Morgunkorn Íslandsbanka

Spáum óbreyttri VNV í júlí

12.07.2016

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) verði óbreytt í júlí frá fyrri mánuði. Á sama tíma í fyrra hækkaði VNV um tæp 0,2% og hjaðnar því verðbólga samkvæmt spánni úr 1,6% í 1,5% á milli júní og júlí, og er þar með áfram talsvert undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Horfur eru á að verðbólga verði undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram undir lok næsta árs. Verðbólga mun hins vegar aukast hratt á árinu 2018 samkvæmt spá okkar og fara yfir efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins í lok þess árs. Hagstofan birtir VNV fyrir júlí kl. 09:00 þann 22. júlí næstkomandi.

Húsnæði, flug og matvörur hækka

Við gerum ráð fyrir að húsnæðisliður VNV hækki um ríflega 0,8% í júlí frá fyrri mánuði (0,23% áhrif í VNV). Þar skiptir mestu 1,2% hækkun á reiknaðri húsaleigu (0,18% í VNV) en könnun okkar bendir til þess að hækkun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis muni reynast veruleg í mælingu VNV nú. 
 
Verðkönnun okkar bendir til verulegrar hækkunar á flugfargjöldum til útlanda milli mánaða (0,21% í VNV), en þar er fyrst og fremst um árstíðarbundin áhrif að ræða. Auk þess gerum við ráð fyrir nokkurri hækkun á matvöruverði (0,07% í VNV), sem skrifast að langstærstum hluta á hækkun mjólkurvara (0,05% í VNV). Tilkynnt var um 2,5% hækkun á heildsöluverði á mjólk og mjólkurafurðum í lok júní sl., en sú verðhækkun er einkum komin til vegna hækkunar launa og tók hún gildi í júlíbyrjun. Af öðrum liðum sem hafa áhrif til hækkunar VNV í júlí í spá okkar má nefna hótel og veitingastaðir (0,03% í VNV) sem endurspeglast einna helst í háannartíma ferðaþjónustu. 

Útsölur og eldsneyti til lækkunar

Að vanda vega sumarútsölur til lækkunar VNV í júlí samkvæmt spá okkar. Við gerum ráð fyrir um 0,54% lækkunaráhrifum vegna þeirra að þessu sinni. Mest eru áhrifin vegna 11,5% lækkunar á fötum og skóm (-0,50% í VNV), en einnig vega útsölur á húsgögnum og heimilisbúnaði til 0,04% lækkunar VNV í spá okkar. Þá hefur eldsneyti lækkað í verði hérlendis um rúm 0,9% (-0,03% í VNV) frá síðustu mælingu Hagstofunnar.

Svipuð verðbólga næstu mánuði

Litið til næstu mánaða spáum við 0,4% hækkun VNV í ágúst, óbreyttri VNV í september og 0,1% hækkun VNV í október. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,8% í október.
 
Eins og fyrri daginn hefur húsnæðisliðurinn hvað mestu hækkunaráhrifin í heildina litið á næstu mánuðum, eða rúmlega 0,12% áhrif á VNV í mánuði hverjum að jafnaði. Í ágúst og september ber einna helst að nefna að útsölulok vega til hækkunar en flugfargjöld halda aftur af hækkun VNV. 

Verðbólga undir markmiði til ársloka 2017

Á síðasta fjórðungi ársins eykst verðbólga nokkuð í spá okkar, en þó ekki meira en svo að hún verður áfram undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Spáum við 2,1% verðbólgu í árslok, sem er talsvert minni verðbólga en við reiknuðum með fyrir mánuði síðan. Kemur það bæði til vegna þess að VNV hækkaði mun minna í júní sl. en við höfðum reiknað með, auk þess sem gengi krónunnar hefur styrkst hraðar en við höfðum gert ráð fyrir.

Gengi krónunnar er einn stærsti áhrifaþáttur verðbólguþróunar hérlendis, og hefur styrking krónunnar undanfarið ár haft mikið að segja um hversu hófleg verðbólgan hefur verið á því tímabili þrátt fyrir hraða hækkun launa og annan innlendan kostnaðarþrýsting. Líkt og kom fram í þjóðhagsspá okkar sem birt var í byrjun júní sl. spáum við því að krónan muni styrkjast enn um sinn.  Gengishækkun krónu mun að mati okkar hvíla á áframhaldandi innflæði gjaldeyris frá utanríkisviðskiptum, en gjaldeyriskaup Seðlabankans og útflæði vegna rýmri fjárfestingarheimilda erlendis fyrir innlenda aðila halda væntanlega aftur af styrkingunni. Spáum við að verðbólga muni haldast undir verðbólgumarkmiði fram á lok næsta árs. Spáum við 2,2% verðbólgu að jafnaði það ár, þar sem hægari hækkun launa og frekari styrking krónu eru helstu áhrifaþættir. 

Þegar líður á seinni helming ársins 2017 aukast líkur á því að gengi krónu taki að lækka að nýju. Kemur þar til minnkandi viðskiptaafgangur, hægari vöxtur í hagkerfinu og lægri raunvextir svo nokkuð sé nefnt. Eftir þennan viðsnúning á gengisþróun krónunnar reiknum við með að verðbólga aukist jafnt og þétt. Teljum við að verðbólga verði að jafnaði 3,4% árið 2018, en undir árslok þess árs gæti verðbólga farið upp fyrir efri þolmörk verðbólgumarkmiðsins en svo mikil hefur verðbólga ekki mælst á Íslandi síðan í árslok 2013.

Verðbólguspá Greiningar Íslandsbanka

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall