Morgunkorn Íslandsbanka

Verðbólga áfram undir markmiði Seðlabankans

27.06.2014

nullVerðbólga mældist 2,2% í júní, og er þar með áfram undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, fimmta mánuðinn í röð. Útlit er fyrir að verðbólgan verði á svipuðum slóðum fram eftir ári, og gangi það eftir verður það lengsta tímabil verðbólgu við markmið Seðlabankans í áratug.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,36% í júní frá fyrri mánuði. Mælingin er nokkuð yfir spá okkar (0,2% hækkun) en opinberar spár lágu á bilinu 0,2% - 0,4% hækkun.

Veruleg hækkun á flugfargjöldum og hótelgistingu

nullVerðhækkun á flugfargöldum vó þyngst í hækkun VNV í júní, en í heild hækkaði sá liður um 11,7% (0,20% í VNV). Þar af hækkuðu flugfargjöld til útlanda um 12,2% en flugfargjöld innanlands um 8,0%. Við höfðum gert ráð fyrir að lítil breyting yrði á flugfargjöldum í mánuðinum. Einnig varð dágóð hækkun á liðnum hótel og veitingastaðir, eða sem nemur um 1,5% (0,07% í VNV). Þar vó 28% verðhækkun á hótelgistingu þyngst, en sú hækkun er ástíðarbundin og er aðeins seinni á ferðinni þetta árið en undanfarin ár. Yfir þá liði sem hækkuðu hvað mest í mánuðinum má að lokum nefna að menntun hækkaði um 5,7% (+0,07% í VNV) sem kemur til vegna 10,5% hækkunar á skráningargjöldum í háskóla.

Íbúðaverð lækkar en vegur þó þungt í ársverðbólgu

Reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar markaðsverð íbúðarhúsnæðis, lækkaði um rúm 0,3% á milli maí og júní (-0,05% í VNV). Skýrist það af 2,2% lækkun húsnæðisverðs á landsbyggðinni og 0,9% lækkun á verði sérbýla á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma hækkaði verð fjölbýla á höfuðborgarsvæðinu um 0,5%. Talsverðar sveiflur geta verið á milli mánaða í þessum húsnæðisverðmælingum Hagstofnunnar og betra að líta til lengri tíma til að meta þróun markaðarins. Með lækkuninni nú dregur úr 12 mánaða hækkunartakti húsnæðisverðs á milli maí og júní, þ.e. fer úr 9,7% niður í 8,4%. Engu að síður er húsnæðisverð enn að hækka hratt á þennan mælikvarða og sú hækkun einn helsti drifkraftur verðbólgu um þessar mundir, og skýrir um 1,2 prósentustig af þeirri 2,2% verðbólgu sem mælst hefur síðustu 12 mánuði. Mælist verðbólga því ekki nema 1,0% sé húsnæðisverð undanskilið. Á heildina litið lækkaði húsnæðisliður VNV talsvert minna á milli maí og júní, eða um 0,03%, sem skýrist af tæpri 0,4% hækkun á greiddri húsaleigu (0,01% í VNV) og 0,6% hækkun á viðhaldi og viðgerðum húsnæðis (0,01% í VNV).

Matur og drykkjarvara lækka

nullMat- og drykkjarvörur lækkuðu í verði um tæp 0,2% í júní (-0,02% í VNV), þar sem flestir undirliðir voru að lækka. Um 2,2% lækkun á verði á ávöxtum vó þyngst í lækkuninni (-0,02% í VNV) á sama tíma og 2,0% hækkun á grænmeti vó þyngst til hækkunar (0,02% í VNV). Af öðrum lækkunarliðum má nefna 1,1% lækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði (0,02% í VNV) og 0,3% lækkun á bílum (0,02% í VNV).

Að lokum má nefna að 0,2% lækkun varð á áfengi og tóbaki á milli maí og júní (-0,01% í VNV), sem kemur einna helst til af þeirri lækkun sem varð á krónutölugjöldum þeirra í júníbyrjun. Lækkunin er aðeins minni en við bjuggumst við (-0,02% í VNV), en samkvæmt verðmælingu okkar höfðu þó ekki nærri allar víntegundir lækkað í verði vegna ofangreindrar lækkunar. Kann því að vera að talsverður hluti vínumboða eigi eftir að ráðast í þá lækkun sem mun þá hafa áhrif síðar í sumar.

Ágætar verðbólguhorfur til skemmri tíma

nullHorfur eru á áframhaldandi hóflegri verðbólgu á næstunni. Við gerum ráð fyrir að VNV lækki um 0,4% í júlí, en hækki að nýju um 0,4% bæði í ágúst og september næstkomandi. Áhrif útsala og útsöluloka skýra sveifluna í VNV næstu þrjá mánuði. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 2,2% í septembermánuði. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir að verðbólga verði á svipuðum slóðum, og mælist enn undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í árslok.

Verði þróunin með ofangreindum hætti jafngildir það lengsta tímabili verðbólgu við 2,5% markmið Seðlabankans frá því 2003-2004 þegar verðbólga mældist við markmið bankans í hálft annað ár. Það veltur þó m.a. á því hvort krónan helst stöðug og hversu hratt húsnæðisverð og innlendur kostnaður hækkar næsta kastið hvort verðbólga reynist jafn hófleg og við væntum á næstunni.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall