Morgunkorn Íslandsbanka

Minnsta verðbólga í sextán ár

26.11.2014

Verðbólga mælist nú 1,0% hér á landi og hefur hún ekki verið minni frá síðasta fjórðungi ársins 1998. Að húsnæðislið undanskildum hefur verðlag raunar lækkað um 0,3% undanfarna 12 mánuði, sem er mesta lækkun vísitölunnar á þann kvarða allt frá því í október árið 1967. Frá þeim tíma hefur 12 mánaða taktur VNV án húsnæðis aðeins tvisvar sinnum áður mælst með neikvæðum formerkjum, en það hefur aðeins einu sinni atvikast í tilviki VNV að húsnæði meðtöldu. Ástæða þessa er fyrst og fremst innflutt verðhjöðnun vegna styrkingar krónu, verðlækkunar á eldsneyti og öðrum hrávörum á heimsmarkaði og verðstöðnunar á innfluttum smásöluvarningi. Verðbólguhorfur til skamms tíma eru góðar og raunar gæti verðbólga farið undir neðri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í desember.

Óvænt 0,5% lækkun neysluverðs í nóvember

Samkvæmt nýbirtri nóvembermælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs (VNV) lækkaði neysluverð um 0,5% frá mánuðinum á undan. Verðbólga mælist nú 1,0% eins og áður segir, en var 1,9% í október. Mælingin er langt undir opinberum spám, sem lágu á bilinu frá óbreyttri VNV til 0,2% lækkunar milli mánaða. Þar spáðum við 0,1% lækkun. Munurinn liggur að mestu í óvæntri lækkun íbúðaverðs og meiri verðlækkun á ýmsum innfluttum vörum en við bjuggumst við.

Líkt og við bjuggumst við lækkuðu flugfargjöld til útlanda verulega, eða um ríflega 17% (-0,25% áhrif í VNV). Lækkunin var þó meiri en við áttum von á. Þá lækkaði eldsneytisliður VNV um 2,6% (-0,1% í VNV) sem var í takti við væntingar. Einnig lækkaði verð á mat og drykkjarvörum um 0,5% (-0,04% í VNV). Náði lækkunin bæði til innfluttra matvæla á borð við ávexti og grænmeti sem og innlendra á borð við kjöt og mjólkurvörur. Auk þess lækkaði verð á stórum heimilistækjum um nærri 3,2% og verð á sjónvörpum, tölvum og hljómtækjum um 3,6%. Samanlagt vógu þessir liðir til -0,09% lækkunar VNV, og er þar um að ræða eins konar fyrirfram áhrif vegna yfirvofandi afléttingar vörugjalda á stærri heimilistæki. 

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæði lækkar 

Reiknuð húsaleiga, sem byggir að mestu á verðþróun íbúðarhúsnæðis, lækkaði um 0,3% (-0,04% í VNV) í nóvember. Kom það nokkuð á óvart, en við höfðum spáð lítilsháttar hækkun á þessum lið. Lækkunin er komin til vegna verðlækkunar á bæði íbúðum í fjölbýli og sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu, en fasteignaverð á landsbyggðinni hækkaði á móti. Með mælingunni nú dregur nokkuð úr 12 mánaða hækkunartakti íbúðaverðs í VNV, og fer hann úr 9,3% í október niður í 7,4% nú. Við teljum hins vegar líklegt að íbúðaverð taki við sér á nýjan leik á komandi mánuðum, en húsnæðisliður VNV hefur verið helsti drifkraftur verðbólgu undanfarið.

Af hækkunarliðum ber helst að nefna föt og skó, sem hækkuðu í verði um 1,1% í nóvember (0,05% í VNV). Er það ívið meiri hækkun en við höfðum reiknað með, en þrátt fyrir þá hækkun hafa föt og skór lækkað í verði um 1,1% undanfarna 12 mánuði. Aðrir liðir höfðu mun minni áhrif í vísitölunni.

Verðbólga undir þolmörk?

Horfur eru á lítilli verðbólgu næsta kastið, og gæti verðbólgan raunar farið niður fyrir 1,0% neðri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í næsta mánuði. Seðlabankinn þyrfti þá í fyrsta skipti frá upptöku verðbólgumarkmiðs að birta greinargerð þar sem útskýrðar eru ástæður fyrir verðbólgu undir markmiði og lýst leiðum til úrbóta. Við teljum raunar líklegt að flugfargjöld hækki talsvert í desember eftir mikla lækkun frá miðju ári, en á móti gæti eldsneytisverð lækkað nokkuð. Gerir bráðabirgðaspá okkar ráð fyrir 0,2% hækkun VNV í desember, og miðað við þá spá mun verðbólga mælast 0,7% í árslok. 

Þá er útlit fyrir að neðra þrep virðisaukaskatts muni hækka minna um áramót en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í september. Hækki neðra þrep VSK í 11% í stað 12%, eins og nú lítur út fyrir, verða áhrifin til um 0,2% lækkunar á VNV frá fyrra mati okkar á áhrifum skattbreytinga um áramót. VNV lækkar samkvæmt því um 0,4% í janúar, en hækkar að nýju um 0,7% í febrúar m.v. uppfærða bráðabirgðaspá. Verðbólga verður þar með 1,0% báða mánuðina.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall