Morgunkorn Íslandsbanka

Aukin netverslun drifkraftur einkaneyslu?

16.12.2013

nullNýjustu tölur yfir greiðslukortaveltu benda til þess að þó nokkur vöxtur hafi verið í einkaneyslu í nóvember síðastliðnum frá fyrra ári. Líkt og að undanförnu var sá vöxtur að miklu leyti drifinn áfram af aukinni veltu innlendra korta erlendis. Þá má lesa út úr tölunum að mikil aukning var á notkun erlendra korta hérlendis í nóvember á milli ára, sem rímar vel við tölur Ferðamálastofu um þá miklu fjölgun sem var á erlendum ferðamönnum hér á landi í mánuðinum.

Samkvæmt tölum Seðlabankans, sem birtar voru síðastliðinn föstudag, jókst kortavelta Íslendinga innanlands að raungildi um 0,9% í nóvembermánuði frá sama mánuði í fyrra, en kortavelta þeirra erlendis jókst hins vegar um 15,6% á sama mælikvarða. Síðarnefndi vöxturinn er talsvert hraðari en sá 10% vöxtur sem átti sér stað á brottförum Íslendinga um Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) á sama tíma, en það kemur ekki á óvart enda hefur talsvert ósamræmi verið í þessum tölum á árinu. Samanlagt jókst kortavelta einstaklinga um 2,5% að raunvirði á milli ára í nóvember.

Kortin straujuð í Kínabúðum

nullVöxturinn í kortaveltu einstaklinga í nóvember er svipaður og sá 2,3% raunvöxtur kortaveltu sem var í október, en talsvert hraðari en sá 1,2% vöxtur sem hefur að jafnaði verið á árinu. Vöxturinn á árinu er að miklu leyti drifinn áfram af aukinni veltu innlendra korta erlendis en lítil aukning er á veltu innlendra korta hérlendis. Þannig hefur kortavelta Íslendinga á erlendri grundu aukist um 6,2% það sem af er ári en kortavelta Íslendinga innlanlands hefur aðeins vaxið um 0,7% á sama tíma. Þessi aukning á kortaveltu Íslendinga erlendis er athyglisverð, sér í lagi í ljósi þess að utanferðum Íslendinga hefur aðeins fjölgað um 1,1% á milli ára á sama tímabili. Við teljum afar líklegt að þessi mikli munur sé tilkominn vegna þess að Íslendingar eru í mjög auknum mæli að versla við erlendar netverslanir, á borð við kínversku síðuna Aliexpress.

Í nýlegri umfjöllun Fréttablaðsins um aukna póstverslun frá Kína kom til að mynda fram að póstsendingum þaðan til Íslands fjölgaði fimmfalt á fyrstu tíu mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra, og raunar virðist hafa hert á þessari aukningu eftir því sem liðið hefur á árið. Kom fram í skrifum Fréttablaðsins að sendingar frá framangreindri póstverslun hefðu verið nær fimmtugfalt fleiri á þriðja ársfjórðungi í ár en þær voru á sama tíma í fyrra.

Þrátt fyrir að ofangreind þróun leiði til þess að einkaneysla vaxi meira en ella, þá er hún ekki til þess fallin að ýta undir meiri vöxt vergrar landsframleiðslu. Ef sú er raunin að vöxtur einkaneyslu eigi sér að miklu leyti stað utan landsteinanna gætu framangreindar tölur bent til eitthvað hægari hagvaxtar en ella. Ástæðan er sú að erlend neysla, þá hvort sem það sé eyðsla Íslendinga sem halda erlendis eða þeirra sem láta sér það nægja að vera heima og versla á netinu, kemur að fullu til frádráttar í innflutningsliðum þjóðhagsreikninga en innlend neysla aðeins að hluta.

Hægur vöxtur einkaneyslu

Kortavelta endurspeglar u.þ.b. tvo þriðju hluta einkaneyslu landsmanna, en hún til að mynda nær ekki yfir útgjöld vegna húsnæðis- eða bílakaupa. Að undanförnu hefur vöxtur einkaneyslunnar verið heldur meiri en kortaveltunnar, en þó minnkaði þessi munur með endurskoðuðum tölum Hagstofunnar fyrir fyrri helming ársins þar sem einkaneyslan var tekin talsvert niður frá fyrri tölum. Sé litið á fyrstu níu mánuði ársins hefur kortaveltan vaxið um 1,0% að raunvirði á milli ára á sama tíma og einkaneysla hefur vaxið um 1,3%. Af þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru af fjórða ársfjórðungi hefur kortaveltan aukist að raungildi um 2,4%, en við teljum að vöxtur einkaneyslunnar verði líklega nokkru hægari vegna þess samdráttar sem hefur átt sér stað á bílasölu á sama tíma.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall