Morgunkorn Íslandsbanka

VNV hækkar lítillega í júlí

23.07.2018

Lífseigur hækkunartaktur íbúðaverðs, sér í lagi á landsbyggðinni, er ein helsta ástæða þess að verðbólga mælist nú meiri en við væntum. Nokkuð hefur þó einnig bætt í annan innlendan sem erlendan verðþrýsting í hagkerfinu undanfarið. Útlit er fyrir verðbólgu á svipuðum slóðum áfram næstu mánuði. 

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,04% í júlí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 2,7% en var 2,6% í júní. VNV án húsnæðis lækkaði um 0,26% frá júní og hefur sú vísitala hækkað um 1,4% undanfarna 12 mánuði. 

Við spáðum 0,2% lækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu -0,2%  til 0,1% milli mánaða. Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að stærstum hluta í mikilli hækkun reiknaðrar húsaleigu um 1,0% (0,22%), en hún endurspeglar íbúðaverð að mestu. Einnig hækka flugfargjöld enn meira en við spáðum fyrir, eða um 23,0% (0,31%).

Húsnæðisliður til hækkunar

Síðastliðna mánuði hafa mælingar Hagstofunnar á íbúðaverði verið nokkuð óútreiknanlegar. Eins og undanfarin misseri er húsnæðisliður VNV meginrót þeirrar verðbólgu sem nú mælist. Í júlímælingunni hækkaði húsnæðisliðurinn í heild um 0,77% (0,27% í VNV). Greidd húsaleiga hækkaði um 0,32% (0,01% í VNV) en mestu munar um 1% hækkun reiknaðrar húsaleigu (0,22% í VNV) sem byggir að mestu á þróun íbúðaverðs. 

Undirvísitölur Hagstofunnar fyrir markaðsverð íbúðarhúsnæðis sýna þróunina eftir tegund og staðsetningu húsnæðis. Allar undirvísitölur í júlímælingunni hækka frá fyrri mánuði. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkar minnst eða um 0,3% og  verð á sérbýli á sama svæði um 1,2%. Langmest hækkar hins vegar verð á landsbyggðinni eða um 3,3% milli mánaða og hefur það hækkað um 12,5% frá áramótum. 

Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur íbúðaverð einungis hækkað um 6% undanfarna 12 mánuði og hefur því dregið umtalsvert úr árshækkunartaktinum sem fór hæst síðasta sumar þegar hann var um 24%. Virðist sem betra jafnvægi sé að skapast á markaði þessa dagana. Hröð hækkun íbúðaverðs á landsbyggðinni undanfarið er þó athyglisverð og er ein líkleg ástæða vaxandi eftirspurn eftir eignum í stórum þéttbýliskjörnum við jaðar höfuðborgarsvæðisins á borð við Árborg og Reykjanesbæ. 

Flugfargjöld og heilsuliður hækka 

Liðurinn ferðir og flutningar hækkaði í heild um 1,9% (0,33% í VNV) og þar vó mest liðurinn flutningar í lofti sem hækkaði um 20,3% (0,31% í VNV). Þetta er örlítið meiri hækkun en við spáðum fyrir en um árstíðabundna hækkun er að ræða þar sem algengt að þessi liður hækki umtalsvert yfir sumartímann. Einnig hækkaði liðurinn heilsa um 0,69% í júlímælingunni (0,03%).

Útsöluáhrifin í takti við væntingar

Útsöluáhrifin eru nokkurn veginn í þeim takti sem við áttum von á í júlí. Liðurinn föt og skór lækkaði um 11,3% í júlí (-0,41% í VNV). Einnig lækkaði verð öðrum vörum og þjónustu um 0,70% (-0,04% í VNV) og verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 0,36% (-0,01% í VNV). Auk framantalinna lækkana sem rekja má að stórum hluta til útsöluáhrifa lækkaði matur og drykkjarvörur í verð um 0,11% (-0,01 VNV).

Verðbólga líklega svipuð á næstunni

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aðeins hækka næstu mánuðina og mun verðbólga áfram vera örlítið yfir 2,5% markmiði Seðlabankans. Við spáum 0,4% hækkun VNV í ágúst, 0,3% hækkun í september og 0,3% hækkun VNV í október. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,8% í októbermánuði. Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu í spá okkar og svo munu áhrif útsöluloka lita mælingar í haust. Þá gerum við ráð fyrir nokkurri árstíðarbundinni lækkun flugfargjalda í ágúst- og september. 

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall