvembermánuði frá mánuðinum á undan. Gangi spáin eftir hjaðnar verðbólga úr 1,9% í 1,4%, og verður nóvember 10. mánuðurinn í röð þar sem verðbólga er undir 2,5% markmiði Seðlabankans. Hefur verðbólga ekki verið minni síðan í ársbyrjun 2003 ef spáin rætist.  

Verðbólguhorfur til næstu mánaða eru sem fyrr ágætar og hafa batnað jafnt og þétt undanfarið. Við gerum nú ráð fyrir að verðbólgan muni verða undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram yfir mitt næsta ár. Í kjölfarið spáum við aukinni verðbólgu samhliða því að meiri þróttur færist í efnahagslífið, þótt verðbólga verði áfram í grennd við markmið Seðlabankans. Hagstofan birtir VNV fyrir nóvember kl.09:00 þann 26. nóvember næstkomandi.

Ferðir og flutningar lækka

Meginbreyting nóvemberspárinnar frá bráðabirgðaspá okkar fyrir nóvember (0,2% hækkun) liggur í ferða- og flutningalið VNV, en hann vegur alls til 0,2% lækkunar vísitölunnar nú. Annars vegar er um að ræða 12% lækkun á flugfargjöldum til útlanda (-0,17% í VNV) sem við spáum í mánuðinum, en sú spá er byggð á verðathugun okkar. Hins vegar hefur eldsneytisverð lækkað um tæpa prósentu (-0,04% í VNV) frá októbermælingu VNV. Lítilsháttar hækkun verður svo að mati okkar á öðrum undirliðum þessa flokks.

Hægari hækkun íbúðaverðs

Við teljum að húsnæðisliður VNV muni hafa áhrif til 0,05% hækkunar í nóvember. Vísbendingar eru um hægari hækkun íbúðaverðs en verið hefur undanfarna mánuði. Spáum við því að reiknuð húsaleiga hækki um 0,2% í nóvember og að greidd húsaleiga hækki um 0,4%. 

Útlit er fyrir að ávextir og grænmeti lækki nokkuð í nóvembermælingu VNV (-0,03% í VNV). Að þessum liðum slepptum teljum við að fremur tíðindalítið verði í VNV-mælingu nóvembermánaða, og munu aðrir liðir væntanlega samtals hafa áhrif til rúmlega 0,1% hækkunar VNV að þessu sinni.

Er lítil verðbólga skammgóður vermir?

Við teljum að VNV hækki um 0,2% í desember. Samkvæmt þeirri spá mun verðbólga mælast 1,1% í árslok. Yrði það hægasti 12 mánaða taktur verðbólgunnar í 15 ár og minnsta verðbólga sem mælst hefur frá upptöku verðbólgumarkmiðsins í mars 2001. Nokkrir þættir skýra þennan óvenju litla verðbólguþrýsting nú um stundir. Má þar nefna að verðlag innflutnings hefur lækkað að jafnaði undanfarið ár, bæði vegna styrkingar krónu og verðlækkunar á ýmsum hrá- og neysluvörum erlendis. Þá hefur innlendur kostnaðarþrýstingur á almennum markaði verið fremur lítill, og er það ekki síst að þakka hóflegum samningsbundnum launahækkunum í upphafi árs.

Hins vegar er útlit fyrir að verðbólgutakturinn verði öllu hraðari á nýju ári. Líklegt er að kjarasamningum verði landað á fyrstu mánuðum nýs árs með meiri prósentuhækkun launa en reyndin varð í upphafi þessa árs. Þá er að myndast spenna á hluta vinnumarkaðar, og gæti launaskrið því aukist nokkuð. Einnig eru horfur á að íbúðaverð haldi áfram að hækka að raunverði næstu árin.

Við spáum því að verðbólga verði 3,0% yfir árið 2015, og 3,1% yfir árið 2016. Helstu forsendur langtímaspár okkar eru að íbúðaverð hækki um 5% - 7% á hverju ári út spátímann, laun muni hækka allhratt á næstu misserum samhliða aukinni spennu á vinnumarkaði og að litlar breytingar verði á gengi krónu. Þó ber að halda því til haga að óvissan í spánni er fremur í þá átt að verðbólga reynist meiri en hér er spáð. Launahækkanir hérlendis gætu hæglega reynst hraðari en gert er ráð fyrir, auk þess sem við teljum meiri líkur á að krónan veikist en styrkist þegar frá líður, þótt í bili bendi flest til þess að Seðlabankinn muni áfram stuðla að stöðugleika í gengi krónunnar næsta kastið.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall