Morgunkorn Íslandsbanka

Minnkandi líkur á lækkun stýrivaxta í bráð

03.04.2018

Einhugur ríkir um óbreytta stýrivexti meðal nefndarmanna í peningastefnunefnd Seðlabankans þessa dagana. Einnig eru nefndarmenn samtaka í því að halda núverandi fyrirkomulagi bindiskyldu vegna fjármagnsinnflæðis óbreyttu að sinni. Líkur hafa minnkað á frekari lækkun stýrivaxta á komandi mánuðum.

Allir meðlimir peningastefnunefndar Seðlabankans voru einhuga um að halda stýrivöxtum óbreyttum við síðustu vaxtaákvörðun bankans þann 14. mars síðastliðinn. Samkvæmt nýlega birtri fundargerð vegna funda nefndarinnar í aðdraganda marsákvörðunarinnar var önnur niðurstaða ekki rædd að ráði. Var þetta 10. vaxtaákvörðunin í röð þar sem allir nefndarmenn greiða atkvæði með tillögu Seðlabankastjóra og 5. ákvörðunin samfleytt þar sem enginn nefndarmaður hefði kosið aðra niðurstöðu. Meginvextir Seðlabankans hafa verið óbreyttir í 4,25% frá október á síðasta ári.

Fundargerðin er fremur tíðindalítil, enda leið skammur tími frá næstu vaxtaákvörðun á undan og ekki margt stórra tíðinda úr efnahagslífinu á þeim tíma. Taldi nefndin efnahags- og verðbólguhorfur lítið breyttar frá febrúarfundum sínum.

Nokkuð var rætt um sérstaka bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi á fundum nefndarinnar að þessu sinni, enda las Seðlabankastjóri sérstaka yfirlýsingu á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina þar sem svarað var gagnrýni á bindiskylduna og rök færð fyrir áframhaldandi tilvist hennar. Miðað við fundargerðina talaði hann þar fyrir hönd nefndarmanna allra, þar sem þeir voru sammála um að halda bindiskyldunni óbreyttri enn um sinn þótt aðstæður til að breyta henni gætu skapast á komandi misserum. Bindiskyldan nær til innstreymis fjármagns til Íslands sem ávaxtað er í innlánum í krónum eða fjárfest í skuldabréfum. Er skylt að leggja fjárhæð sem svarar til 40% slíkra fjárfestinga inn á vaxtalausan reikning í Seðlabankanum sem bundinn er til 12 mánaða.

Peningastefnunefndin ræddi lítilsháttar hækkun verðbólguvæntinga frá síðustu vaxtaákvörðun en taldi ekki ástæðu til að hafa miklar áhyggjur af þeirri þróun að sinni.

Minni líkur á vaxtalækkun íár

Líkur á vaxtalækkun á yfirstandandi ári hafa minnkað undanfarið að mati okkar. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Samstaða nefndarinnar um óbreytta vexti hefur verið alger frá vaxtalækkuninni í október síðastliðnum Í desember var það nefnt á fundum hennar að dregið hefði úr líkum á frekari vaxtalækkun og síðan hefur vaxtalækkun ekki verið rædd ef marka má fundagerðirnar. Þá hafa nýjustu verðbólgumælingar Hagstofunnar sýnt öllu meiri verðbólgu en Seðlabankinn vænti í síðustu spá sinni og teljum við að svo verði áfram næstu mánuði. Ástæðan er ekki síst að hækkunartaktur á íbúðamarkaði hefur reynst lífseigari en margir væntu, þótt hann sé vissulega mun hóflegri en var fyrir ári síðan. Einnig má nefna að verðbólguvæntingar hafa hækkað nokkuð undanfarið, bæði ef litið er til verðbólguálags á skuldabréfamarkaði og nýlegrar könnunar á væntingum stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins. Loks hefur óvissa um launaþróun á komandi misserum farið vaxandi í ljósi nýlegrar umræðu innan verkalýðshreyfingarinnar og innlendur kostnaðarþrýstingur gæti því reynst meiri þegar frá líður en við og Seðlabankinn höfum gert ráð fyrir í nýlegum spám. 

Það sem helst gæti orðið til að endurvekja áhuga peningastefnunefndar á frekari lækkun stýrivaxta væri ef krónan heldur áfram að styrkjast líkt og hún hefur gert undanfarnar vikur. Frá áramótum nemur styrking krónu u.þ.b. 2,5% miðað við gengisvísitölu og er krónan nú á svipuðum slóðum og í júlí síðastliðnum á þann kvarða. Styrking krónu er hins vegar talsvert hóflegri, og gengissveiflur minni, en var á sama tíma fyrir ári síðan þrátt fyrir að höft hafi í millitíðinni verið losuð og Seðlabankinn nánast alfarið hætt inngripum á gjaldeyrismarkaði.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall