Morgunkorn Íslandsbanka

Mikill vöxtur í kortatölum

15.04.2015

Útlit er fyrir að vöxtur einkaneyslu á fyrsta ársfjórðungi muni reynast nokkuð myndarlegur, þá einna helst vegna hraðari vaxtar einkaneyslu innanlands en verið hefur undanfarið. Nýbirtar kortaveltutölur Seðlabankans gefa sterka vísbendingu um þetta, en samkvæmt þeim nam raunvöxtur kortaveltu einstaklinga á milli ára alls 9,4% í mars sl. (m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis). 

Að vanda var vöxtur mikill í kortaveltu á erlendri grundu, en hann nam 17,2% að raunvirði milli ára. Á hinn bóginn var mun meiri vöxtur í kortaveltu einstaklinga innanlands í mars sl. en verið hefur að jafnaði á síðustu árum, eða sem nemur um 8,4% að raunvirði. 

Seðlabankinn breytir um aðferð

Þess má geta að Seðlabankinn hefur breytt um aðferðafræði við úrvinnslu kortatalnanna. Tölfræði greiðslukorta miðast nú við almanaksmánuð í stað innheimtutímabil eins og áður var. Þessi breyting nær aftur til ársbyrjunar2013 og hefur talsverð áhrif á einstaka mánuði innbyrðis,  þótt samtölur fyrir lengri tímabil breytist lítið. Er hér nærtækt að nefna að í fyrra jókst kortavelta einstaklinga alls um 4,8% að raunvirði samkvæmt eldri aðferð en miðað við þá nýju um 5,0%. 

Útlit fyrir myndarlegan vöxt einkaneyslu 

Sé tekið mið af 1. ársfjórðungi nam raunvöxtur kortaveltu einstaklinga frá sama tíma ári áður 5,4%, þar af 4,1% innanlands en 16,3% erlendis. Er það aðeins hraðari vöxtur en mældist að jafnaði á síðasta ári (5,0%). Skýringin liggur í hraðari vexti í kortaveltu innanlands (4,1% á móti 3,4%), en vöxtur í veltu erlendis er aðeins hægari það sem af er ári en hann var að jafnaði í fyrra (16,3% á móti 18,3%). 

Sjaldan verið meiri vöxtur í kortaveltu útlendinga

Líkt og við mátti búast var mikill vöxtur í kortaveltu útlendinga hér á landi í mars, eða um tæp 43% í krónum talið frá sama tíma í fyrra. Er það talsvert umfram þá fjölgun sem varð á brottförum útlendinga í mánuðinum samkvæmt tölum Ferðamálastofu Íslands, en þeim fjölgaði um 27% milli ára. 

Verulegt innflæði gjaldeyris í upphafi árs 

Alls nam kortavelta útlendinga hér á landi 9,8 mö. kr. í mars en Íslendinga í útlöndum (vegna ferðalaga og netviðskipta) 7,8 mö. kr. Var kortaveltujöfnuður (kortavelta útlendinga hérlendis umfram kortaveltu Íslendinga í útlöndum) þar með jákvæður um tæpa 2,0 ma. kr. í mánuðinum samanborið við 0,3 ma. kr. ári áður. 

Á 1. ársfjórðungi í heild var kortaveltujöfnuður jákvæður um sem nemur 4,2 mö. kr., og hefur hann aldrei áður verið eins hagstæður á því tímabili. Á sama tímabili í fyrra náði kortaveltujöfnuður rétt yfir núllið (0,1 ma. kr.) og árið þar á undan  var hann neikvæður um 1,9 ma. kr. Má því búast við að þjónustujöfnuður vegna ferðalaga á 1. ársfjórðungi komi til með að verða sá hagstæðasti frá upphafi, en hann mældist, líkt á kortaveltujöfnuður, í fyrsta sinn jákvæður í fyrra á þessum árstíma. 

Þessi þróun á eflaust sinn þátt í stöðugu innflæði gjaldeyris meira og minna allan undanfarinn vetur. Má þar nefna að á 1. ársfjórðungi keypti Seðlabankinn gjaldeyri sem nemur 225 m. evra (jafnvirði tæplega 34 ma.kr.) á millibankamarkaði og jók því gjaldeyrisforða sinn sem því nemur. Á sama tíma var gengi krónu hins vegar stöðugt gagnvart körfu helstu viðskiptamynta og endurspegla kaup Seðlabankans því að verulegu leyti það nettó gjaldeyrisinnflæði sem var á innlendum gjaldeyrismarkaði á tímabilinu.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall