Morgunkorn Íslandsbanka

Stýrivextir óbreyttir í takti við spár

30.09.2015

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á vaxtaákvörðunardeginum í dag var í takti við okkar spá og annarra sem spá opinberlega fyrir um stýrivexti bankans. Tónninn varðandi frekari hækkun vaxta er heldur mildari en var í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar.

Boða meiri hækkun stýrivaxta

Í takti við okkar spá heldur peningastefnunefndin framsýnni leiðsögn til frekari hækkunar stýrivaxta, en í yfirlýsingu nefndarinnar sem birt var í morgun segir að aukist verðbólgan í framhaldi af kjarasamningum svipað og spár benda til mun peningastefnunefndin þurfa að hækka vexti frekar eigi verðbólgumarkmiðið að nást til lengri tíma litið. 

Við teljum eftir sem áður að stýrivextir verði óbreyttir fram á mitt næsta ár, en muni í kjölfarið hækka um 50 punkta til ársloka. Því til viðbótar mun aðlögun virkra vaxta að miðju vaxtagangsins þegar laust fé minnkar með stöðugleikaframlagi og aflandskrónuútboði væntanlega vera ígildi u.þ.b. 75 punkta vaxtahækkunar sem við reiknum með á fyrri hluta næsta árs.

Styrking krónunnar hægir á hækkunarferlinu

Nefndin segir að sterk króna og alþjóðleg verðlagsþróun hafi gefið svigrúm til að hækka vexti aðeins hægar en áður var talið nauðsynlegt en breyti þó ekki þörf fyrir aukið aðhald á næstu misserum. Líkt og reikna mátti með segir nefndin að hagvöxtur á fyrri hluta árs hafi verið töluvert meiri en í þeirra nýjustu spá og að útlit sé fyrir öflugan hagvöxt og vaxandi framleiðsluspennu á næstu misserum. Segir nefndin að verðbólguhorfur hafi batnað í nærtíð m.a. vegna hærra gengis krónunnar en að verðbólguhorfur til lengri tíma hafi lítið breyst.

Aðal fréttin er hækkun bindiskyldu

Tíðindin í yfirlýsingu nefndarinnar í morgun er að nefndin hefur ákveðið að auka bindiskyldu úr 2% í 4% til að auðvelda bankanum að stýra lausu fé í umferð í framhaldi af miklum gjaldeyriskaupum bankans að undanförnu og í tengslum við uppgjör slitabúa gömlu bankanna og útboð sem áformað er í því skyni að leysa út eða binda svokallaðar aflandskrónur. 

Álögð bindiskylda er 31,1 ma. kr. á bindiskyldutímabilinu 21. september til 20. október, en breytingin tekur til tímabilsins sem hefst 21. október. Má þá reikna með því að fjárhæð álagðrar bindiskyldu aukist um helming eða í ríflega 60 ma. kr. m.v. síðasta tímabil. Sagði Seðlabankastjóri á kynningarfundi í morgun vegna ákvörðunar nefndarinnar að þetta sé ekki aðgerð til að hafa áhrif á aðhaldsstig peningastefnunnar og að hér væri um tímabundna aðgerð að ræða, m.a. til að tryggja að framgangur peningastefnunnar sé með þeim hætti sem hann eigi að vera. Við teljum þó að breyting bindiskyldunnar hafi einhver áhrif til aukins aðhalds, þótt erfitt sé að festa fingur á hversu mikið aðhaldið eykst.

Ósáttir við minna aðhald í ríkisfjármálum

Nefndin segir að þegar tekið sé tillit til hagsveiflu feli afkoma ríkissjóðs í ár og frumvarp til fjárlaga 2016 í sér slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum. Sagði Seðlabankastjóri á kynningarfundi vegna vaxtaákvörðunarinnar í morgun að slökunin í aðhaldi ríkisfjármála nemi um 1,5% af landsframleiðslu. Segir nefndin að þetta kalli að óbreyttu á meiri peningalegt aðhald en ella. 

Aflandskrónuútboðið rétt fyrir eða eftir næstu áramót

Seðlabankastóri sagði á ofangreindum kynningarfundi að mikil vinna væri búin að eiga sér stað í undirbúningi fyrir aflandskrónuútboð sem boðað var í október eða nóvember á þessu ári. Sagði Seðlabankastjóri að tímasetning útboðsins myndi ekki víkja langt frá þeim tíma sem boðað var og nefndi að annað hvort yrði það haldið rétt fyrir eða eftir áramót. Sagði hann að það væri óheppilegt að láta útboðið eiga sér stað á sama tíma og uppgjör gömlu bankanna vegna þess að hvorttveggja myndi hafa áhrif á lausafé í umferð sem nauðsynlegt væri að greina hvort í sínu lagi. Varðandi búin myndi það líklega skýrast í október með hvaða hætti uppgjör þeirra yrði og hver áhrifin yrðu á fjármálakerfið í heild sem og einstakar fjármálastofnanir. 

Ekki fastgengisstefna

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri sagði á ofangreindum kynningarfundi að gjaldeyriskaup bankans undanfarið væru að vissu marki viðbrögð við innflæði fjármagns í vaxtamunaviðskipti undanfarið. Þó væru þau að stærstum hluta til komin vegna mikils afgangs af utanríkisviðskiptum. Hann sagði að styrking krónunnar undanfarið fæli í raun ekki í sér stefnubreytingu að hálfu Seðlabankans og að bankinn væri ekki tilbúinn til að lýsa yfir fastgengi þ.e. að taka markaðsöflin á  gjaldeyrismarkaði algerlega úr sambandi. Sagði hann að styrking krónunnar undanfarið væri til merkis um meiri straum gjaldeyris til landsins og að styrkingin hefði átt sér stað þrátt fyrir að bankinn væri að kaupa mikið af gjaldeyri. Hann sagði að það væri spurning hversu mikið bankinn ætti að  leggjast gegn breytingum á gengi krónunnar sem eiga sér stoð í þróun raunhagkerfinu. Raungengið væri enn eftir hækkun krónunnar undanfarið undir meðalstöðu litið til langs tíma.  

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall