Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,5% hækkun neysluverðs í febrúar

12.02.2016

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,5% í febrúar frá janúarmánuði. Verður það minnsta hækkun VNV í febrúarmánuði síðan árið 2009, og hjaðnar verðbólga þar með úr 2,1% í 2,0%. Verðbólga verður því miðað við spána áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa batnað nokkuð frá síðustu spá okkar. Horfur eru á að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram á síðasta fjórðung yfirstandandi árs. Undir lok ársins stígur verðbólgan hins vegar yfir markmiðið, og mun verða nokkuð yfir því árin 2017 og 2018. Hagstofan birtir VNV fyrir febrúar kl. 09:00 þann 25. febrúar næstkomandi.

Útsölulok helsti hækkunarvaldur

Eins og jafnan í febrúar vega útsölulok drýgst til hækkunar VNV nú. Raunar voru útsölur í vöruflokkum á borð við húsgögn og raftæki óvenju djúpar í janúar, en við gerum þó ekki ráð fyrir að útsölulokin verði að sama skapi snörp, enda líklegt að nýjar vörur í verslunum hafi verið keyptar inn á talsvert hagstæðara gengi en útsöluvörurnar á sínum tíma. Hvað föt og skó varðar bætast við áhrif af afnámi 15% vörugjalda, sem að öðru óbreyttu ættu að lækka verulega innkaupsverð nýrra fata og skófatnaðar.

Áhrif útsöluloka eru hvað sterkust í fötum og skóm (0,18%), húsgögnum og heimilisbúnaði (0,10%) og raftækjum (0,09%). Í heild eru áhrif útsöluloka til u.þ.b. 0,4% hækkunar VNV í febrúarmánuði.

Af öðrum hækkunarþáttum vegur húsnæðisliðurinn þyngst að þessu sinni (0,10% í VNV). Þar af vegur reiknuð húsaleiga til 0,08% hækkunar, en greidd húsaleiga til 0,03% hækkunar í spá okkar. Viðhaldsþáttur húsnæðisliðarins lækkar hins vegar lítillega í febrúarmánuði.

Til lækkunar VNV í febrúarmánuði vegur einna helst u.þ.b. 2% lækkun á eldsneytisverði (-0,06% í VNV) og tæplega 0,3% lækkun á verði matar og drykkjar (-0,04% í VNV) sem skýrist fyrst og fremst af lækkun á verði ávaxta.

Óvissa er um áhrif flugfargjalda til útlanda á VNV að þessu sinni, þar sem verðmæling okkar í janúar gaf allt aðra niðurstöðu (-16%) en raunin varð í mælingu Hagstofunnar (+3%). Verðmæling fyrir febrúar gefur til kynna nokkra hækkun milli mánaða, en á móti er til þess að líta að fyrir ári síðan lækkaði verð flugfargjalda í febrúarmánuði. Við höldum því þessum lið óbreyttum í spá okkar að þessu sinni.

Hófleg verðbólga fram á haustið

Horfur eru á að hækkun VNV á fyrri helmingi ársins verði talsvert minni en við gerðum ráð fyrir í síðustu spá. Við spáum 0,5% hækkun VNV í mars, 0,2% hækkun í apríl og 0,2% hækkun í maí. Alls gerum við ráð fyrir að VNV hækki um 1,2% á fyrri árshelmingi. Verðbólga nær samkvæmt þessu lágmarki í 1,4% í maímánuði og mælist að jafnaði 1,7% á fyrstu sex mánuðum ársins.

Að vanda vega útsölulok talsvert til hækkunar í mars, en þó minna en oft áður vegna áðurnefndrar breytingar á vörugjöldum á fötum og skóm. Einnig mun húsnæðisliður hækka jafnt og þétt samkvæmt spánni, og hefur svipuð áhrif til hækkunar og verið hefur undanfarið að jafnaði. Að öðru leyti eru horfur á fremur hóflegri hækkun verðlags vöru og þjónustu næstu mánuði.

Vaxandi verðbólga þegar frá líður

Á seinni hluta ársins bætir í verðbólgutaktinn í spá okkar, og fer verðbólga yfir 2,5% markmið Seðlabankans á síðasta fjórðungi ársins. Í árslok spáum við 3,0% verðbólgu. Á næsta ári er útlit fyrir að verðbólgan verði að jafnaði 3,4% og árið 2018 gerum við ráð fyrir 3,5% meðalverðbólgu. Aukinn verðbólgu-þrýstingur skýrist af áframhaldandi hraðri hækkun á innlendum launakostnaði, viðvarandi raunhækkun á íbúðaverði og því að áhrif innfluttrar verðhjöðnunar fjara út, svo nokkuð sé nefnt.

Styrking krónu myndi halda aftur af verðbólgu

Krónan er, líkt og jafnan, einn helsti óvissuþátturinn í spá okkar, en við spáum óbreyttu gengi hennar næstu misserin. Til skamms tíma virðast þó meiri líkur á styrkingu hennar en veikingu, enda hefur innflæði gjaldeyris verið viðvarandi síðustu misserin og er nú svo komið að nægt svigrúm virðist vera til að mæta hugsanlegu útflæði vegna aflandskrónaútboðs, aukinna heimilda lífeyrissjóða til erlendrar fjárfestingar og uppgjörs slitabúa.
 
Frekari styrking krónu myndi leiða til minni verðbólgu en hér er spáð, og má sem dæmi nefna að ef krónan styrkist um 5% til áramóta gefur spálíkan okkar þá niðurstöðu að verðbólga verði 2,2% í árslok og einnig nokkru minni á næsta ári en ella. Frekari styrking krónu gæti þó reynst skammgóður vermir, þar sem frekari hækkun raungengisins grefur að okkar mati á endanum undan samkeppnishæfni þjóðarbúsins og eykur að sama skapi hættu á gengisfalli síðar meir. Einnig gæti hækkun launa reynst hraðari næsta kastið en við gerum ráð fyrir, sem vegur þá til aukinnar verðbólgu á næstu misserum.

 
Verðbólguspá fyrir febrúar
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall