Morgunkorn Íslandsbanka

Minni verðbólga en vænst var í september

26.09.2013

nullVerðlag hækkaði minna í september en vænst var, og er verðbólga nú aftur komin niður fyrir 4,0% vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans eftir að hafa rofið þau mörk í síðasta mánuði. Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,34% í september samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Hækkunin var minni en opinberar spár höfðu gert ráð fyrir, en þær lágu á óvenju breiðu bili þennan mánuðinn og hljóðuðu upp á 0,4% - 0,7% hækkun. Við höfðum spáð 0,4% hækkun. Verðbólga mælist nú 3,9%, en var 4,3% í ágústmánuði.

Útsölulok, menntun og afþreying vega til hækkunar

nullEins og jafnan í septembermánuði höfðu útsölulok veruleg áhrif til hækkunar VNV. Föt og skór hækkuðu í verði um 6,1% (0,30% áhrif í VNV), sem er í meira lagi miðað við síðustu ár. Er verðlag á fötum og skóm u.þ.b. 1,8% hærra nú en fyrir útsölur, sem skýtur skökku við í ljósi dræmrar veltu í slíkri verslun, a.m.k. fataverslunum. Hins vegar lækkuðu húsgögn og heimilisbúnaður um 0,15% (-0,01% í VNV) eftir nokkra hækkun í ágúst. Má nefna í því sambandi að IKEA tilkynnti í síðasta mánuði að verðlag í verslun þeirra myndi ekki hækka í kjölfar útsölunnar miðað við sama tíma í fyrra, en verslunin virðist leiða verðþróun verulegs hluta húsgagnamarkaðarins.  Þá hækkuðu skólagjöld og kostnaður við tómstundir og afþreyingu talsvert eins og jafnan á haustin, og vó sú hækkun til u.þ.b. 0,06% hækkunar VNV að þessu sinni.

..en íbúðaverð, ferðaliður og tannlækningar til lækkunar

nullHúsnæðisliður VNV hækkaði um 0,13% (0,03% í VNV) sem var í samræmi við okkar spá. Þar af lækkaði reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, um 0,06%. Talsverður viðsnúningur hefur orðið í þróun markaðsverðs íbúða í VNV síðustu mánuði eftir talsvert hraða hækkun fyrr á árinu, sem gæti bent til minni umsvifa á húsnæðismarkaði.

Ferða- og flutningaliður VNV lækkaði um 0,26% (0,05% í VNV), og lagðist þar margt á sömu sveif. Eldsneytisverð lækkaði lítillega, og þá lækkuðu flugfargjöld til útlanda þriðja mánuðinn í röð og ýmsir liðir tengdir kaupum og viðhaldi bifreiða lækkuðu lítilsháttar. Loks má nefna að kostnaður við tannlækningar lækkaði um 4,1% (0,05% í VNV) og skýrist það af því að fleiri árgangar barna fá gjaldfrjálsar tannlækningar frá og með 1. september en áður.

Horfur á svipaðri verðbólgu á næstunni

Nokkur hækkun VNV er framundan á síðasta fjórðungi ársins að mati okkar. Bráðabirgðaspá okkar fyrir október hljóðar upp á 0,5% hækkun VNV. Tilkynnt hefur verið um 3,1% verðhækkun á mjólk og mjólkurafurðum um næstu mánaðamót, og þá gerum við ráð fyrir talsverðri hækkun flugfargjalda í mánuðinum, sem og hækkun á verði vetrarvara af ýmsu tagi. Alls gerum við ráð fyrir að VNV hækki um 0,9% á 4. ársfjórðungi,  og að verðbólga mælist að jafnaði 4,1% í fjórðungnum. Er það í samræmi við spá Seðlabankans frá ágúst síðastliðnum. Það veltur svo að miklu leyti á þáttum á borð við útkomu kjarasamninga í árslok, gengisþróun krónu í vetur og útfærslu á skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar hvernig verðbólguþróunin verður í kjölfarið. Við gerum þó í grunninn ráð fyrir að verðbólga haldist á svipuðum nótum á næsta ári, og verði rétt um 4% í lok þess árs.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall