Morgunkorn Íslandsbanka

Hagvöxtur 2014 í samræmi við væntingar

10.03.2015

Landframleiðsla á Íslandi óx talsvert að raungildi á síðasta ári, þótt vöxturinn væri öllu hægari en árið 2013. Samsetning hagvaxtar var hins vegar mjög ólík þessi tvö ár. Þetta eru öllu jákvæðari tölur en fyrri bráðabirgðatölur Hagstofu um landsframleiðslu á fyrstu níu mánuðum ársins gáfu til kynna. Tölurnar eru þó í samræmi við væntingar okkar sem og nýjustu spá Seðlabankans, og ættu því ekki að breyta sýn Seðlabankans á stöðu hagkerfisins við næstu vaxtaákvörðun eða að hafa áhrif á ákvörðun peningastefnunefndar um stýrivexti þann 18. mars nk.

Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar var hagvöxtur á síðasta ári 1,9%. Landsframleiðslan nam alls 1.993 mö. kr. árið 2014, og jókst um 112 ma. kr. milli ára. Innlend eftirspurn dreif vöxtinn á síðasta ári, enda jukust þjóðarútgjöld um 5,3% sem jafngildir framlagi til hagvaxtar upp á 4,9%. Framlag utanríkisviðskipta var því neikvætt um 3,0% þrátt fyrir allnokkurn vöxt útflutnings.

Hagvöxturinn í fyrra var talsvert hægari en árið 2013, þegar hann mældist 3,6%. Samsetning hagvaxtarins er einnig gerólík, því árið 2013 var vöxturinn nær alfarið drifinn af mjög hröðum vexti útflutnings, sér í lagi á þjónustu, en þjóðarútgjöld drógust lítillega saman.

Myndarlegur vöxtur einkaneyslu

Einkaneysla jókst um 3,7% að raungildi á árinu 2014. Er það talsvert meiri vöxtur en 9 mánaða tölur Hagstofunnar gáfu til kynna, en í samræmi við aðrar hagtölur tengdar einkaneyslu á borð við kortaveltu, smásöluveltu og innflutning neysluvara. Þetta er raunar hraðasti vöxtur einkaneyslu frá árinu 2007, en til samanburðar óx einkaneysla aðeins um 0,5% á árinu 2013. Einkaneysluvöxturinn var 4,5% á síðasta fjórðungi ársins, en einnig voru fyrri ársfjórðungar endurskoðaðir til meiri vaxtar eins og við og fleiri höfðum raunar búist við í ljósi annarra hagtalna. 

Samneysla jókst um 1,8% á liðnu ári. Það er mesti vöxtur hennar frá árinu 2008, en mun hægari en árin 2005-2008 þegar samneysla jókst að meðaltali um 4,2% á ári.

Fjárfesting vex, en er enn í minna lagi

Vöxtur fjármunamyndunar í fyrra var sá mesti frá árinu 2006, en hann nam 13,7% í heildina. Vöxturinn var myndarlegur í öllum undirflokkum fjárfestingar. Atvinnuvegafjárfesting óx um 15,1% að raungildi, fjárfesting í íbúðarhúsnæði um 14,9% og fjárfesting hins opinber um 7,5%.

Þótt myndarlegur vöxtur fjárfestingar á síðasta ári sé vissulega jákvæður er lágt fjárfestingarhlutfall áfram áhyggjuefni. Þar vekur athygli hversu lítill vöxtur er í fjárfestingu í rannsóknum og þróun, sem og iðnaðarfjárfestingu, þótt vöxtur í fjárfestingu tengdri ferðaþjónustu og mannvirkjagerð almennt sé vissulega verulegur. Hlutfall fjárfestingar af VLF var 16,6% á síðasta ári. Hækkar hlutfallið nokkuð milli ára, en er þó í stórum dráttum svipað og síðustu ár. Oft er miðað við 20% af VLF sem eðlilegt fjárfestingarhlutfall meðal þróaðra ríkja og á Ísland enn nokkuð í land með að ná því hlutfalli. Til samanburðar var fjárfestingarhlutfallið að jafnaði 25% af VLF á árunum 1997-2008.

Neikvætt framlag utanríkisviðskipta

Útflutningur jókst samtals um 3,1% að raunvirði árið 2014. Vöxturinn var mun hraðari í útflutningi þjónustu, sem óx um 4,9%, en í vöruútflutningi sem óx um 1,5%. Endurspeglar hraður vöxtur þjónustuútflutnings stóraukin umsvif ferðaþjónustunnar hér á landi á síðasta ári. Innflutningur óx hins vegar mun hraðar en útflutningur á síðasta ári, eða um 9,9%. Svipaður vöxtur var bæði í vöru- og þjónustuinnflutningi, og endurspeglar hann bæði aukna aðfanganotkun vegna útflutnings og vaxandi innlenda eftirspurn. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var því talsvert neikvætt sem fyrr segir, þótt útflutningur hafi á heildina litið reynst umtalsvert meiri en innflutningur.

Nálægt meðalvexti í OECD

Hagvöxtur í fyrra var nálægt meðaltali OECD-ríkja, sem var 1,8%. Vöxturinn var hins vegar talsvert undir 2,6% meðalvexti áranna 1990-2013 hér á landi. Til samanburðar var hagvöxtur meðal OECD-ríkja á því tímabili 2,1% að jafnaði. Við eigum hins vegar von á því að hagvöxtur reynist meiri á þessu ári en var árið 2014, og leggst þar á eitt myndarlegur vöxtur einkaneyslu, hraðari vöxtur fjármunamyndunar og betri horfur um vöruútflutning, ásamt áframhaldandi aukningu í umsvifum ferðaþjónustunnar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall