Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í nóvember

15.11.2018

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% í nóvember frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst verðbólga úr 2,8% í 3,3% í nóvember. Verðbólguhorfur til næstu ársfjórðunga hafa að mati okkar versnað lítillega vegna gengisveikingar krónunnar og útlits fyrir meiri hækkun launa á næsta ári en áður var vænst. Útlit er fyrir að verðbólga verði 3,5% í lok þessa árs og verði að jafnaði um 3,7% á árinu 2019, en hjaðni í kjölfarið og verði að jafnaði 3,2% á árinu 2020 . Hagstofan birtir VNV fyrir nóvember þann 29. nóvember næstkomandi.

Gengislækkun krónu birtist í hækkandi verðlagi

Frá ágústlokum hefur gengi krónu lækkað um ríflega 11% gagnvart körfu helstu viðskiptamynta. Slík gengissveifla hefur óhjákvæmilega áhrif á neysluverð nema almennar væntingar séu um að hún gangi fljótt til baka. Sú virðist ekki vera raunin þessa dagana, enda er verð innfluttra vara þegar tekið að hækka í kjölfar framansagðrar veikingar krónu og er það einn helsti áhrifavaldur í hækkun VNV nú.

 Þessi gengisáhrif koma hvað skýrast fram í vörum með stuttan hillutíma. Má þar nefna að við gerum ráð fyrir að matvælaverð hækki um nærri 0,9% í nóvembermælingu VNV (0,10% áhrif í VNV) og er sú hækkun fyrst og fremst í innfluttum liðum. Þá teljum við að hækkun á bifreiðaverði muni vega til 0,06% hækkunar VNV í nóvember, hækkun á fataverði hafi áhrif til 0,04% hækkunar, hækkun á verði lyfja og lækningavara muni vega til 0,04% hækkunar og verðhækkun á tölvubúnaði og tómstundavörum til 0,03% hækkunar.

Talsvert líf er enn í íbúðamarkaði þótt hægt hafi á hækkunartaktinum, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Gerum við ráð fyrir að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar íbúðaverð að mestu, hækki um 0,5% (0,11% í VNV) og aðrir liðir tengdir húsnæði muni vega til 0,04% hækkunar.

Flugfargjöld og eldsneyti til lækkunar

Á lækkunarhlið VNV-mælingar nóvembermánaðar standa tveir liðir upp úr: Flugfargjöld og eldsneyti. Nóvember er jafnan lækkunarmánuður í flugfargjöldum og bendir könnun okkar til að sú verði einnig raunin nú. Við gerum ráð fyrir að liðurinn lækki í heild um 12% (-0,16%). Þá hefur eldsneytisverð lækkað um ríflega fimmtung á heimsmarkaði frá októberbyrjun og er þeirrar lækkunar farið að gæta í eldsneytisverði hérlendis þrátt fyrir veikingu krónu (-0,06% í VNV).

Verðbólga á uppleið á komandi fjórðungum

Gengislækkun krónu um ríflega 11% frá septemberbyrjun hefur breytt skammtíma verðbólguhorfum nokkuð til hins verra. Við teljum að VNV muni hækka um 0,5% í desember, lækka um 0,1% í janúar næstkomandi en hækka að nýju um 0,7% í febrúar. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 3,5% í árslok og 3,6% í febrúar. Á komandi mánuðum munu áhrif gengislækkunar krónu lita VNV-þróunina talsvert. Í janúar togast að vanda útsöluáhrif annars vegar, og hækkanir á gjaldskrám og ýmsum opinberum gjöldum hins vegar. Í febrúar ganga svo útsöluáhrifin til baka að verulegu leyti.
 
Í kjölfarið teljum við að verðbólga áfram aukast nokkuð fram eftir árinu 2019 og ná hámarki í 3,8% um mitt árið, en taka að hjaðna hægt og bítandi að nýju á seinni hluta þess árs og mælast rétt um 3,0% í árslok 2020. Ástæður hjaðnandi verðbólgu á seinni hluta næsta árs eru fyrst og fremst hægari hækkun íbúðaverðs þegar frá líður og stöðug króna, sem við gerum ráð fyrir að sveiflist í námunda við núverandi gildi á spátímanum. 

Ásamt óvissu um stefnu krónunnar á komandi fjórðungum liggur óvissa spárinnar að miklu leyti í tveimur þáttum: Annars vegar gætu laun hækkað hraðar en hér er spáð, sbr. töflu að ofan, en hins vegar gæti dregið meira úr hækkunartakti íbúðaverðs en gert er ráð fyrir í þessari spá.

Verðbólguspá nóvember 2018

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall