Morgunkorn Íslandsbanka

Þjónustujöfnuður: Meiri afgangur en nokkru sinni fyrr

29.11.2013

nullÁ þriðja ársfjórðungi í ár skiluðu þjónustuviðskipti við útlönd meiri afgangi en þau hafa nokkru sinni áður gert á einum ársfjórðungi. Alls námu tekjur af þjónustuútflutningi 141,3 mö.kr. á fjórðungnum en gjöld vegna þjónustuinnflutnings voru 95,2 mö.kr. samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Hljóðar afgangurinn því upp á 46,0 ma.kr., sem er 11 mö.kr. meiri afgangur en á sama tíma í fyrra. Augljóslega munar enn meiru sé litið lengra aftur í tímann, en þjónustujöfnuður hefur þó nánast ávallt komið út í afgangi á þriðja ársfjórðungi undanfarna áratugi, að árunum 2005-2007 undanskildum þegar Íslendingar ferðuðust erlendis eins og enginn væri morgundagurinn. Er afgangur af þjónustujöfnuði á fyrstu þremur fjórðungum ársins kominn upp í 65,2 ma.kr. samanborið við 37,1 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Jafngildir þetta aukningu upp á 76% á milli ára.

Gjöfult ferðamannasumar

nullTölur Hagstofunnar sýna að ferðamannasumarið 2013 var það gjöfulasta frá upphafi. Það ætti að koma fáum á óvart miðað við það mikla ferðamannainnflæði sem verið hefur. Sé tekið mið af tölum Ferðamálastofu Íslands fóru um 329 þúsund erlendir gestir frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar á þriðja ársfjórðungi, sem er aukning upp á rúm 12% frá sama tímabili í fyrra. Á sama tímabili fækkaði brottförum Íslendinga um tæp 5% á milli ára, en alls héldu rúmlega 106 þúsund Íslendingar af landi brott á þriðja fjórðungi nú í ár.

Á þriðja ársfjórðungi hljóðar afgangur af þjónustujöfnuði vegna ferðalaga upp á 25,3 mö.kr., og af samgöngum er afgangurinn 32,8 ma.kr. Samanlagt er hér um að ræða afgang upp á 58,1 ma.kr. á fjórðungnum, en á sama tímabili í fyrra var hann 48,9 ma.kr. Þýðir þetta m.ö.o. að túrisminn og aðrir flutningar hafa skilað 9,2 mö.kr. meira í kassann en á sama tímabili í fyrra. Þriðji undirliðurinn, „önnur þjónusta“, sem þjónustuviðskipti við útlönd skiptast niður í var neikvæður um 12,1 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi, sem er 1,8 ma.kr. minni halli en var á sama tímabili í fyrri. Þessi liður er nánast alltaf í halla, en segja má að sá liður endurspegli að töluverðum hluta kostnaðinn við að afla þjónustutekna, t.d. leigu á flugvélum og skipum. Annars innifelur liðurinn allt frá fjármálaþjónustu til höfundarréttargjalda.

Mesti afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum frá upphafi

nullNú liggja fyrir tölur um tvo af þremur helstu undirliðum viðskiptajafnaðar á þriðja fjórðungi ársins. Afgangur af vöruskiptum er um 21,0 ma.kr. á tímabilinu og afgangur af þjónustujöfnuði 46,0 ma.kr. eins og á undan er getið. Samanlagt gerir þetta 67,0 ma.kr. afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum á þriðja ársfjórðungi samanborið við 58,0 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Er hér um að ræða mesta afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd á fjórðungnum frá upphafi. Þessi mikli afgangur hefur að mati okkar átt sinn þátt í að styðja við gengi krónu á haustdögum eins og fjallað er um í Morgunkorninu í dag.

Á fyrstu þremur fjórðungum ársins var samtals 109,9 ma.kr. afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd samanborið við afgang upp á 86,0 ma.kr. í fyrra. Afgangurinn er þó aðeins minni en hann var á árunum 2009-2011 vegna óhagstæðari þróunar á vöruskiptum við útlönd. Seðlabankinn birtir svo tölur um greiðslujöfnuð við útlönd á þriðja ársfjórðungi næstkomandi mánudag kl. 16:00 og verður fróðlegt að sjá hvernig þáttatekjujöfnuður, og þar með niðurstaða viðskiptajafnaðar, hefur þróast á ársfjórðungnum.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall