Morgunkorn Íslandsbanka

Lítill vöxtur í kortatölum í maí

15.06.2015

Lítilsháttar bakslag varð í vöxt kortaveltu íslenskra heimila í maímánuði eftir myndarlegan vöxt á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Líklegt er þó að vöxturinn taki aftur við sér, enda er hann studdur vaxandi ráðstöfunartekjum heimilanna næsta kastið.

Kortavelta einstaklinga jókst um 1,7% í maí sl. frá sama tíma í fyrra að raunvirði (m.v. VNV án húsnæðis) samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans um greiðslukortaveltu. Þetta er mun minni vöxtur en verið hefur síðasta árið, sér í lagi í veltu innanlands sem stóð nánast í stað á milli ára. Að raungildi jókst kortavelta einstaklinga erlendis um 14,0% á milli ára, sem jafnframt er heldur hægari vöxtur en verið hefur að jafnaði síðasta árið. Sé tekið mið af fyrstu fimm mánuðum ársins nemur raunvöxtur í kortaveltu einstaklinga 4,2% frá sama tímabili í fyrra, þar af 2,9% innanlands en 15,0% erlendis.

Reiknum með að bæti í einkaneysluvöxt

Þrátt fyrir lítinn vöxt í kortaveltu einstaklinga í maí teljum við það ekki til marks að hægja sé á vexti einkaneyslu, enda eru oft á tíðum miklar sveiflur í kortatölum á milli mánaða. Eins og kom fram í þjóðhagsspá okkar sem við gáfum nýlega út þá teljum við að það bæti talsvert í einkaneysluvöxt í ár, og að vöxtur einkaneyslu muni nema 4,6% samanborið við 3,7% vöxt í fyrra. Gerum við jafnframt ráð fyrir myndarlegum vexti á næsta ári, eða um 4,2%, en svo taki að hægja á honum og að hann muni nema 2,7% árið 2017. 

Til grundvallar spá okkar um einkaneyslu liggur m.a. spá okkar um vöxt kaupmáttar launa, sem við reiknum með að aukist um 4,8% í ár, 4,3% á næsta ári og 2,6% á árinu 2017. Það sem knýr kaupmátt áfram er fyrst og fremst miklar launahækkanir, en á móti mun verðbólga aukast á tímabilinu og því mun kaupmáttarvöxturinn verða hægari að sama skapi þegar líður á spátímann. Þessu til viðbótar spáum við því að atvinnuleysi haldi áfram að hjaðna fram á næsta ár, en standi í stað eftir það, auk þess sem við gerum ráð fyrir áframhaldandi talsverðri raunverðshækkun íbúðaverðs á tímabilinu.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall