Morgunkorn Íslandsbanka

Landsmenn sjaldan bjartsýnni í marsmánuði

29.03.2017

Væntingavísitala Gallup (VVG) hækkaði um 3,5 stig á milli febrúar og mars sl. Stendur vísitalan nú í 129,2 stigum, sem er þriðja hæsta gildi sem hún hefur náð í marsmánuði frá upphafi mælinga. Endurspeglar það almenna bjartsýni á meðal Íslendinga, enda marka 100 stig jafnvægi milli bjartsýni og svartsýni meðal neytenda. Sú staða er í góðu samræmi við þann góða gang sem verið hefur í hagkerfinu og í kjölfarið efnahag heimila að jafnaði. Þetta má sjá í Væntingavísitölu Gallup fyrir marsmánuð sem Gallup birti í gærmorgun. 

Neytendur sjaldan verið sáttari við „núið“

Ljóst er af niðurstöðu mælinga Gallup að heimilin eru mjög sátt við núverandi stöðu og þar að auki bjartsýn á framtíðina. Gildi undirvísitölunnar sem á að endurspegla mat neytenda á núverandi stöðu hækkaði um 4,9 stig á milli mælinga og mælist nú 153,4 stig, sem er mjög hátt sögulega séð eins og sést á myndinni hér fyrir neðan. Jafnframt telur meirihluti svarenda að staðan verði enn betri að 6 mánuðum liðnum, en sú vísitala stendur í 113,1 stigi og hækkar um 2,5 stig frá síðustu mælingu. 

Stórkaupavísitalan hækkar

Samhliða VVG birti Gallup einnig niðurstöður úr ársfjórðungslegum mælingum sínum á fyrirhuguðum stórkaupum neytenda fyrir fyrsta ársfjórðung. Talsverð breyting var á þeirri vísitölu, en hún hækkaði um 5,4 stig frá fjórðungnum á undan og er 8,9 stigum hærri en hún var á sama tíma í fyrra. Mælist stórkaupavísitalna nú 72,2 stig og er talsvert yfir langtímaeðaltali sínu (60,1 stig), eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. 

Gengisþróun ýtir undir bílakaup og ferðalög

Þróunin á undirvísitölum stórkaupavísitölunnar var aðeins mismunandi en í heildina bendir hún til að einkaneysla komi til með að vaxa nokkuð myndarlega næsta kastið. Ber hér fyrst að nefna vísitöluna fyrir bifreiðakaup sem rauk upp um 9,7 stig, og mælist sú vísitala nú 36,0 stig. Hefur hún ekki mælst hærri síðan á öðrum ársfjórðungi 2007, og er gildi hennar langt umfram langtímameðaltal sitt (24,7 stig). Um fimmtungur þjóðarinnar hyggur á bifreiðakaup á næstu mánuðum, og má ætla að gengi krónunnar sem hefur leitt til talsverðar lækkunar á verði bifreiða spili þar stóra rullu.
 
Styrking krónu kemur einnig við sögu í undirvísitölunni um fyrirhugaðar utanlandsferðir. Hefur styrkingin gert það enn hagstæðara en áður að dvelja á erlendri grundu, auk þess sem flugmiðinn til útlanda hefur orðið ódýrari með aukinni samkeppni flugfélaga og framboð áfangastaða stóraukist. Sú vísitala hækkar um 7,6 stig á milli mælinga, og mælist nú 171,5 stig. Hefur vísitalan sjaldan mælst hærri og er jafnframt langt yfir sínu langtímameðaltali (146,1 stig). Alls hyggst um 78% þjóðarinnar ferðast til útlanda næsta árið. 

Þriðja vísitalan fór aðra leið en hinar tvær, en hún lækkaði og er gildi hennar nú jafnframt nokkuð undir langtímameðaltali. Þetta er vísitalan fyrir fyrirhuguð húsnæðiskaup, en hún mælist nú 9,0 stig og lækkar um 1,4 stig á milli mælinga. Síðustu mælingar þessarar vísitölu hafa verið nokkuð sveiflukenndar, og því rétt að túlka stöðu hennar nú varlega. Þó er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvort hröð hækkun íbúðaverðs undanfarið sé hugsanlega farin að hafa áhrif á vilja og getu einhvers hluta landsmanna til að stækka við sig húsnæði, og/eða að fólk sem ella gæti hugsað sér að selja eign sína og minnka við sig vilji sjá hvað setur meðan hækkunarhraðinn er jafn mikill og nú.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall