Morgunkorn Íslandsbanka

Stýrivextir lækkaðir þvert á spár

24.08.2016

Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti sína um 0,5 prósentur í morgun þvert á spá okkar og flestra annarra sem gerðu ráð fyrir óbreyttum vöxtum. Í yfirlýsingu sinni vegna ákvörðunarinnar segir að þrátt fyrir miklar innlendar launahækkanir og aukna framleiðsluspennu hefur verðbólga haldist undir markmiði um tveggja og hálfs árs skeið. Þá hafa verðbólguhorfur batnað frá síðustu spá Seðlabankans og haldist gengi krónunnar óbreytt er útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram á næsta ár.

Breyta yfir í hlutlausa framsýna leiðsögn

Framsýn leiðsögn nefndarinnar er milduð verulega frá því sem var í þeirra síðustu vaxtaákvörðun og er það í takti við okkar spá. Er nefndin nú með hlutlausan tón varðandi næstu skref og segir í niðurlagi yfirlýsingar hennar að hvort stýrivextir bankans lækki frekar eða þurfi að hækka á ný mun á næstunni ráðast af efnahagsþróun og því hvernig tekst til við losun fjármagnshafta. Kemur nokkuð á óvart að ekkert er minnst á þörf fyrir myndarlegan vaxtamun við losun haftanna, nú loksins þegar losunin er handan við hornið. Eftir sem áður verður þó vaxtamunurinn verulegur næsta kastið.

Aðhald peningastefnunnar hefur skilað minni verðbólgu

Nefndin fjallar um það í yfirlýsingu sinni að aðhaldssöm peningastefna hafi dregið úr lánsfjáreftirspurn, aukið sparnað og rennt stoðum undir meiri viðskiptaafgang og hækkun krónunnar. Segir nefndin að þannig haf aðhaldssöm peningastefna leitt til minni verðbólgu og nýlega til þess að verðbólguvæntingar hafi lækkað undanfarið og að verðbólguvæntingar séu nú nálægt verðbólgumarkmiðinu. Af sömu ástæðum hafa raunvextir hækkað nokkuð undanfarið. Undanfarið hefur peningastefnunefndin á stundum haft einhverjar efasemdir um hversu vel verðbólguálag á markaði endurspegli verðbólguvæntingar, en svo er ekki nú. Verðbólguálag til 10 ára er nú 2,5% í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar, og má segja að það endurspegli væntingar undir markmiði fremur en hitt.

Seðlabankinn svartsýnni á verðbólguþróunina en við

Ný verðbólguspá bankans virðist í fyrstu talsvert bjartsýnni á verðbólguhorfur en fyrri spá bankans frá því í maí. Vissulega hafa þeir dregið verulega úr því sem þeir spá nú í samanburði við síðast um hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) á milli 2. og 3. ársfjórðungs, en þar munar mestu um áhrif styrkingar krónu undanfarna mánuði. Auk þess kemur til að meiri framleiðnivöxtur en áður var talið leiðir til minni aukningar á launakostnaði á framleidda einingu í ár, og þar með minni innlends kostnaðarþrýstings. Eftir sem áður er spá bankans um þróun VNV næstu fjórðunga nánast óbreytt frá síðustu spá, og spáir bankinn því áfram  að verðbólga aukist allhratt á komandi fjórðungum. Ef krónan styrkist frekar eru því verulegar líkur á að verðbólga haldist minni til skemmri tíma en Seðlabankinn spáir nú, og gæti það haft áhrif á næstu vaxtaákvarðanir. Þess má geta að  verðbólguspá Seðlabankans talsvert svartsýnni en verðbólguspá okkar. Óvissumat bankans á verðbólguspánni er hins vegar samhverfara en áður, og endurspeglar það hlutlausan tón peningastefnunefndarinnar um hvert stýrivextir stefni.

Aukinn trúverðugleiki gefur aukinn sveigjanleika

Seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi vegna ákvörðunarinnar í morgun að nýleg verðbólguþróun, styrking krónunnar og lækkun verðbólguvæntinga gerði það að verkum að nú væri hægt að ná verðbólgumarkmiðinu með lægra vaxtastigi en áður var talið. Sagði hann að þetta væri ánægjulegur árangur og til merkis um aukinn trúverðugleika peningastefnunnar sem gefur henni aukinn sveigjanleika. Nefndi hann einnig að þegar svarað væri spurningunni um hvort aðhald peningastefnunnar hafi verið of mikið undanfarið ber m.a. að hafa í huga að peningastefnuna hafi þar til nú skort trúverðugleika og þörf verið á meira aðhaldi en ella að þeim sökum.  

Hugsanleg breyting á gengisforsendu verðbólguspárinnar

Ræddi seðlabankastjóri sérstaklega að fast gengi í verðbólguspá bankans væri tæknileg forsenda en ekki spá. Sagði hann að rétt væri að hafa það í huga þegar verðbólguspár þeirra undanfarið eru skoðaðar, og hvernig þær hafa gengið eftir. Sagði hann að í framhaldi af breytingum á inngripastefnu bankans á gjaldeyrismarkaði og í kjölfarið á væntanlegum skrefum í losun  gjaldeyrishafta myndi Seðlabankinn meta kosti og galla þess að miða við breytilegt gengi í spám sínum. Væri það að okkar mati jákvætt skref í þróun verðbólguspár bankans og sérstaklega í ljósi þess hvað stór áhrifavaldur gengi krónunnar er í verðbólguþróuninni. 

Lítt breyttar hagvaxtarhorfur

Uppfærð hagvaxtarspá sem birt var samhliða ákvörðuninni í morgun gerir ráð fyrir lítilsháttar meiri hagvexti í ár og á næsta ári. Reiknar bankinn nú með 4,9% hagvexti í ár og 4,1% á næsta ári en reiknaði með 4,5% og 4,0% áður. Er bankinn þar að færast nær hagvaxtarspá okkar fyrir þetta sem hljóðar upp á 5,4% en við spáum 4,0% hagvexti á næsta ári. Hins vegar lækkaði bankinn hagvaxtarspá sína fyrir árið 2018 úr 3,0% í 2,6%, og metur bankinn því hagvaxtarhorfur í heild svipaðar á spátímabilinu og áður.

Umtalsverð áhrif á innlendan fjármálamarkað

Viðbrögð við vaxtaákvörðun morgunsins  hafa verið talsverð á mörkuðum. Ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra vaxta hafur þannig lækkað umtalsvert og verð hlutabréfa hækkað töluvert í morgun. Viðbrögðin eru til merkis um að ákvörðun peningastefnunefndarinnar kemur á óvart, og að aðilar á markaði telja að hér á landi sé að vænta nokkuð lægra vaxtastigs að jafnaði á komandi misserum en áður var talið. 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall