Morgunkorn Íslandsbanka

Útlit fyrir hraðan einkaneysluvöxt á 1. ársfjórðungi

15.04.2014

nullFlest bendir þess að einkaneysla hafi vaxið mun hraðar á 1. fjórðungi þessa árs en raunin var undanfarin tvö ár. Horfur eru á að vöxtur einkaneyslu á yfirstandandi ári verði talsvert meiri en vöxtur síðasta árs, þótt við teljum líklegt að heldur hægi á vextinum þegar líður á árið.

Raunvöxtur í kortaveltu einstaklinga nam 6,8% í mars sl. samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Þar af jókst kortavelta innanlands að raungildi um 6,2% en kortavelta erlendis um 12,5%. Vöxturinn var á svipuðum nótum á heildina litið og var fyrstu tvo mánuði ársins.  Líkt og undanfarið er mikill munur á þróun kortaveltu Íslendinga erlendis annars vegar og brottförum þeirra um Keflavíkurflugvöll hins vegar, en brottfarirnar voru 11% færri í síðastliðnum marsmánuði en í sama mánuði í fyrra. Skýringin hér er eflaust vaxandi vinsældir erlendra netverslana hér á landi.

nullAð jafnaði óx kortavelta einstaklinga um 6,9% á 1. ársfjórðungi 2014 frá sama tíma árið áður. Þar af jókst kortavelta innanlands um 5,7% en kortavelta erlendis um 19,9%. Bendir þetta að mati okkar til þess að vöxtur einkaneyslu hafi verið umtalsverður á 1. ársfjórðungi. Við þetta má bæta að aðrar vísbendingar um neyslu heimilanna eru á sama veg. Þannig fjölgaði nýskráningum bifreiða um fjórðung á fyrstu þremur mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra, en bifreiðakaup eru stór hluti þeirrar einkaneyslu sem ekki er greidd með greiðslukortum. Einnig má nefna að Væntingavísitala Gallup (VVG) hefur hækkað talsvert undanfarið, og sömu sögu má segja af nýjustu ársfjórðungsmælingu stórkaupvísitölunnar sem birt var samhliða VVG í marsmánuði.

Sígandi lukka er best í einkaneyslu

nullVið teljum að einkaneysluvöxturinn á 1. ársfjórðungi gæti reynst 5-6% frá sama tíma í fyrra. Ef sú verður raunin verður það hraðasti vöxtur einkaneyslu a.m.k. frá 2. ársfjórðungi 2011, ef ekki lengur. Hér verður raunar að taka inn í reikninginn að einkaneysla var með rýrara móti á 1. ársfjórðungi 2013, og mældist ársvöxtur hennar þá aðeins 0,6%. Það má hins vegar spyrja hvort innistæða er fyrir svo hröðum vexti einkaneyslunnar um þessar mundir. Vissulega leggst ýmislegt á sveif með heimilunum þessa dagana. Verðbólga er með minnsta móti, kaupmáttur launa óx um u.þ.b. 3,0% á fyrstu tveimur mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra og atvinnuleysi hefur reynst nokkru minna í vetur en í fyrravetur. Þá hefur tekjuskattur í miðþrepi lækkað, sem eykur ráðstöfunartekjur eftir skatta meira en sem nemur breytingu kaupmáttar launa. Síðast en ekki síst hækkaði verð hlutabréfa og fasteigna allhratt á síðasta ári, og hreinn auður heimila jókst að sama skapi.

Þá renna margir hýru auga til skuldalækkunar ríkisstjórnarinnar varðandi auknar ráðstöfunartekjur. Við teljum þó að áhrif þeirra aðgerða á ráðstöfunartekjur heimila kunni að verða minni á yfirstandandi ári en ýmsir, þar á meðal Seðlabankinn, hafa talið. Kemur þar þrennt til. Í fyrsta lagi verður skuldalækkunin sjálf seinna á ferðinni en áður var boðað, og gætir áhrifa hennar því ekki á greiðslubyrði lána fyrr en á síðasta fjórðungi ársins. Í öðru lagi virðist sem frádráttur vegna fyrri aðgerða muni vega þyngra en áður var talið, a.m.k. ef marka má þau dæmi sem kynnt voru á vef fjármálaráðuneytis nýverið. Í þriðja lagi er stór hluti verðtryggðra lána í greiðslujöfnun, og mun skuldalækkunin væntanlega fyrst renna til þess að greiða upp jöfnunarreikning slíkra lána áður en hún kemur fram í lækkun greiðslubyrði á viðkomandi láni.

Að öllu samanlögðu teljum við líklegt að heldur muni draga úr vexti einkaneyslu á komandi ársfjórðungum. Horfur eru þó á að vöxturinn reynist talsvert meiri en í fyrra, þegar hann mældist 1,2% samkvæmt tölum Hagstofunnar. Einkaneysluvöxtur mun því vega talsvert þyngra í hagvexti þetta árið en árið 2013, þegar utanríkisviðskipti, ekki síst gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustunnar, drógu hagvaxtarvagninn að langmestu leyti. Sígandi lukka er raunar best hvað varðar vöxt einkaneyslu, enda ætti flestum að vera í fersku minni hversu skammgóður vermir það er þegar einkaneysla vex langt umfram kaupmátt ráðstöfunartekna og framleiðslugetu hagkerfisins, líkt og var síðustu árin fyrir hrun.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall