Morgunkorn Íslandsbanka

Óbreyttir vextir í takti við spár

11.12.2013

nullÁkvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að halda vöxtum óbreyttum var í takti við okkar spár og annarra. Er nefndin nú búin að halda vöxtum óbreyttum á öllum vaxtaákvörðunarfundum sínum síðan í nóvember á síðasta ári, eða á alls níu fundum. Allan þann tíma höfum við spáð óbreyttum vöxtum. Í nóvember í fyrra var bankinn hins vegar búinn að hækka stýrivexti sína um 1,75 prósentustig í sex skrefum eftir að hafa farið með þá niður í 4,25% í kjölfar hrunsins.

Auka þarf aðhaldið fyrr og hraðar

Seðlabankinn boðar í yfirlýsingu sinni nú að þeir muni þurfa að auka aðhald peningastefnunnar hraðar og fyrr en áður var áætlað. Ástæðan er bæði nýlega kynntar aðgerðir stjórnvalda til handa skuldugum heimilum og nýbirtar tölur um hagvöxt á þessu ári sem sýna að vöxturinn hefur verið meiri en Seðlabankinn hefur reiknað með.

Á fundi með fjölmiðlum og greiningaraðilum vegna ákvörðunarinnar í morgun kom fram í máli seðlabankastjóra að opinberu mati á efnahagslegum áhrifum ofangreindra aðgerða ríkisstjórnarinnar fælist vanmat hvað verðbólgu varðar. Seðlabankinn hefur ekki lagt tölulegt mat á aðgerðirnar en telur að áhrif þeirra muni verða umfram þá 0,1% hækkun verðbólgu sem var haldið fram í kynningu stjórnvalda. Aukin verðbólga mun síðan valda því að stýrivextir bankans þurfa að vera hærri en ella, en áhrifin á stýrivexti og vexti almennt voru ekki inni í kynningarefni stjórnvalda vegna aðgerðanna.   

Ítrekuð varnaðarorð til aðila vinnumarkaðarins

Nefndin ítrekar fyrri varnaðarorð sín varðandi niðurstöðu yfirstandandi kjarasamninga og segir að verði launahækkanir umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði bankans er líklegt að vextir hans muni að óbreyttu hækka í framhaldinu, sérstaklega ef slakinn í þjóðarbúskapnum minnkar áfram. Það er því ljóst að niðurstaða kjarasamninga mun verða afgerandi þáttur í vaxtaákvörðuninni sem fylgir í kjölfarið.

Undir þessum varnaðarorðum eru aðilar vinnumarkaðarins að takast á við erfiða kjarasamninga þar sem væntingar í baklandi ASÍ virðast vera verulega úr takti við það sem SA er tilbúið til að ganga að. SA hefur lagt mikla áherslu á að niðurstaða kjarasamninga verði á þeim nótum sem Seðlabankinn vill, þ.e. að þær samrýmist verðbólgumarkmiði bankans. Í baklandi ASÍ hefur hins vegar verið lögð þung áhersla á hækkun lægstu launa í blandaðri leið prósentuhækkana og krónutöluhækkana. Hefur deilunni nú verið vísað til sáttasemjara. En það er ekki einungis launaliðurinn sem beðið er eftir heldur er einnig beðið eftir aðkomu stjórnvalda að samningunum, en ljóst er að aðilar vinnumarkaðarins vilja fá stjórnvöld að borðinu með nokkur stór mál s.s. peningamál.

Peningastefnunefndin hefur sagt að verði launahækkanirnar í samræmi við það sem felst í núverandi verðbólguspá Seðlabankans muni nefndin fylgja eftir með hækkun stýrivaxta. Fram kom á ofangreindum kynningarfundi með fjölmiðlum og greiningaraðilum í morgun að efri mörk í kröfum verkalýðsfélaganna varðandi almennar kjarasamningsbundnar hækkanir væru undir þessum mörkum sem felast í spá Seðlabankans. Hins vegar er spurning með kröfur um hækkun lægstu launa og hvernig þær muni smitast upp launastigann. 

Munu hækka vexti snemma á næsta ári

nullVið teljum að peningastefnunefndin muni hækka stýrivexti sína á næsta ári. Spáum við tveim 0,25 prósentustiga hækkunum. Ofangreind yfirlýsing peningastefnunefndarinnar styrkir þá spá. Teljum við að fyrri hækkunin muni koma snemma á árinu, eða skömmu eftir að niðurstaða kjarasamninga liggur fyrir. Verðbólgan mun að okkar mati verða á næstu misserum þrálátari en Seðlabankinn spáir og mun bankinn bregðast við þeirri þróun með stýrivaxtahækkunum samhliða því að slakinn hverfur úr hagkerfinu sem ætti að vera á næstu tveim árum. Spáum við því að bankinn muni hækka vexti sína enn frekar á árinu 2015 og fara þá með stýrivextina upp í 6,75%. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall