Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 3. október

01.10.2018

Við spáum óbreyttum stýrivöxtum við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans, sem kynnt verður þann 3. október næstkomandi. Meginvextir bankans verða samkvæmt því áfram 4,25%. Gangi spáin eftir verður þetta áttunda vaxtaákvörðunin í röð þar sem vöxtum er haldið óbreyttum. 

Peningastefnunefndin mun nú standa frammi fyrir talsvert erfiðara mati á réttu aðhaldsstigi en verið hefur undanfarin misseri. Annars vegar hafa skammtíma verðbólguhorfur versnað í kjölfar veikingar krónu á sama tíma og þjóðhagsreikningar fyrir fyrri árshelming sýndu myndarlegan hagvöxt og talsverða aukningu innlendrar eftirspurnar. Á hinn bóginn virðist nú vera að hægja nokkuð skarpt á vexti helstu vaxtarbrodda í hagkerfinu og vaxtarhorfur fyrir komandi fjórðunga eru að dökkna.

Framsýna leiðsögnin mun væntanlega verða fremur til hækkunar vaxta, líkt og raunin var í ágúst. Raunstýrivextir hafa lækkað undanfarið en vaxtamunur við útlönd er þó enn talsverður. Það veltur svo að okkar mati fyrst og fremst á því hvort langtíma verðbólguvæntingar hækka umtalsvert yfir 2,5% markmið Seðlabankans hvort brugðist verður við með hækkun stýrivaxta, eða hvort minnkandi peningalegu aðhaldi verður leyft að vega gegn minni spennu í hagkerfinu á komandi fjórðungum.

Myndarlegur hagvöxtur á fyrri árshelmingi..

.Hagvöxtur hefur undanfarið verið kröftugri en útlit var fyrir. Vöxturinn á fyrri árshelmingi mældist 6,4% samanborið við 4,0% hagvöxt á síðasta ári. Sér í lagi hefur framlag utanríkisviðskipta til vaxtar þróast á hagfelldan hátt það sem af er ári, en á móti hefur hægt á vexti einkaneyslu. Mikil aukning í byggingu íbúðarhúsnæðis vegur þungt í vexti fjárfestingar á fyrri helmingi ársins. Samsetning vaxtarins var tiltölulega jákvæð á fyrri hluta ársins og ber þess vitni að hagkerfið leiti nú í betra jafnvægi en verið hefur.

Einkaneysluvöxtur er að róast, jafnvægi utanríkisviðskipta er meira en ætla mætti miðað við hátt raungengi og það hversu uppsveiflan hefur staðið lengi. Þá veit myndarlegur vöxtur íbúðafjárfestingar á gott varðandi húsnæðismarkað á komandi fjórðungum. Loks má nefna að hóflegur vöxtur atvinnuvegafjárfestingar ætti að vera til marks um að hætta á offjárfestingu í vaxtargreinum á borð við ferðaþjónustu sé minni en ella. Samsetning vaxtarins ætti því að draga úr þeim áhrifum sem hagvöxtur umfram væntingar hefði alla jafna á mat á þörf fyrir peningalegt aðhald. 

..en væntingar lækka og vaxtarhorfur dempast

Þótt vöxtur hafi verið myndarlegur á fyrri árshelmingi bendir margt til þess að talsvert hægari vöxtur fari í hönd. Mælingar á væntingum fyrirtækja og heimila hafa lækkað talsvert undanfarið og benda svör í nýbirtri könnun Gallup fyrir SA meðal stjórnenda fyrirtækja til þess að fyrirtækin hyggi á færri mannaráðningar og minni fjárfestingu en undanfarið. Nýlegar tölur um m.a. kortaveltu og nýskráningar bifreiða bera þess vott að farið sé að hægja talsvert á vexti einkaneyslu. Þá hefur hægt umtalsvert á vexti ferðaþjónustu það sem af er ári. Nánar má lesa um sýn okkar á hagkerfið í næstu framtíð í nýútkominni þjóðhagsspá, en í sem skemmstu máli gæti dregið öllu hraðar úr spennu í hagkerfinu en Seðlabankinn spáði í ágúst síðastliðnum.

Standa verðbólguvæntingarnar af sér veikingu krónunnar?

Gengisveiking krónu um u.þ.b. 5% í september hefur leitt af sér nokkru dekkri skammtíma verðbólguhorfur en áður, að því gefnu að veikingin gangi ekki til baka. Í nýrri  þjóðhagsspá okkar kemur fram að útlit er fyrir að verðbólga verði að jafnaði 3,5% á næsta ári en hjaðni í kjölfarið í átt að verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Forsvarsmenn bankans og aðrir meðlimir peningastefnunefndar hafa ítrekað að tímabundinn verðbólgukúfur vegna gengisbreytinga krónu ætti ekki að hafa áhrif á mat á peningalegu aðhaldi nema því aðeins að kjölfesta langtíma verðbólguvæntinga losni og þær ýtist umtalsvert upp frá verðbólgumarkmiðinu.

Eina nýja könnunin á verðbólguvæntingum sem birt hefur verið frá vaxtaákvörðuninni í ágúst sl. er framangreind könnun meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja. Væntingar þeirra til 1 árs eru óbreyttar frá síðustu könnun í 3,0%, en hins vegar vænta þeir einnig að jafnaði 3,0% verðbólgu eftir 5 ár.

Verðbólguálag á markaði hefur hækkað umtalsvert það sem af er ári. Miðað við ferla ríkisskuldabréfa mælist 5 ára verðbólguálag nú tæplega 4%, en var . Við teljum hins vegar að talsverður hluti álagsins endurspegli annars vegar óvissu um skammtíma verðbólguhorfur og hins vegar tiltekna skekkju milli framboðs og eftirspurnar verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisbréfa. Sé þetta raunin má færa rök fyrir því að hækkun óverðtryggðra langtímavaxta á markaði feli í sér hærra aðhaldsstig hvað þennan hluta vaxtamarkaðar varðar. Ætti þar með síður að vera þörf á hærri skammtímavöxtum til að hafa áhrif á langtíma vaxtastig en ella um þessar mundir.

Verðbólga i september var lítillega minni en almennt var spáð. Mældist verðbólgan 2,7% og er því sem fyrr við verðbólgumarkmiðið. 

Okkar mat er að peningastefnunefndin muni bíða fleiri mælinga um verðbólguvæntingar áður en hún leggur mat á það hvort trúverðugleiki peningastefnunnar hafi dalað undanfarið. Það mat mun svo ráða miklu um hvaða stefnu nefndin tekur varðandi stýrivexti á næstu fjórðungum.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall