Morgunkorn Íslandsbanka

Verðbólga hjaðnar í mars

30.03.2016

Afar lítil mæld hækkun reiknaðrar húsaleigu er helsta ástæða þess að vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði minna en við áttum von á í mars. Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði VNV um tæplega 0,4% í mars frá fyrri mánuði. Mælingin reyndist í lægri kantinum m.v. opinberar spár, sem lágu á bilinu 0,4% til 0,8% hækkun og höfðum við spáð 0,6% hækkun. Verðbólga undanfarinna 12 mánaða mælist nú 1,5% en var 2,2% í febrúar. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,46% í mars og m.v. þá vísitölu mælist 0,2% verðbólga undanfarna 12 mánuði en hún hafði verið 0,7% í febrúar. Verðbólgutakturinn hefur ekki verið hægari síðan í júní síðastliðnum, hvort sem litið er til VNV með eða án húsnæðis, og er útlit fyrir að verðbólga verði áfram hófleg næsta kastið.

Reiknuð húsaleiga stendur í stað í mars

Sem fyrr segir var mesta frávik spár okkar frá mælingu Hagstofunnar í húsnæðisliðnum, og gerðu raunar allar opinberar spár ráð fyrir talsverðri hækkun á þessum lið. Húsnæðisliðurinn hækkaði hins vegar einungis um 0,1% (0,03% í VNV). Þar af stóð reiknuð húsaleiga nánast í stað (0,0% í VNV), sem kemur verulega á óvart. Reiknuð húsaleiga endurspeglar að stærstum hluta þróun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, og samkvæmt mælingu Hagstofu stóð markaðsverðið nánast í stað á höfuðborgarsvæði en lækkaði heldur á landsbyggðinni. Að jafnaði er 12 mánaða hækkunartaktur íbúðaverðs nú 6,7% á landinu samkvæmt tölum Hagstofunnar, og hefur hann ekki verið hægari síðan í upphafi árs 2015. Við eigum þó von á því að þessi liður smelli í hækkunarfarið að nýju á komandi mánuðum, enda mikill gangur í hagkerfinu, kaupmáttur vex hratt og framboð á nýju húsnæði er fremur takmarkað, sér í lagi á minni íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. 

Minni áhrif afnáms vörugjalda á fötum en vænst var

Útsölulok höfðu talsverð hækkunaráhrif í VNV að þessu sinni, og voru áhrifin í takti við spá okkar. Föt og skór vega þar þyngst, en slíkar vörur hækkuðu í verði um 3,6% (0,15% í VNV) í mars. Þar af hækkaði fataverð um 3,5% en verð á skóm hækkaði um 4,2%. Mikið hefur verið rætt um væntanleg jákvæð áhrif af niðurfellingu vörugjalda á meirihluta innflutts fatnaðar og skótaus. Á 1. ársfjórðungi í heild lækkaði þessi liður um 4,1%, en frá því í mars í fyrra nemur lækkun hans 4,3%. Frá mars í fyrra hefur gengi krónu hins vergar styrkst um u.þ.b. 8% að jafnaði gagnvart körfu helstu viðskiptamynta. Styrking krónu og niðurfelling 15% vörugjalda af meirihluta innflutnings virðist því ekki hafa skilað sér að fullu í lækkun fata- og skóverðs. Hafa ber þó í huga talsverða hækkun launa og annars innlends kostnaðar hjá verslunum á tímabilinu sem vegur þarna á móti.

Ferðaliður, veitingar og heilbrigðiskostnaður hækkar

Að útsölulokum slepptum vó ferða- og flutningaliður VNV hvað mest til hækkunar hennar að þessu sinni (0,1% í VNV). Flutningar í lofti hækkuðu um 2,6% (0,03% í VNV), og þar af hækkuðu flugfargjöld til útlanda um 4,9% en flugfargjöld innanlands lækkuðu um rúm 13%. Þá hækkaði eldsneytisverð um rúmlega 1,4% (0,04% í VNV). 

Að öðrum hækkunarliðum ná nefna að verð á þjónustu veitingahúsa hækkaði um 0,8% (0,04% í VNV) og verð á heilbrigðisþjónustu og lyfjum sömuleiðis um 0,8% (0,03% í VNV). Hins vegar lækkaði verð á síma- og netþjónustu um 1,0% (-0,03% í VNV), en þessi liður hefur samtals lækkað um nærri 11% frá ágúst síðastliðnum, og virðist samkeppni um slík viðskipti vera nokkuð hörð þessa dagana.

Áfram lítil verðbólga fram eftir ári

Verðbólga hefur nú verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans í 26 mánuði samfellt, og teljum við að svo verði áfram enn um sinn þrátt fyrir umtalsverðan innlendan kostnaðarþrýsting. Við gerum þannig ráð fyrir því að verðbólga fari ekki yfir markmið bankans að nýju fyrr en á lokamánuðum ársins. Styrkist krónan frekar á næstunni mun verðbólgutakturinn haldast enn hóflegri en við gerum ráð fyrir, þar sem í spá okkar er gert ráð fyrir óbreyttu gengi krónu frá núverandi gildum. Eftir sem áður eru þó líkur á að það muni bæta í verðbólgutaktinn á endanum í ljósi mikillar hækkunar launa, fyrrnefndrar stöðu á íbúðamarkaði sem þrýstir upp íbúðaverði og almennt vaxandi spennu í hagkerfinu.

 
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall