Morgunkorn Íslandsbanka

Kaupmáttur vex, en einkaneysla þó hraðar

24.10.2017

Þrátt fyrir ágætan vöxt kaupmáttar undanfarið vex einkaneysla þó enn hraðar nú um stundir. Útlit er fyrir að á komandi misserum hægi á vexti bæði einkaneyslu og kaupmáttar, en að meira samræmi verði milli þessara stærða en verið hefur upp á síðkastið.

Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 0,8% í september. Eins og oft í þessum mánuði skýra óreglulegar greiðslur (bónusar fiskverkafólks, vaktaálag o.þ.h.) hækkunina að verulegu leyti, en lítil áhrif voru hins vegar af samningsbundnum hækkunum. Hækkunin milli mánaða er nokkru meiri en á sama tíma í fyrra (0,6%), og fer því 12 mánaða hækkunartaktur launavísitölunnar úr 7,2% í 7,4%.


Í september hækkaði vísitala neysluverðs aðeins um ríflega 0,1%. Kaupmáttur launa jókst því um 0,6% í mánuðinum frá fyrri mánuði. Undanfarna mánuði hefur 12 mánaða hækkunartaktur launavísitölu verið nokkuð stöðugur. Hins vegar hjaðnaði verðbólga í september úr 1,7% í 1,4%. Því hefur bætt nokkuð í 12 mánaða takt kaupmáttar launa, og mælist hann nú 6,0%.

Einkaneysla tekur fram úr kaupmáttarvexti

Það sem af er ári hefur vöxtur kaupmáttar launa verið nokkuð hægari en vöxtur einkaneyslu. Framan af áratugnum fylgdust þessar stærðir aftur á móti býsna vel að, og voru því heimilin ekki að skuldsetja sig til að auka einkaneyslu heldur þvert á móti að auka sparnað og greiða niður skuldir. Þessi þróun hefur hins vegar snúist við, og eru merki um aukna skuldsetningu heimila það sem af er ári.

 
Við búumst við að einkaneysla muni aukast talsvert hraðar (8,0%) en kaupmáttur launa (5,0%) á árinu í heild, og heimilin munu samkvæmt því ganga öllu hraðar um gleðinnar dyr í ár en innstæða er fyrir. Á komandi árum er hins vegar útlit fyrir betra samræmi milli þessara stærða, en bæði einkaneysla og kaupmáttur mun vaxa talsvert hægar á næstu árum en verið hefur undanfarið gangi þjóðhagsspá okkar frá september eftir.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall