Morgunkorn Íslandsbanka

Hlutdeild erlendra eigna lífeyrissjóða nálægt sögulegu meðaltali

22.05.2014

nullErlendar eignir lífeyrissjóðanna eru þessa dagana svipaðar í hlutfalli við heildareignir þeirra og verið hefur að jafnaði undanfarin 17 ár. Um 22% af hreinni eign til greiðslu lífeyris er nú í erlendum eignum. Við þetta mætti raunar bæta skráðum hlutafélögum að því marki sem tekjur þeirra eru í erlendum gjaldeyri enda myntáhætta þeirra fjárfestinga ekki einskorðuð við krónur. 

Ef litið er til sögulegrar þróunar erlends eignarhalds lífeyrissjóðanna fór hlutfall erlendra eigna hæst í 32,6%, en það var í nóvember 2008. Gengi krónunnar hafði mánuðina á undan lækkað töluvert auk þess sem markaðsvirði innlendra eigna féll sem þrýsti þar með upp hlutfalli erlendra eigna. Hlutfall erlendra eigna er í dag svipað og það var um mitt ár 2005. Yfir það tímabil sem mælingar Seðlabankans ná hefur hlutfallið að meðaltali verið 21,3%. Hlutfall erlendra eigna sjóðanna nú um stundir er því í betra samræmi við sögulegt hlutfall en stundum mætti ætla af umræðunni.

Vinsælt viðkvæði að sjóðirnir fari úr landi við haftalos

Í umræðunni um haftalos hefur því gjarnan verið haldið fram að við losun hafta muni lífeyrissjóðirnir flytja verulega fjármuni úr landi með tilheyrandi eignaverðshruni hér heima. Slíkar yfirlýsingar standast illa skoðun. Fyrir utan þá augljósu staðreynd að hlutfallið er ekki sérstaklega lágt í sögulegu tilliti þá kæmi verulegur söluþrýstingur af þeirra hálfu þeim sjálfum verst. Þar fyrir utan munu sjóðirnir ekki flytja fjármuni úr landi við hvaða gengi sem er, enda getur raunávöxtun af erlendum eignum orðið þeim mun rýrari ef þær hafa verið keyptar á umtalsvert lægra raungengi krónu en gildir þegar kemur að innlausn. Líklegra er því að lífeyrissjóðir muni ráðstafa hluta innflæðis umfram lífeyrisgreiðslur til fjárfestinga utan landsteinanna þegar kemur að því að höftin verða rýmkuð, en hrófla síður við innlendu eignasafni sínu í þessu skyni.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall