Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,2% lækkun neysluverðs í nóvember

15.11.2016

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,2% í nóvember frá fyrri mánuði. Þar með eykst 12 mánaða verðbólgutakturinn úr 1,8% í 1,9%, gangi spá okkar eftir. 

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa lítið breyst frá síðustu spá okkar. Til skemmri tíma eigum við þó von á minni verðbólgu, en á móti eykst verðbólgan heldur hraðar þegar frá líður en í síðustu spá okkar. Eftir sem áður er útlit fyrir að verðbólga haldist undir 2,5% markmiði Seðlabankans út árið 2017. Í kjölfarið mun verðbólga hins vegar aukast allhratt og vera í grennd við 4,0% efri þolmörk verðbólgumarkmiðs bankans á seinni hluta ársins 2018. Hagstofan birtir mælingu VNV kl. 09:00 þann 25. nóvember næstkomandi.

Húsnæðisliðurinn vegur þyngst til hækkunar

Líkt og undanfarið vegur reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar fyrst og fremst þróun íbúðaverðs, hvað þyngst til hækkunar VNV í nóvember að okkar mati. Könnun okkar bendir til þess að sá liður muni hækka um u.þ.b. 1,0% í nóvember (0,16% hækkunaráhrif í VNV), en í heild gerum við ráð fyrir því að húsnæðisliðurinn vegi til 1,17% hækkunar VNV. Húsnæðisliðurinn er einn helsti drifkraftur verðbólgunnar þessa dagana, og raunar mældist 0,5% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði í október sl. miðað við VNV án húsnæðis. Liðurinn er jafnframt sá eini sem hefur umtalsverð áhrif til hækkunar VNV að þessu sinni, þótt samanlögð hækkunaráhrif fleiri liða séu nokkur.

Matvara, fatnaður, flugfargjöld og heimilisbúnaður til lækkunar

Á móti hækkun húsnæðisliðar vegur lækkun ýmissa undirliða VNV þar sem styrking krónu er stór áhrifaþáttur, enda hefur krónan styrkst um ríflega 12% gagnvart körfu helstu viðskiptamynta frá miðju ári. Auk þess vega árstíðabundin áhrif nokkuð til lækkunar nú. Bæði þessi áhrif koma fram í lækkun flugfargjalda, sem vegur einna þyngst (-0,13% í VNV) til lækkunar VNV að þessu sinni.

Styrking krónu er einnig helsta skýring á þeirri verðlækkun á mat og drykk (-0,05% í VNV), fötum og skóm (-0,04% í VNV), og húsgögnum og heimilisbúnaði (-0,03% í VNV) sem við spáum nú í nóvember. Þá gerum við ráð fyrir áframhaldandi lækkun á símaþjónustu (-0,02% í VNV) enda hörð samkeppni á þeim markaði. Áhrif annarra liða eru minni, en vega samanlagt til u.þ.b. 0,05% lækkunar VNV í nóvembermánuði.

Verðbólga svipuð næstu mánuði

Horfur eru á að verðbólgutakturinn verði svipaður næstu mánuði og verið hefur undanfarið. Við spáum 0,3% hækkun VNV í desember, 0,6% lækkun í janúar og 0,5% hækkun í febrúar. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,9% í árslok og 1,7% í febrúar næstkomandi. 

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,13% í mánuði hverjum. Flugfargjöld hafa talsverð hækkunaráhrif í desember og er þar um árstíðabundna hækkun að ræða. Í janúar nk. koma svo útsöluáhrif inn af krafti, en auk þess hefur fyrirhugað afnám tolla á ýmsar innfluttar vöru lækkunaráhrif sem og væntanleg lækkun veitugjalda fyrir rafmagnsflutninga og kalt vatn hjá OR. Þá teljum við að matvara muni lækka nokkuð í verði í upphafi næsta árs líkt og síðustu ár. Gjaldskrárhækkanir, sem oft setja svip sinn á VNV í janúar, virðast munu hafa hófleg áhrif í þetta skiptið. Í febrúar ganga svo útsöluáhrif til baka að hluta og matvara hækkar að nýju skv. spá okkar.

Verðbólga undir markmiði allt næsta ár

Útlit er fyrir áframhaldandi hóflega verðbólgu hérlendis svo lengi sem gengi krónu gefur ekki eftir á nýjan leik. Við spáum því að verðbólga verði að jafnaði 1,6% á árinu 2017, og að í lok næsta árs mælist hún 1,7%. Í kjölfarið teljum við hins vegar að verðbólga muni fara vaxandi, fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á öðrum ársfjórðungi 2018 og verða í grennd við 4,0% efri þolmörk markmiðsins á síðasta fjórðungi þess árs. 

Gengi krónu ræður mestu um þá verðbólguþróun sem hér er spáð til meðallangs tíma. Við gerum ráð fyrir áframhaldandi styrkingu krónu út 3. ársfjórðung 2017, og að styrkingin nemi tæplega 5% frá núverandi gildum. Í kjölfarið teljum við hins vegar að gengi krónu taki að lækka á nýjan leik, enda raungengið þá orðið nokkuð hátt, farið að hægja á hagvexti og spennunni í hagkerfinu, og tekið að draga úr gjaldeyrisinnflæði með minnkandi viðskiptaafgangi. Veikingu krónu fylgir aukin verðbólga, en það mildar þó höggið að útlit er fyrir hægari hækkun á launakostnaði og íbúðaverði á seinni hluta spátímans. 

Hins vegar ríkir öllu meiri óvissa en áður um þróun launa á komandi misserum í ljósi vaxandi óróa á vinnumarkaði, og höfum við því bætt í launaforsenduna í verðbólguspá okkar frá fyrri spá. Gerum við nú ráð fyrir því að laun hækki um 6,5% yfir næsta ár, og um 5,0% yfir árið 2018. Þá teljum við að íbúðaverð muni hækka um 7,5% á næsta ári en um 5,5% á árinu 2018. 

Óvissa um þessa áhrifaþætti er nokkuð mismunandi að mati okkar. Hvað gengi krónu varðar teljum við að til skemmri tíma litið sé óvissan fremur til meiri styrkingar en minni. Á móti hallar óvissa varðandi launakostnað og íbúðaverð frekar í þá átt að þessir liðir muni hækka meira en minna á komandi misserum að mati okkar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall