Morgunkorn Íslandsbanka

Óbreyttir stýrivextir í takti við spár

10.02.2016

Peningastefnunefnd seðlabankans hélt stýrivöxtum bankans óbreyttum að þessu sinni í takti við okkar spá og aðrar opinberar spár. Meginvextir bankans verða því áfram 5,75%. 

Framsýna leiðsögnin í yfirlýsingu nefndarinnar er óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun þeirra í desember. Segir nefndin nú, líkt og í desember, að miðað við spá Seðlabankans er líklegt að auka þurfi aðhald peningastefnunnar frekar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni. Aðspurður sagði aðstoðarseðlabankastjóri á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunarinnar í morgun að stórir kraftar væru að togast á í báðar áttir varðandi tón nefndarinnar. Verðbólgan er hins vegar að rísa seinna en í síðustu spá bankans og hefur nefndin því meiri tíma til að bregðast við þeirri þróun. 

Nefndin vísar þarna í nýja verðbólguspá bankans en samkvæmt henni mun verðbólgan verða mun minni næsta kastið en fólst í þeirra síðustu spá sem birt var í nóvember síðastliðnum. Reiknar bankinn nú með því að verðbólgan verði komin í 3.1% í lok þessa árs, en reiknaði áður með því að hún yrði komin í 4,0%.

Er athyglisvert að tónn nefndarinnar er óbreyttur þrátt fyrir talsvert minni verðbólgu að jafnaði í nýju spá bankans. Breytingin á verðbólguspá þessa árs er að mestu vegna hagstæðari upphafsstöðu og mikillar lækkun olíuverðs undanfarið. Einnig kom fram á kynningarfundinum að fyrstu áhrif af veglegri hækkun launa á síðasta ári virtust minni en gert hafði verið ráð fyrir. Eftir sem áður spáir Seðlabankinn u.þ.b. 4,0% verðbólgu á næsta ári. 

Undirliggjandi innlendur verðbólguþrýstingur verður hins vegar meiri næsta kastið en fyrri spá bankans gerði ráð fyrir. Reiknar bankinn með því að launakostnaður á framleidda einingu muni hækka meira í ár en bankinn reiknaði með áður, að slökun í aðhaldsstigi í ríkisfjármálum verði meiri en áður var spáð og að framleiðsluspennan í hagkerfinu verði meiri en reiknað var með í síðustu spá bankans.  Verðbólguspáin til lengri tíma endurspeglar mikla innlenda kostnaðarverðbólgu og framleiðsluspennuna.

Seðlabankinn reiknar með því að hagvöxtur í ár verði 4,2%. Er það meira en hann spáði í sinni síðustu spá sem birt var í nóvember, en þá reiknaði hann með 3,2% hagvexti. Er hagvaxtarspá bankans fyrir þetta ár nú nálægt okkar spá, en við reiknum með 4,4% hagvexti á þessu ári. Meiri vöxtur einkaneyslu skýrir breytinguna frá nóvemberspánni að mestu. 

Ákvörðun bankans í morgun og hin framsýna leiðsögn er í takti við okkar spá. Samkvæmt þeirri spá okkar mun nefndin haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum fram á síðasta fjórðung þessa árs. Reiknum við með því að virkir stýrivextir munu hins vegar hækka fyrr á árinu vegna færslu virkra vaxta bankans frá botni vaxtagangsins að miðju hans vegna minna lausafjár í fjármálakerfinu. Talsverð óvissa er þó um tímasetningu og heildaráhrif þessarar breytingar.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall