Morgunkorn Íslandsbanka

Lífeyrissjóðirnir auka við sig í skráðum hlutabréfum

27.11.2014

Lífeyrissjóðirnir eiga nú beint og óbeint í það minnsta 38% útgefins hlutafjár í innlendu hlutafélögunum sem skráð eru á Aðallista Kauphallarinnar. Er um að ræða nokkra aukningu frá  ársbyrjun þegar þeir áttu samtals tæplega 37% af heildar markaðsvirði þessara félaga. 

Heildar eignarhald lífeyrissjóðanna er metið með því að leggja við beint eignarhald þeirra þá eign sem þeir áttu í félögunum í gegnum FSÍ og í gegnum hlutabréfasjóði. Heildar eign þeirra er þó eitthvað meiri enda byggir matið á lista yfir 20 stærstu hluthafa félaganna en sá hópur er misstór eigandi í hverju félagi. Eignarhald er best þekkt í Össuri þar sem 20 stærstu hluthafar eiga 94,7% félagsins en minnst er það þekkt í VÍS þar sem stærstu hluthafar eiga um 67,6% félagsins. Þá er rétt að taka fram að HB Grandi er inni í útreikningum okkar allt tímabilið þrátt fyrir að félagið hafi verið skráð á First North þar til í apríl á þessu ári. 

Metið með þessum hætti er markaðsvirði eignarhalds lífeyrissjóðanna í skráðum innlendum félögum um 215 ma.kr. Seðlabankinn birtir mánaðarlega efnahagsyfirlit lífeyrissjóðanna og var heildar eign þeirra í hlutafélögum í september síðastliðnum 330 ma.kr. Óskráð hlutabréf eru hins vegar ekki sérgreind í samantekt Seðlabankans.

Eiga hlutfallslega mest í Icelandair

Lífeyrissjóðirnir eiga meira en helming hlutfjár í Icelandair, Högum og N1. Hlutfallslega er eign lífeyrissjóðanna stærst í Icelandair sé eignarhluti þeirra metinn á grundvelli beins og óbeins eignarhalds. Sé aðeins litið til beins eignarhalds eiga lífeyrissjóðirnir meira í N1. Raunar fór heildar eignarhald þeirra í N1 hæst í 63% í lok maí á þessu ári en það minnkaði síðan aftur í kjölfar sölu FSÍ á hlut sínum í félaginu. Minnst eiga lífeyrissjóðirnir hlutfallslega í Össuri, HB Granda og Marel. 

Ef litið er til þróunar eignarhalds lífeyrissjóðanna frá ársbyrjun þá hafa þeir mest aukið við sig í VÍS eða um 18% en lífeyrissjóðirnir keyptu töluvert af þeim eignarhluta sem Klakki bauð til sölu á árinu. Lífeyrissjóðirnir hafa einnig aukið töluvert við sig í HB Granda frá skráningu. Eignarhluti þeirra var í kjölfar skráningar rúm 17% en hefur aukist um 10% síðan þá. Hreyfingar í öðrum félögum eru minni en erfitt er að túlka þær þar sem minni sjóðir detta gjarnan inn og út af listum yfir stærstu hluthafa. 

Eiga líka stærstan hlut að markaðsvirði í Icelandair

Sé heildar markaðsvirði lífeyrissjóðanna í hverju félagi tekið saman kemur í ljós að mest eiga sjóðirnir að markaðsvirði í Icelandair en þar liggur um 22% af heildar markaðsvirði skráðrar innlendrar hlutabréfaeignar þeirra. Lífeyrissjóðirnir eiga meira en 10% af heildar markaðsvirði sínu í þremur öðrum félögum, Össuri, Högum og Marel. Sé litið á tryggingarfélögin sem eina heild eiga lífeyrissjóðirnir 10,9% þar. 

En eru lífeyrissjóðirnir of stórir í einstökum félögum?

Það hefur stundum verið rætt um það hvort íslensku lífeyrissjóðirnir séu of stórir fyrir íslenskan hlutabréfamarkað. Í þessu tilliti er þó vert að hafa í huga að sjóðirnir sjálfir eru margir og spurningin hlýtur því frekar að snúast um hvort sú tegund eigenda sem lífeyrissjóðirnir eru séu of stór fyrir íslenska markaðinn. Svo framarlega sem lífeyrissjóðirnir beita sér í krafti eignarhalds síns en eru ekki viljalaust verkfæri annarra eigenda getur eignarhald lífeyrissjóðanna varla talist slæmt enda eru þeir í flestum tilfellum lengri tíma eigendur og mynda þar með ákveðinn stöðugleika í eigendahóp félags. Það var reyndar viðloðandi umræðuna á síðasta ári að lífeyrissjóðirnir væru svo stórir að þeir hlytu að valda þrýstingi á verð á eignamörkuðum. Við sjáum ekki merki um það. Hins vegar verður að hafa í huga að orðrómur um eftirspurnarþrýsting getur haft sömu áhrif á markaði og eiginleg eftirspurn.

Hvað ef höft losna ekki?

Á hverju ári þurfa lífeyrissjóðirnir að fjárfesta verulegum fjárhæðum á eignamörkuðum en á móti þeirri eftirspurn stendur þó allajafnan töluvert framboð. Sé framboð ekki nægjanlegt hefur það fjármagn sem út af stendur tilhneigingu til að leita í þær fjárfestingar sem fyrir eru með tilheyrandi óeðlilegri hækkun eignaverðs. Þetta gæti orðið raunin á íslenskum eignamarkaði verði ekki höft losuð í bráð. 

Við teljum enga ástæðu fyrir lífeyrissjóðina að sitja eftir með sínar fjárfestingar innanlands þegar kemur að losun hafta enda æskilegt og eðlilegt að þeir hafi kost á að koma fjármunum almennings í hagstæðustu ávöxtun sem í boði er hverju sinni að teknu tilliti til áhættu. Vaxtamunur nú er með þeim hætti að ólíklegt verður að teljast að lífeyrissjóðir færi fjárfestingar sínar úr landi með miklum hraða yrðu höft losuð í bráð. Þá höfum við oftar en einu sinni bent á það að erlend eign lífeyrissjóðanna er ekki svo langt frá sögulegu meðaltali. Það sem vantar raunar er einna helst fjölbreyttara innlent framboð fjárfestingarkosta og ekki síst á íslenskum hlutabréfamarkaði. Raunar hafa forvígismenn lífeyrissjóða bent á að lífeyrissjóðirnir eigi engan eða óverulegan hlut í mörgum af stærstu atvinnugreinum landsins. Má þar telja sjávarútveg, ferðaþjónustu, bankana, stóriðjufélög, orkufyrirtæki, byggingariðnað o.s.frv. Líklegt má telja að félög í einhverjum þeirra greina er hér hafa verið talin upp muni taka á móti eftirspurn lífeyrissjóðanna á næstu árum. Til dæmis er líklegt að í það  minnsta einhverjir bankanna verði skráðir á innlendan hlutabréfamarkað. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall