Morgunkorn Íslandsbanka

Minni afgangur af þjónustuviðskiptum á fyrri helmingi ársins

31.08.2018

Afgangur af þjónustujöfnuði var 14 ma.kr. minni á fyrri hluta ársins en á sama tíma í fyrra. Ástæðan er meðal annars sú að ferðagleði landsmanna hefur aukist talsvert á milli ára á meðan mun hægari vöxtur hefur verið í tekjum af erlendum ferðamönnum hér á landi. Þá jókst innflutt viðskiptaþjónusta, sem meðal annars inniheldur rekstrarleigu, talsvert milli ára. Útlit er fyrir að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum gæti orðið eitthvað minni á þessu ári í heild en á síðasta ári.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar var afgangur af þjónustujöfnuði við útlönd 55 ma.kr. á 2. ársfjórðungi. Það er 6 mö.kr. minni afgangur en á sama tíma í fyrra. Vöxtur varð bæði í útflutningi og innflutningi á milli ára, en innflutningsvöxturinn hafði þó vinninginn.

Aukin ferðagleði landans

Aukning á þjónustuinnflutningi átti sér meðal annars rót í ferðalögum landsmanna á erlendri grundu. Útgjöld vegna innfluttrar ferðaþjónustu jukust þannig um ríflega 20% á milli ára á fyrri helmingi ársins á meðan tekjur af útfluttri ferðaþjónustu uxu um rúm 8%. Sér í lagi var vöxtur ferðaútgjalda landsmanna mikill á fyrsta fjórðungi ársins, en þá fóru slík útgjöld úr 34 mö.kr. í 42 ma.kr. á milli ára. Jöfnuður í ferðalagaútgjöldum var hagstæður um 53 ma.kr. á fyrri árshelmingi, en á sama tíma í fyrra var afgangurinn af þessum jöfnuði 58 ma.kr.

Einnig jókst halli á liðnum „önnur viðskiptaþjónusta“ talsvert milli ára en hann nam alls 29 mö.kr. á fyrri helmingi ársins samanborið við 20 ma.kr. í fyrra. Undir þennan lið heyrir meðal annars rekstrarleiga á flutningstækjum á borð við skip og flugvélar. Endurspeglar þróun hans því væntanlega að talsverðu leyti kostnað við aukin umsvif íslensku flugfélaganna.

Hagstofan birti einnig töflu þar sem tekin eru saman vöru- og þjónustuviðskipti eins og þau birtast í greiðslujöfnuði. Alls var afgangur af þjónustujöfnuði tæpir 90 ma.kr. á fyrri helmingi ársins, en vöruskiptahalli á sama tíma nam 77 mö.kr. Til samanburðar var þjónustuafgangur tæpir 104 ma.kr. og vöruskiptahalli rúmir 80 ma.kr. á sama tíma í fyrra. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði var því 13 ma.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 24 ma.kr. á fyrri árshelmingi 2017.

Horfur á minni afgangi vöru og þjónustuviðskipta í ár

Útkoma þjónustuviðskipta á seinni helmingi ársins mun ráða úrslitum um hvort dregur úr samanlögðum afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum í ár frá fyrra ári. Útlit fyrir þróun vöruskipta hefur verið að batna nokkuð undanfarið að okkar mati. Verð á helstu útflutningsafurðum hefur farið hækkandi og horfur eru á töluverðri magnaukningu á útflutningi verðmætustu fisktegundanna sem veiddar eru hér við land. Þá hefur vöruinnflutningur aukist hægar en við bjuggust við eftir því sem liðið hefur á árið.

Á móti vegur að ferðamönnum fjölgar nú mun hægar en verið hefur undanfarin misseri, og þeir virðast einnig halda fastar um budduna þessa dagana en áður. Einnig virðist vaxtarbroddurinn í einkaneyslu Íslendinga hafa færst að talsverðu leyti frá því að birtast í auknum kaupum á bílum og húsbúnaði yfir í að gera betur við sig í utanlandsferðum, líkt og ofangreindar tölur sýna. 

Á heildina litið er því líklegast að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á árinu verði nokkru minni en í fyrra. Í þjóðhagsspá okkar í maí spáðum við því að afgangurinn myndi minnka úr 4,1% af VLF árið 2017 í 2,6% af VLF í ár. Hinar nýju tölur virðast í nokkuð góðu samræmi við þá spá.

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall